Leikfélag Fjallabyggðar, sem til varð við sameiningu leikfélaganna á Siglufirði og Ólafsfirði, æfir nú nýtt leikrit, Brúðkaup, eftir Guðmund Ólafsson, sem jafnframt er leikstjóri. Verkið fjallar, eins og titillinn bendir til, um brúðkaup. Herdís Eva er loksins gengin út og ætlar að ganga að eiga hann Bjarna Þór, sem er traustur starfsmaður Heimilistækja.

En séra Guðrún leggst í lungnabólgu og verður þá að kalla til fyrrverandi sóknarprest, en hann er því miður, sjaldnast með allt á hreinu. En veislan ætti að ganga vel því veislustjórinn vinnur hjá Aríonbanka í Reykjavík og það er sko ekkert víst að tæknin klikki hjá Ella. En hvað með ömmu? Er hún lífs eða liðin? Og skyldi Alfreð móðurbróðir hegða sér sómasamlega? Og hverjum dettur eiginlega í hug að koma í krumpugalla í brúðkaup?
Og svo er það STÓRA LEYNDARMÁLIÐ sem setur allt í uppnám.

Þetta er fjölmenn sýning því rúmlega tuttugu leikarar eru á sviðinu þegar mest er ásamt tríói tónlistarfólks.

Á síðasta leikári ákváðu Leikfélag Ólafsfjarðar og Leikfélag Siglufjarðar að vinna saman að uppsetningu á öðru leikriti eftir Guðmund, sem nefndist Stöngin inn! Sú sýning hlaut frábærar viðtökur og var sýnd í Menningarhúsinu Tjarnarborg við mikinn fögnuð fjölmargra áhorfenda. Rúsínan í pylsuendanum var svo að sýningin var valin „áhugaverðasta áhugaleiksýningin árið 2013“ og fylgdi þeirri nafnbót að verkið var sýnt í Þjóðleikhúsinu í júní á síðasta ári fyrir troðfullu húsi.

Frumsýning á Brúðkaupi verður föstudaginn 14. mars klukkan 20:00 í Menningarhúsinu Tjarnarborg í Ólafsfirði.
Önnur sýning sunnudaginn 16. mars.