Bjarni Guðmarsson sagnfræðingur hefur setið sveittur við að rita sögu BÍL í tilefni af 50 ára afmæli samtakanna árið 2000. Hann gefur okkur forsmekk að því sem koma skal í skemmtilegum útdrætti. Hálf öld að baki og alltaf batnar það!

BÍL 1950-2000 í fáum dráttum

Íslensk leiklist í þeirri mynd sem við þekkjum nú á sér ekki ýkja langa sögu. Þó má segja að á síðari hluta 19. aldar og fyrri hluta þeirrar 20. hafi myndast nokkur vísir að skipulegu leiklífi úti um land. Allt var það í höndum áhugamanna, venjulegt fólk lagði frá sér verkfæri sinna daglegu starfa og gekk leiklistargyðjunni á hönd.
Eftir aldamótin 1900 vaknaði áhugi manna á að koma á fót ríkisreknu atvinnuleikhúsi í Reykjavík. Það varð að veruleika innan skamms og var Þjóðleikhúsið vígt árið 1950. Með því  opnuðust ýmsar leiðir fyrir áhugaleikfélögin úti um landið og önnur þau félög sem höfðu leiklist á sinni könnu. Í lögum um leikhúsið frá 1947 var ma. ákvæði um að því bæri að vinna að eflingu leiklistar um allt land. Þá munaði ekki minna um að nú var kominn fram allnokkur hópur skólagenginna leikara, sem veitt gat félögunum mikinn stuðning í viðleitni þeirra til að leika.
Um þessar mundir hafði verið lyft grettistaki í byggingu samkomuhúsa á Íslandi. Með lögum árið 1947 var félagasamtökum sem vildu ráðast í byggingu félagsheimila léttur róðurinn. Í kjölfarið tóku félagsheimili að rísa víða um land og bættu til muna sýningaraðstöðu til leikiðkunar. Fyrir vikið voru árin eftir miðja 20. öld fjörmikið skeið í íslenskri áhugaleiklist, bæði vegna nýfenginnar sýningaraðstöðu og ekki síður hins að leiksýningar reyndust félögum jafnan hin best tekjulind og lá mikið við því mörg þeirra höfðu gengist undir þungar skuldbindingar vegna húsbygginganna.
 

Ævar KvaranÁ landsmóti karlakóra!
Oft hafði verið á það bent að þau félög áhugamanna sem fengust við leiklist gætu til muna bætt aðstöðu sína með því að slá sér saman í sérstöku leikfélagasambandi. Með því móti gætu félögin betur stutt hvert annað og innkaup á m.a. handritum, farða, ljósabúnaði, leiktjöldum og öðru yrðu hagstæðari. Meira að segja gætu þau haft launaðan starfsmann í Reykjavík til að annast ýmis erindi og vera tengiliður á milli félaganna. Um 1950 virtist að ýmsu leyti kjörið tækifærið til að slá til.
 Einna ötulastur við slíkar ábendingar var Ævar R. Kvaran leikari. Hann hafði kynnst kjörum áhugaleikfélaganna þegar hann fór á milli þeirra og leikstýrði, og sá í hendi sér að slík hreyfing gæti reynst leikstarfi úti um landið hin mesta lyftistöng. Ævar fékk í lið með sér þá Lárus Sigurbjörnsson skjalavörð og Þorstein Einarsson íþróttafulltrúa. Undirbjuggu þeir viðræðufund til að ræða stofnun slíks bandalags sem fara skyldi fram í Reykjavík vorið 1950. Fjölmörgum félögum var sent boðsbréf til fundarins, og má ætla að langflest félög sem fengust við leiklist um úti um landið hafi fengið fundarboðið. Bréf þeirra þremenninga var svohljóðandi:

 Reykjavík, 14. maí 1950.

Háttvirti herra!
Nokkrar umræður hafa farið fram um það, að nauðsyn ber til að stofna bandalag með þeim áhugamanna-félögum á landinu, leikfélögum og öðrum sem hafa á starfsskrá sinni að sýna sjónleiki.
Markmið bandalagsins væri fyrst og fremst að efla íslenska leiklist og létta undir með hinum dreifðu leikflokku, en meðal verkefna mætti nefna: útvegun viðfangsefna, tjalda, búninga o.fl. eftir því sem tiltækilegt er hverju sinni, samræming starfsaðferða m.a. með leiðbeiningum leikstjóra, sem ferðast milli flokkanna, skýrslusöfnun um leiksýningar og íhlutun um hagsmunamál félaganna gagnvart opinberum aðiljum.
Þar sem gera má ráð fyrir því, að ýmsir áhugamenn um leiklist verði á ferð í Reykjavík í sambandi við landsmót karlakóranna 9.?11. júní n.k., höfum vér leyft oss að senda yður þetta boðsbréf til umræðufundar um stofnun bandalagsins í þeirri von, að þér sjáið yður fært að sækja fund vorn 12. júní n.k. eða senda fulltrúa frá félagi yðar, t.d. kunnugan mann í Reykjavík, til skrafs og ráðagerða.
Virðingarfyllst,
Ævar Kvaran Lárus Sigurbjörnsson
Þorsteinn Einarsson

Er skemmst frá því að segja að fundurinn heppnaðist í alla staði vel, var vel sóttur og mikill hugur virtist í fundarmönnum. Samþykkt var að stofna sambandið og var kosin undirbúningsnefnd þess sem boða skyldi til stofnfundar eigi síðar en um miðjan ágúst.
 Hinn 12. agúst 1950 var Bandalag íslenskra leikfélaga loks stofnað og voru stofnendur fulltrúar samtals 34 félaga. Skiptust þau þannig að 13 leikfélög, 16 ungmennafélög og 5 góðtemplara- og íþróttafélög. Samþykkt voru lög bandalagsins og kosin fyrsta stjórn þess, sem skipuð var Ævari Kvaran sem var formaður, Lárusi Sigurbjörnssyni sem var ritari og Sigurði Gíslasyni, sem kom frá Leikfélagi Hafnarfjarðar og var gjaldkeri.

Sveinbjörn Jónsson

Starfsemin fyrstu árin
Starfsemin fór fremur hægt af stað eins og við mátti búast því samtökin voru auralaus með öllu. Þó var gengist fyrir viðamiklu námskeiði fyrir leikstjóra haustið 1950. Sóttu það 20 þátttakendur af öllu landinu, sem áttu þess nú kost að stunda nám sér að kostnaðarlausu. Námskeiðið stóð í tvær vikur og var kennt frá morgni til kvölds. Fékkst nokkur styrkur tilnámskeiðshaldsins, m.a. frá UMFÍ.
 Haustið 1951 var loks ráðinn framkvæmdastjóri BÍL og var skrifstofa hreyfingarinnar opnuð í Þjóðleikhúsinu um sama leyti. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Sveinbjörn Jónsson sem m.a. hafði numið bókmenntir og leiklistarsögu í Svíþjóð. Með tilkomu skrifstofunnar og framkvæmdastjórans gat bandalagið loks tekið til við að rækja þau verkefni sem því var ætlað af fullum krafti, en þau verkefni voru margvísleg eins og nærri má geta. Sveinbjarnar beið því ærinn starfi og mun hafa leyst það verkefni að forma þjónustustarf skrifstofunnar við aðildafélög, og raunar marga fleiri, æðivel þótt ekki væri alltaf fullur einhugur um störf hans.
Meðal þess sem nú var gengist í voru kaup á handritasafni og leikritaútgáfu og yfirtöku umboða fyrir farða. Bandalagið hafði milligöngu um að útvega einstökum félögum leikstjóra og meira að segja var gengist fyrir ?leiklistarviku Bandalagsins? árið 1952, en svo var nefnd eins konar leiklistarhátíð þar sem fimm aðildarfélög buðu höfuðborgarbúum að sjá afraksturinn af starfi sínu. Mæltust leiksýningar þeirra misvel fyrir hjá gagnrýnendum sem höfðu uppi meiningar um það hvað viðeigandi væri að bjóða höfuðstaðarbúum í þessum efnum.
 

Helgi SeljanBarist í bönkum
Fljótlega eftir stofnun var tekið til við að fá ríkisvaldið til að leggja hreyfingunni fjárhagsstuðning. Mörg leikfélög voru inni á fjárlögum með svolitlar sporslur áður en BÍL var stofnað en þeir styrkir voru fjarska sparlegir og þurfti að gera verulegan skurk í því að fá þá hækkaða ef félögin áttu að geta dafnað og leiklífið að blómgast. Ekki skipti minna máli að fá fjárstuðning frá hinu opinbera til starfsemi bandalagsins sjálfs; árið 1952 fékkst þannig þegar nokkur styrkur til skrifstofunnar, 20 þúsund kr., en fór strax í 70 þúsund ári síðar. Árið 1964 voru samþykkt á alþingi sérstök lög um fjárhagsstuðning við leikstarfsemi áhugamanna sem breyttu þessu nokkuð til hins betra, m.a. hækkuðu framlög til leikstarfsemi félaga talsvert og einnig til starfsemi BÍL.
 
Héraðssambönd eður ei
Aðildarfélögum fjölgaði ört á árunum eftir stofnun BÍL. Þegar árið 1952 voru aðildarfélögin orðin 50 talsins og eftir að kom fram yfir 1960 voru þau jafnan á bilinu 60-70. Bein þátttaka í starfi hreyfingarinnar var þó mun minni en ætla hefði mátt. Til dæmis átti einungis um fimmtungur aðildarfélaga fulltrúa á aðalfundi Bandalagsins ár hvert, en þeir voru haldnir á vorin og yfirleitt í Reykjavík. Munu fjarlægðir og fjárskortur hafa valdið mestu um þessa dræmu þátttöku.
Ýmsir höfðu orð á því að nauðsyn bæri til að bæta hér úr og auka skilvirkni í starfi bandalagsins. Meðal annars þess vegna var farið að ræða það á þingum á fyrri hluta 7. áratugarins að breyta innri strúktúr bandalagsins og skipta því upp í héraðasambönd, sem ynnu að velferð félaganna á sínu svæði og kysu fulltrúa til að senda á Bandalagsþing ár hvert. Af þessu varð þó ekki. Þess í stað var ákveðið að halda bandalagsþing annað hvert ár, á haustin, og fulltrúar í stjórn BÍL voru allir kosnir af sama svæðinu. Þannig tók við völdum vorið 1962 „sunnlenska stjórnin“ og sat til haust 1964. Þá tók „norðlenska stjórnin“ við til hausts 1966 og þannig koll af kolli. Við þetta sat allt til ársins 1972 þegar farið var að kjósa „blandaðar“ stjórnir að nýju. Og árið 1976 var aftur horfið til þess að hafa þing bandalagsins á vorin ár hvert og hefur svo verið til þessa dags. Í byrjun 10. áratugar var og fitjað upp á þeirri nýbreytni að halda svonefnda formanna- eða haustfundi á milli þingi þar sem kostur gafst til að “fínstilla” starfið á milli þinga og ræða um ýmislegt sem ekki komst á dagskrá á aðalfundum eða varð þar ekki útrætt.
 
Leikfélag Selfoss Innrás imbakassans!
Ýmislegt orkaði andæris í áhugaleikstarfi á Íslandi eftir miðjan 7. áratuginn. Meðal annars léku verðlagsmál félögin og hreyfinguna í heild grátt á verðbólgutímum eins og marga fleiri. Ekki hafði fyrr fengist í gegn hækkun á styrkjum til starfsemi félaga og skrifstofu BÍL þegar allur árangurinn var brunninn upp í verðbólgubálinu.
Í annan stað hóf göngu sína íslensk sjónvarpsstöð og þóttust margir sjá fyrir hnignun og fall áhugaleikfélaga í landinu eftir því sem dreifikerfi sjónvarpsins stækkaði og móttökuskilyrði bötnuðu um hinar dreifðu byggðir landsins. Sams konar spár fengu og byr undir vængi þegar myndbandabyltingin hófst hér á landi, um og eftir 1980.
 Ekki fór heldur hjá því að sjónvarpið og myndbandstæknin veittu starfi áhugaleikfélaga þung högg. En banahögg voru það fráleitt. Áhrifin sjást trúlega best í fjölda aðildarfélaganna; árið 1964 voru þau 65 talsins en einungis 43 fjórum árum síðar, árið 1968. Upp úr því tók Eyjólfur að hressast nokkuð þótt heilsufarið gengi í bylgjum næstu ár, aðildarfélögin urðu aftur 65 árið 1975, um 80 1983 og um 90 árið 1989.
 En enda þótt þetta væru erfið ár um margt má þó ekki gleyma að Bandalagið færði út kvíarnar á ýmsum sviðum um þessar mundir. Þannig má nefna að BÍL gerðist aðili að Norræna áhugaleikhúsráðinu (NAR) árið 1968 og tók þátt í að mynda Alheimsleikhúsráðið (IATA) í byrjun 8. áratugarins. Má auðveldlega færa fyrir því rök að hin erlendu tengsl hafi haft ákaflega mikil áhrif á starfsemi leikfélaga hér, íslenskir áhugaleikarar sóttu, einkum til hinna Norðurlandanna, hina ýmsu strauma sem léku um leiklíf ytra hverju sinni og veittu því hingað heim. Margir sóttu námskeið erlendis, skoðuðu afrakstur annarra á leiklistarhátíðum og fjölmargir bundu náin vináttubönd við fólk með sama áhugamál um allan heim.
 Það er ekki síður klárt að nágrannalöndin og raunar heimsbyggðin öll ef út í það er farið hefur á ýms lund notið góðs af útrás íslenskra amatöra.

Stjórn 1995

Hjartastöð áhugaleikstarfsins í landinu
Bandalagið var jafnan með skrifstofu sína í leiguhúsnæði og því nokkuð á faraldsfæti í gegnum árin eins og vill verða meðal hjáleigumanna. Skrifstofa og miðstöð bandalagsins var í Þjóðleikhúsinu fram til 1957 en þá þurfti leikhúsið á herberginu að halda. Fluttist skrifstofa BÍL þá í Garðastræti 6, síðar Garðastræti 45 og enn síðar nr. að Garðastræti 21 (frá 1972). Árið 1975 var enn lagt land undir fót og nú farið ?austur fyrir Læk?, á Skólavörðustíg 12. Þar var sló hjarta hins íslenska áhugaleikhúss um 7 ára skeið, til 1982. Þá var enn flutt, nú að Hafnarstræti 9 þar sem BÍL var til húsa árin 1982-1996 en þá rættist loks gamall draumur.
 Ef að líkum lætur var öllum ljós vandinn sem fylgir því  að vera upp á aðra kominn með húsnæði. Það virðist þó ekki hafa verið rætt í fullri alvöru að BÍL þyrfti að verað sinn eigin húsbóndi í þessu efni. Þá var samþykkt á aðalfundi að heimila stjórn að stofnasérstakan húsbyggingarsjóð, etv. með öðrum félagasamtökum sem kynnu að vera á sömu buxunum. Í kjölfarið var m.a rætt við UMFÍ um sameiginleg kaup á húsnæði. Þar á bæ voru hins vegar önnur áform uppi og málið sofnaði um alllangt skeið. Eftir því sem næst verður komist var téður húsbyggingsjóður aldrei stofnaður.
 Árið 1996 komst loks hreyfing á húsnæðismálið og kom það ekki síst til af áhuga framkvæmdastjórans, Vilborgar Valgarðsdóttur. Hún leitaði upp hentugt húsnæði og vann fjárfestingaáætlanir og lagði fyrir stjórn. Niðurstaðan varð sú að BÍL keypti rúmgott skrifstofuhúsnæði að Laugavegi 96. Þangað fluttu ýmis velunnarar bandalagsins veraldlegar eigur hreyfingarinnar í skrúðgöngu frá Hafnarstræti 9 að Laugavegi 96. Síðan hefur Bandalagið setið um kyrrt.

Helga Hjörvar

Gæfa Bandalagsins
Eins og áður sagði kom í hlut Sveinbjörns Jónssonar að móta starf Bandalagsins fyrstu árin ásamt stjórn. Hann hafði framkvæmdastjórn á hendi allar götur til ársins 1974 er Helga Hjörvar leikkona tók við. Hún var framkvæmdastjóri BÍL til ársins 1983 og tók Sigrún Valbergsdóttir leikstjóri þá við. Árið 1989 tók Kolbrún Halldórsdóttir leikkona við af Sigrúnu og gegndi starfinu til ársins 1993. Þá tók við framkvæmdastjórn Vilborg Valgarðsdóttir sem um árabil hafði starfað á skrifstofu BÍL, fyrst sem starfskraftur í hlutastarfi en síðar ritari í fullu starfi. Þá var í fyrsta sinn framkvæmdastjóri valinn úr áhugaleikhúsinu sjálfu og þóttu ýmsum það til marks um að þáttaskil ættu sér stað í starfi BÍL. Það breytti þó ekki því að langflestir munu á einu máli um það að allir þeir sem gegnt hafa embætti framkvæmdastjóra hafi rækt starfið að einstakri prýði og hver þeirra fimmmenninga lyft grettistaki við að móta starf og stefnu BÍL. Gæfa samtakanna er að miklu leyti fólgin í því hversu vel hefur lukkast við ráðningu í þessa mikilvægu stöðu.

Leiklistarblaðið

Tvennir tímar
Hér á undan hefur nokkuð verið minnst á helstu verkefni Bandalags íslenskra leikfélaga en þau hafa sannarlega verið margvísleg.
 Er þar fyrst til að taka að BÍL á stærsta handritasafn landsins og gegnir því lykilhlutverki við að lána og leigja handrit en einnig við að leiðbeina um verkefnaval og fleira þvi tengt. Þá starfrækir hreyfingin verslun á sviði förðunarvara, handbóka og ljósabúnaðar og leigir og selur hárkollur og skegg.
BÍL hefur milligöngu um ráðningu leikstjóra og annarra fagmanna fyrir aðildarfélög, sér um samningagerð við umboðsmenn rétthafa leikrita og tónlistar.
 Í gegnum árin árin hefur Bandalagið sinnt frétta- og fræðsluskyldu við aðildarfélögin m.a. með útgáfu tímarita og fréttabréfa. Þannig stóð BÍL að útgáfu tímaritsins Leik Ritið árið 1962, en það birti leikrit, fréttir og ýmsan fróðleik. Þá var Leiklistarblaðið um árabil eina íslenska leikhústímaritið. Það hóf göngu sína sem fjölritað fréttabréf en um miðjan 9. áratug liðinnar aldar var því breytt í vandað tímarit um leiklist með höfuðáherslu á áhugaleikhúsið. Blaðið flutti í bland fréttir, fróðleik og skemmtan af mörgu tagi 3-4 sinnum á ári, en hefur nú allra síðustu ár verið gefið út sem einfalt ársrit. Segja má að tæknibreytingar hafi gert hér strik í reikning því glæsilegur og fjölbreyttur vefur bandalagsins, www.leiklist.is, sem var opnaður árið 2001 hefur að mörgu leyti tekið við því hlutverki sem tímaritum og fréttabréfum var ætlað að gegna. Og gerir það að ýmsu leyti hraðar og betur en pappírsútgáfurnar gátu.
 Þá er að geta þess að hreyfingin hefur frá stofnun unnið ötullega að því að skapa þeim sem starfa að leiklist á Íslandi í áhugamennsku kost á að mennta sjálfa sig á námskeiðum í fjölmörgum greinum. Stærsta skref í þessu efni var tvímælalaust stigið árið 1997 er Leiklistarskóli Bandalagsins hóf starfsemi að Húsabakka í Svarfaðardal. Hann hefur starfað með glæsibrag síðan og oftast komist færri að á námskeiðum en vildu. Enginn vafi leikur á að skólinn hefur reynst félögunum hin mesta lyftistöng og ekki þarf að minnast á gagnsemina fyrir þá fjölmörgu sem þar hafa setið á skólabekkjum
 

Úthlutun
Annað mikilvægasta hlutverk BÍL, á eftir því að þjónusta og tengja aðildarfélögin innbyrðis, er að koma fram sem fulltrúi félaganna út á við, ekki síst gagnvart ríkisvaldinu. Baráttan fyrir auknum skilningi á mikilvægi menningarstarfs áhugaleikfélaganna og nauðsyn þess að ríkis- og sveitarsjóðir styrki þetta starf af nokkurri rausn. Að sönnu hefur barátta fyrir auknum fjárstuðningi gengið misvel í gegnum árin en sennilega rennur seint sá dagur að þeirri baráttu ljúki að fullu. Sitthvað hefur þó áunnist og má þar meðal annars nefna að frá því laust fyrir 1980 hefur stjórn BÍL sjálf gert tillögur um það hvernig ríkissjóðframlagi skuli skipt á milli félaga eftir verkefnum þeirra á ári hverju. Þarf ekki að hafa mörg orð um það hversu viðkunnanlegra það er að þetta vandasama verkefni skuli vera í höndum fulltrúa félaganna sjálfra heldur en að úthlutunarnefnd á vegum ráðuneytis hafi það með höndum.

Bjarni Guðmarsson

Hálf öld að baki
Árið 2000 minntist BÍL þess með ýmsum hætti að þá voru liðin 50 ár frá því Ævar Kvaran og félagar hans fundu út að landsmót karlakóra í Reykjavík væri heppilegt tækifæri til að setja á stofn hreyfingu áhugaleikhúsmanna á Íslandi. Meðal annars stóð BÍL fyrir viðamikilli leiklistarhátíð á Akureyri með þátttöku leikfélaga af öllu landinu og nokkrum erlendum gestum. Bæði þar og á öðrum vettvangi hefur Bandalag íslenskra leikfélaga sýnt hvað í því býr. Að sumu leyti má segja að það sé allt sem stofnendurna dreymdi. Og að sumu leyti órættur draumur. Því þegar íslenskir amatör taka sig til er aldrei að vita hver útkoman verður. Bandalag íslenskra leikfélaga og aðildarfélög þess eiga því ugglaust enn eftir að koma á óvart með þróttmiklu, frumlegu og framsæknu áhugaleikstarfi enn um sinn.

Bjarni Guðmarsson