Á aðalfundi Bandalags íslenskra leikfélaga í Skagafirði núna um helgina tilkynnti Tinna Gunnlaugsdóttir, Þjóðleikhússtjóri, hvaða leiksýning var valin athyglisverðasta áhugaleiksýningin árið 2008. Fyrir valinu varð uppsetning Halaleikhópsins á Gaukshreiðrinu eftir Ken Kesey og Dale Wasserman í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar og verður hún því sýnd í Þjóðleikhúsinu í lok leikárs.

Í umsögn dómnefndar sem skipuð var Tinnu og Vigdísi Jakobsdóttur segir m.a.

Verkefnaval Halaleikhópsins ber vott um mikinn metnað, kjark og stórhug. Leikhópurinn, sem hefur það að markmiði að „iðka leiklist fyrir alla” fagnaði fimmtán ára afmæli sínu á þessu leikári. Rétt eins og Halaleikhópurinn hefur auðgað leiklistarflóru áhugaleikfélaga og leiklistar í landinu almennt, öðlast hið þekkta leikrit Gaukshreiðrið nýjar víddir í meðförum leikhópsins.

Fötlun leikenda stendur engan veginn í vegi fyrir túlkun á verkinu, heldur þvert á móti auðgar hana og styrkir. Styrkur sýningarinnar felst þannig ekki síst í sterkri liðsheild, þar sem hver einstaklingur fær að njóta sín á eigin forsendum, þó hlutverkin séu vissulega mismunandi stór. Framsögn er til mikillar fyrirmyndar og sama má segja um hlustun og allan samleik.

Langmest mæðir á þeim Gunnari Gunnarssyni (Gunsó) í hlutverki Randle P. McMurphy og Sóleyju Björk Axelsdóttur í hlutverki Ratchet hjúkrunarkonu. Bæði áttu þau góðan leik. Leikmynd, búningar, lýsing, hljóðmynd og förðun myndaði sterka heild og einstaklega sannfærandi umgjörð um sýninguna.

Umsögn um aðrar sýningar sem sérstaklega þóttu koma til álita við val á athyglisverðustu áhugasýningu leikársins 2007 til 2008:

Leikfélag Sauðárkróks – Alína – frumsýning 20. október 2007

Leikfélag Sauðárkróks réðst í stærsta verkefni sitt til margra ára síðastliðið haust, þegar það setti upp glænýtt íslenskt barnaleikrit eftir og í leikstjórn Stefáns Sturlu Sigurjónssonar: Alínu. Tónlist í verkinu er eftir Valgeir Skagfjörð. Alína litla missir fyrstu tönnina sína, sem á ævintýralegan hátt leiðir til þess að hún lendir í miklum ævintýrum og lífsháska meðal álfa, gnóma og trölla. Hrósa verður þessu metnaðarfulla framtaki Leikfélags Sauðárkróks, en alls voru leikendur í verkinu 32 talsins, og að sjálfsögðu enn fleiri sem komu að verkinu á einn eða annan hátt. Leikgervi í þessari sýningu voru sérstaklega falleg og sviðslausnir oft á tíðum bráðsnjallar í einfaldleika sínum. Á litla sviðinu í Bifröst tókst að skapa töfraheim sem bæði var gaman og óhugnanlegt að stíga inn í. Sérstaklega var skemmtilegt að sjá kynslóðirnar koma saman og skila svona fallegri sýningu. Áhugaleikhúsin gegna mikilvægu hlutverki hvað varðar leikhúsuppeldi ungs fólks, og það er virðingarvert þegar leikfélög leggja svo mikið í barnasýningar eins og í þessu tilfelli.

Hugleikur – Útsýni – frumsýning 19. janúar og 39 1/2 vika – frumsýning 28 mars 2008

Hugleikur er höfundaleikhús. Tilraunavettvangur fyrir leikskáld á ýmsum aldri og með ólíkan bakgrunn. Leikfélagið hefur skapað sér sérstöðu að þessu leyti og hefur haft áhrif bæði á áhuga- og atvinnuhreyfinguna. Bæði verkin sem sótt var um fyrir í ár eru áhugaverð. Í Útsýni eftir Júlíu Hannam er tekist á við samtímann og þær kröfur sem hann gerir til einstaklinga á beittan hátt. Höfundurinn hefur kjark til að fara beint inn í stofu til okkar og varpa upp tregafullri mynd af nútímamanninum. Í 39 1/2 viku eru barneignir lykilþemað. Klassískur gamanleikur með tilheyrandi ruglingi og hinum óborganlegu sveitatilvísunum sem Hugleikarar þreytast ekki á að leika sér með. Prýðileg skemmtun.

Stúdentaleikhúsið – Drottinn blessi blokkina – frumsýning 9. apríl 2008

Stúdentaleikhúsið gegnir e.t.v. eilítið öðru hlutverki en hið hefðbundna áhugaleikfélag. Auk þess að starfa á höfuðborgarsvæðinu í beinni samkeppni við atvinnuleikhúsin og aðra áhugahópa, eru þátttakendur allir á svipuðum aldri og tengjast háskólanum. Drottinn blessi blokkina er sýning sem hæfir Stúdentaleikhúsinu ákaflega vel. Hugmyndir þátttakenda sjálfra eru í forgrunni og tilraunir eru óhikað gerðar með formið. Á þennan hátt skapar Stúdentaleikhúsið sér sérstöðu, bæði meðal áhugaleikfélaga og í leikhúsflóru borgarinnar. Það er ekki einfalt verk að skapa leiksýningu gersamlega frá grunni. Stúdentaleikhúsinu tókst í Drottinn blessi blokkina að flétta saman margar nokkuð ýktar smámyndir af íbúum í blokk, sem þó ættu að snerta strengi í hjörtum flestra. Leikrýmið í hátíðarsal Fjöltækniskóla Íslands var nýtt til hins ýtrasta, þar sem m.a. gluggar og gluggatjöld á staðnum léku stórt hlutverk. Leikmynd var að öðru leyti ekki fyrirferðarmikil, en hæfði anda og stíl verksins vel. Verkið er virðingarverð tilraun til að takast á við óræða hluti. Sögur og vandamál persóna blandast saman en tengjast í gegnum eina grunn-hugmynd. Það er vert að nefna sérstaklega Harald Ágústsson sem lék hinn ósýnilega og náði með fáguðum leik að magna fram margháttaða tilvísun til tveggja heima. Umgjörð sýningarinnar var ansi óreiðukennd, í stíl við sýninguna sjálfa og skilaði þannig tilætluðum áhrifum.

Aðrar sýningar sem sóttu um að þessu sinni voru allar á sinn hátt athyglisverðar, en fá þó ekki sérstaka umsögn dómnefndar en þær voru þessar:

Stúdentaleikhúsið – Lífið liggur við eftir Hlín Agnarsdóttur í leikstjórn höfundar, frumsýning 27, október 2008.

Leikfélagið Peðið – Tröllapera eftir Jón Benjamín Einarsson og Björgúlf Egilsson í leikstjórn Guðjóns Sigvaldasonar – frumsýning 1. desember 2007.

Leikfélag Siglufjarðar – Tveggja þjónn eftir Carlo Goldoni í leikstjórn Elfars Loga Elfarssonar – frumsýning 22. febrúar 2008.

Ungmennafélag Reykdæla – Þið munið hann Jörund eftir Jónas Árnason í leikstjórn Guðmundar Inga Þorvaldssonar – frumsýning 7. mars 2008.

Leikfélag Hornafjarðar – Rocky Horror Picture show eftir Richard O’Brien í leikstjórn Jóns Inga Hákonarsonar – frumsýnt 10. apríl 2008.

Leikfélag Hafnarfjarðar – Barnið eftir Edward Albee í leikstjórn Lárusar Vilhjálmssonar – frumsýning 12. apríl 2008.

Alls sóttu því 11 sýningar um að koma til álita sem athyglisverðasta áhugasýning leikársins 2007 til 2008.

{mos_fb_discuss:3}