Fimmtudaginn 1. október kl. 20 mun Leikfélag Reykjavíkur frumsýna á Litla sviði Borgarleikhússins nýtt íslenskt verk, Sókrates eftir Berg Þ. Ingólfsson og Kristjönu Stefánsdóttur í leikstjórn Rafael Bianciotto og Bergs Þórs Ingólfssonar. Egill Ingibergs gerir leikmynd og lýsingu en Kristjana Stefánsdóttir samdi tónlistina. Leikarar eru Kristín Þóra Haraldsdóttir, Maríanna Clara Lúthersdóttir, Bergur Þór Ingólfsson og Kristjana Stefánsdóttir.

Trúðar Borgarleikhússins hafa fært okkur dásamlegar sýningar. Við höfum séð þá glíma við dauðasyndir og jólaguðspjallið. Nú ætla þeir að tækla heimspekina og taka Sókrates sér til fyrirmyndar og spyrja og spyrja og spyrja þangað til við komumst að minnsta kosti skrefi nær því að vita um hvað við getum verið sammála um í heiminum. Trúðum er ekkert óviðkomandi. Í opinni og einlægri nálgun glíma þeir við stóru spurningarnar og eru í senn fyndnir og harmrænir, grimmir og góðir.

Síðasta trúðasýning Borgarleikhússins, Jesús litli, var ótvíræður sigurvegari Grímunnar árið 2010. Jesús litli var valin sýning ársins og leikverkið sjálft var valið leikrit ársins auk þess sem sýningin hlaut sjö Grímutilnefningar. Gagnrýnendur hlóðu sýninguna lofi og áhorfendur voru hrærðir og yfir sig hrifnir.

Rafael Bianciotto fæddist í Buenos Aires í Argentínu og lærði þar tölvunarfræði og leiklist. Í samstarfi við Mario Gonzalez, leikara í París, uppgötvaði hann töframátt grímunnar og Commedia dell´arte. Hann hefur leikstýrt fjölda sýninga og haldið námskeið í trúðleik víða um heim. Hann leikstýrði Dauðasyndunum í Borgarleikhúsinu sem hlaut sex tilnefningar til Grímuverðlauna 2009.

Bergur Þór Ingólfsson útskrifaðist frá Leiklistarskóla Íslands 1995 og hefur verið leikari og leikstjóri við Borgarleikhúsið síðustu 15 ár og leikið í fjölda sýninga, meðal annars í Jesús litla og Dauðsyndunum. Hann leikstýrði Horn á höfði, Hamlet litla, Mary Poppins, Kenneth Mána og Billy Elliot sem sýnt er í Borgarleikhúsinu um þessar mundir. Bergur hefur hlotið fjölda Grímuverðlauna í ýmsum flokkum.

Aðstandendur:
Höfundar: Bergur Þór Ingólfsson & Kristjana Stefánsdóttir| Leikstjórar: Rafael Bianciotto og Bergur Þór Ingólfsson |Tónlist: Kristjana Stefánsdóttir | Leikmynd & lýsing: Egill Ingibergsson | búningar: Stefanía Adolfsdóttir | Hljóð: Garðar Borgþórsson | Leikgervi: Elín S. Gísladóttir | Leikarar: Bergur Þór Ingólfsson, Kristín Þóra Haraldsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir & Maríanna Clara Lúthersdóttir.