Þjóðleikhúsið frumsýnir leikritið Baðstofan eftir Hugleik Dagsson nk. laugardag, þann 9. febrúar. Verkið er sýnt í Kassanum á Lindargötu 7. Hugleikur heldur þar áfram að kanna ástand íslensku þjóðarinnar og möguleika leikhússins í félagi við Stefán Jónsson leikstjóra, Ilmi Stefánsdóttur leikmyndahöfund og hljómsveitina Flís. Nú horfir Hugleikur um öxl en Baðstofan fullkomnar þannig þríleik höfundarins sem krufði samtímann í leikritinu Forðist okkur og spáði í framtíðina í söngleiknum Legi.
 
Baðstofan er þriðja leikritið úr smiðju Hugleiks Dagssonar og hópsins sem stóð að leikritinu Forðist okkur og söngleiknum Legi. Í þetta sinn beinir hópurinn sjónum sínum að fortíð okkar Íslendinga. Verkið gerist í kringum sautján hundruð og súrkál og þar skyggnast áhorfendur inn í myrkan en magnaðan heim því í baðstofunni er ekki allt sem sýnist. Á þeim tímum þegar mannskepnan þurfti að hafa sig alla við til að komast af átti fólk sér líka drauma og þrár. Þegar ótótlegri skepnu skolar á land við bæinn Logn fer af stað óvenjuleg atburðarás, því ekki vilja allir fóstra þennan annarlega gest. Hjörtun slá hraðar og ekki öll í takt, huldufólkið lætur á sér kræla og yfir öllu vofir ægilegt harðæri  – ekki aðeins hið ytra heldur einnig hið innra. Úr þessum hörmungum sprettur þó sitthvað fallegt og kolsvartur húmor höfundarins nýtur sín einkar vel.
 
Hljóðheimur verksins er afar sérstæður en heiðurinn af honum eiga leikmyndahönnuðurinn og myndlistarmaðurinn Ilmur Stefánsdóttir og félagar úr tríóinu Flís – Davíð Þór Jónsson, Helgi Svavar Helgason og Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson ásamt hópnum. Hljóðfærin sem leikið er á í sýningunni eru öll sérstaklega gerð fyrir þetta verkefni og eiga uppruna sinn í gömlum verkfærum og áhöldum, þar er til að mynda leikið á  bein og steina, rokk, vefstól og frumstætt orgel auk þess sem  strokkum og taðkvörn er líka breytt í hljóðfæri.

Leikstjóri sýningarinnar er Stefán Jónsson en aðstandendur uppfærslunnar eru mikið til þeir sömu og í fyrri uppsetningum verka Hugleiks; Ilmur Stefánsdóttir og félagar úr Flís tóku einnig þátt í uppfærslunni á Forðist okkur og söngleiknum Legi. Þórunn Elísabet Sveinsdóttir sér um búninga en hún hlaut Grímuverðlaunin á síðasta ári fyrir sína vinnu við söngleikinn Leg sem og félagarnir í Flís sem sömdu og útsettu tónlist söngleiksins. Um lýsingu sér Egill Ingibergsson. Leikarar í sýningunni eru Brynhildur Guðjónsdóttir, Dóra Jóhannsdóttir, Elma Lísa Gunnarsdóttir, Stefán Hallur Stefánsson, Valur Freyr Einarsson og Vignir Rafn Valþórsson  auk hinna fjölhæfu listamanna í Flís sem leika nú í fyrsta sinn á fjölum Þjóðleikhússins.

{mos_fb_discuss:2}