Nemendaleikhús Listaháskóla Íslands æfir nú sýninguna Blóðbrúðkaup eftir F.G.Lorca. Þetta er annað verkefni vetrarins og er frumsýning 24.nóvember n.k. á Litla Sviði Borgarleikhússins en sýningin stendur til 10.desember.
Blóðbrúðkaup er allt í senn – blanda af hreinræktuðu raunsæi, ljóðlist og ævintýri. Harmsaga um ástir og hefndir í óbilgjarnri veröld sem endurtekur grimmdarverk og fávisku ætt fram af ætt, mann fram af manni jafnvel þó að allir viti að það endi aðeins með blóðbaði.
Þetta er hin klassíska saga óleysanlegra átaka ástríðna og hefða. Ung stúlka er lofuð eigulegum pilti, en hjarta hennar tilheyrir enn fyrrum unnusta hennar sem þó er giftur annarri konu. Á brúðkaupsdegi stúlkunnar hleypur hún á brott með unnustanum fyrrverandi út í skóg. Brúðguminn og fjölskylda hans fylgja fast á hæla parsins í leit að hefnd og dauðinn virðist óumflýjanlegur.
Leikstjóri er Kamilla Bach Mortensen, leikmynda- og búningahönnun er í höndum Barkar Jónssonar, Egill Ingibergsson sér um ljósahönnun og tæknistjórn og tónlistina semur Egill Guðmundsson, nemi í tónlistardeild LHÍ.
Nemendaleikhúsið í vetur skipa þau Anna Svava Knútsdóttir, Bjarni Snæbjörnsson, Hallgrímur Ólafsson, Kristín Þóra Haraldsóttir, Magnús Guðmundsson, Sara Marti Guðmundsdóttir, Sigrún Huld Skúladóttir, Tinna Lind Gunnarsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson.