Leikdeild ungmennafélagsins Eflingar í samstarfi við framhaldsskólann á Laugum frumsýndi þann 5. apríl sl. leikritið Þar sem djöflaeyjan rís í leikgerð Kjartans Ragnarssonar í gær. Sýnt í félagsheimilinu Breiðumýri sem er í nágrenni við Lauga í Reykjadal. Leikstjóri er Hörður Benónýsson og tónlistarstjóri Pétur Ingólfsson. Um ljósin sér Jón Arnkelsson og er Elín Kjartansdóttir búningahönnuður sýningarinnar.
Verkið fjallar um lífið í braggahverfunum í Reykjavík á umrótartímum fyrstu áranna eftir seinna stríð og fjallar um gleði, átök og sorgir fjölskyldunnar í Gamla húsinu sem stendur eitt og sér innan um braggana. Eiga sumar persónur skáldsögunnar sér stoð í raunveruleikanum. Höfundur sögunnar er Einar Kárason en leikritið hefur áður verið sett á svið hér á landi, til dæmis af leikfélagi Akureyrar árið 1995. Einnig leikstýrði Friðrik Þór Friðriksson kvikmynd sem byggð var á skáldverkinu árið 1996 og náði hún miklum vinsældum hérlendis sem erlendis.
Því miður er takmarkaður sýningafjöldi en miðapantanir eru í síma 464 3145 á milli klukkan 18:00 og 20:00 alla daga og einnig tveim tímum fyrir hverja sýningu. Einnig er hægt að fá miða með því að senda póst á netfangið dagvar@mi.is.