Uppsprettan er að leita eftir handritum sem aldrei hafa verið flutt á sviði áður. Þau mega vera mest 8 blaðsíður að lengd, eða 8 blaðsíðna heilsteypt atriði. Engar aðrar kröfur eru gerðar. Búið er að mynda nefnd af reyndu leikhúsfólki sem mun lesa handritin og velja svo úr þau þrjú handrit sem þeim þykir best, sem verða þá sett upp af Uppsprettunni á Menningarnótt í Reykjavík þann 24. ágúst næstkomandi. Handritin verða send til þeirra án þess að höfundar verði nafngreindir, en hinsvegar verða höfundar verkanna þriggja, sem valin verða, nafngreindir á sýningarkvöldinu og á fésbókarsíðu Uppsprettunnar.

Leikstjórarnir fá handritin í hendurnar u.þ.b. sólarhring fyrir frumflutning, og fá þá einnig að vita hvaða rými þeir eru að vinna með og hvaða leikhóp. Þeir hafa svo daginn til að hanna uppsetninguna og finna til props, búninga eða hvað sem þeir vilja, og leysa út úr þeim áskorunum sem felast í handritinu, rýminu og/eða leikhópnum.

Um kvöldið, eða þremur klukkutímum fyrir frumflutning, fá leikstjórarnir svo að byrja að vinna með leikurunum og er það einnig í fyrsta sinn sem leikararnir vita hvaða verk þeir eru að fara að vinna og með hverjum. Þremur tímum seinna er svo útkoman sýnd og er ótrúlegt að verða vitni að því sem leysist úr læðingi.

Þannig ef þú hefur áhuga, endilega sendu inn handrit á spretturupp@gmail.com. Skilafrestur er til miðnættis mánudaginn 5. ágúst næstkomandi.

Meiri upplýsingar finnast á Fésbókarsíðu verkefnisins – https://www.facebook.com/pages/Uppsprettan/494644333926281

Listrænir stjórnendur Uppsprettunnar eru Jenný Lára Arnórsdóttir og Ingi Hrafn Hilmarsson.