Það er sennilega fullmikið að segja að ritdeila sé í uppsiglingu en altént hefur Þorgeir Tryggvason sent Eyvindi P. Eiríkssyni svar við grein hans um pólítískt leikhús. "Niðrá bæjum blæs ei vindur, blíð er tíð og góð"
Toggi svhv

Kæri Eyvindur

Síðan ég las grein þína daginn sem hún birtist á vefnum hefur mig langað til að svara þér. Og langað til að svara þér ekki. Eða kannski ekki "svara", heldur leggja orð í belg, vera með. Þannig er ég nú einu sinni gerður.

Eitt af því sem stóð í vegi fyrir því er að ég er ekki á nógu skýrum öndverðum meiði við þig, og ekki nógu sammála til að skrifa bara: "loksins, loksins!". Við myndum ekki nógu andstæða póla til að almennileg spenna verði á milli. Ég er nefnilega ekki pólverji (afsakaðu orðaleikinn, ég hreinlega stóðst hann ekki). Ég held að ég verði aldrei róttæklingur að neinu leyti, nema á því örlitla sérsviði að berjast fyrir því að óperur séu fluttar á Íslensku fyrir íslendinga, í því máli er ég talibanskur í hugsun, hef myndað mér skoðun sem er hin eina rétta, hlusta ekki á rök og lít á málamiðlanir sem svik.

Mér finnast öll mál flókin. Ég kem aldrei auga á neinar einfaldar lausnir. Oftast ekki á neinar lausnir. Öll skýr dæmi kalla á gagndæmi, öll svör vekja spurningar. Þess vegna tek ég aldrei þátt í mótmælum sem einatt eru skipulögð af fólki sem hefur sama viðhorf til viðkomandi mála og ég til óperu á íslensku. Og þess vegna dái ég Shakespeare skálda mest á listanum þínum yfir ádeiluskáld, og Ibsen trúlega þar á eftir, en síst Brecht og Shaw. Suma þekki ég varla (Zola? ertu viss um að verk hans lifi?). Aðra elskaði ég í æsku, Steinbeck var minn maður og kenndi mér ensku í áttunda bekk.

Þess vegna finnst mér pólitískt leikhús vera margt sem þú kannski sérð ekki sem slíkt. Öll leikrit sem segja eitthvað um hvernig samfélag okkar er – allar uppfærslur eldri verka sem varpa ljósi á mannlífið í dag. Vekja spurningar, trufla, pirra. Lýsa ekki endilega skoðun, ráðast ekki endilega að neinu meini.

Besta leikrit sem ég hef lesið nýlega heitir The Lieutenant of Inishmore og er eftir Martin MacDonagh, þann sama og skrifaði Halta Billa og Fegurðardrottninguna frá Línakri. Það er líka það pólitískasta. Þar er ofstæki og einsýni hryðjuverkamannsins dregið sundur og saman í háði. Það er hrikalega ofbeldisfullt, óborganlega fyndið  og snilldarlega byggt. Og ég endurtek: það er pólitískt ádeiluverk – þó það beini spjótum sínum ekki að þeim sem hið formlega vald hafa.

Á næsta ári ætlar Þjóðleikhúsið að sýna Ríkharð III Shakespeares, ef marka má orðróminn. Hefur betra leikrit um vald og hvert ósvífin djörfung og skeytingarleysi í beitingu þess getur skilað fólki verið skrifað síðan? Er það síðan ekki mál áhorfenda að draga ályktanir, finna hliðstæður og andstæður í samtíðinni? Er það ekki gaman?

Samt vil ég ekki fletja hugmyndina um pólitískt leikhús niður í laufabrauðsþykkt. Sumt (líklega flest) af því sem sýnt er er ekki pólitískt. En það er samt ekki alger eyðimörk er það nokkuð?

Hvað með And Björk, of course…? Var það ekki aldeilis nístandi krufning á nútímaíslendingnum þó enginn kæmi þar við sögu ráðamaðurinn? Sástu Vitleysingana hans Ólafs Hauks í Hafnarfirði?

Annars er vandamálið við að greina ástand íslenskrar leikritunar smæð úrtaksins. Það er alltof lítið sýnt af íslenskum leikritum, eitt verk gjörbreytir myndinni.

En kannski er það rétt hjá þér – kannski eru íslenskir leikhúsmenn hræddir við róttækni, ef til vill er handbragð, fagmennska, orðsnilld ofmetnir þættir á kostnað ástríðu, innihalds, róttækni. Kannski erum við öll hrædd. Kannski á bara að leikgera Borgarnesræðu Ingibjargar Sólrúnar – eða semja óperu við hana, á íslensku.

Kannski vantar nýtt Alþýðuleikhús – að einhver hópur leikhúslistamanna komi saman með hugmyndafræði – heimssýn – skoðun sem samnefnara, í stað sjálfhverfari þátta eins og sýn á leikhúsið eða þörf fyrir listrænt frelsi. Það þýðir samt ekkert að skæla yfir því að enginn sé að gera soleiðis. Af hverju erum við ekki að því, þú og ég? Ég veit af hverju ég er ekki að því: ég hef ekki nógu fastmótaða skoðun á nokkrum hlut – enga skýra heimssýn, hvað þá hugmyndafræði, til að vera í, hvað þá stýra, svona hóp. En ég myndi mæta á sýningar hans. Og kannski sannfærast.

Með kveðju,

Þorgeir Tryggvason
http://varrius.blogspot.com

PS
Titill greinarinnar er úr óperunni "Dauði Tótu" sem er hluti af leikritinu Embættismannahvörfin, eftir Önnu Kristínu Kristjánsdóttur, Ármann Guðmundsson, Fríðu B. Andersen, Sigrúnu Óskarsdóttur, Sævar Sigurgeirsson, Unni Guttormsdóttur, V. Kára Heiðdal og undirritaðan. Verkið er um sjálfstæðisbaráttu nokkurra íslendinga á síðari hluta tuttugustu aldar og óperan um Eyvind og Höllu.

PPS
Ég sendi líka inn þátt sem ekki fór í topp tíu. Ekki get ég sagt að ég hafi verið hissa. Þetta var einhverskonar stílæfing, full af hótfyndni, fremur innantóm verð ég að segja, jafnvel á minn eigin mælikvarða.