Leikfélagið Skagaleikflokkurinn frumsýnir Sagnakonan eftir Óskar Guðmundsson í Safnaskálanum að Görðum á Akranesi. Leikgerðin er unnin af leikstjóranum Jakobi S. Jónssyni og leikhópnum. Frumsýningin verður föstudaginn 22. nóvember kl. 20. Lífshlaup Guðnýjar Böðvarsdóttur frá Görðum á Akranesi, móður Snorra Sturlusonar, er um margar sakir merkilegt og hugmyndin að gera lífi hennar stutt skil í leikþætti kviknaði fyrir 2 árum.  Leikfélagið Skagaleikflokkurinn fékk þá Óskar Guðmundsson til að skrifa einþáttung um Guðnýju og Jakob S. Jónsson leikstjóri og leikhópur hafa verið að vinna leiksýninguna undanfarnar vikur og nú er hún tilbúin fyrir svið.

Böðvar, faðir Guðnýjar var goðorðsmaður í Görðum og var af svokallaðri Mýramannaætt (Egils Skallagrímssonar). Guðný, sem fæddist á Görðum 1148 var þriðja eiginkona Hvamm-Sturlu Þórðarsonar og átti með honum 3 syni ( Þórð, Sighvat, Snorra) og 2 dætur (Helgu, Vigdísi). Hún verður ung ekkja, tekur þá við búi í Hvammi. Síðustu árum ævi sinnar eyddi hún í skjóli Snorra sonar síns í Reykholti. Hún lést þar 7. nóv. 1221.

Óskar Guðmundsson höfundur verksins er f. 25. ágúst 1950. Hann hefur ritað fjölda sagnfræðilegra verka, einkum í miðaldasögu; meðal annars skrifaði hann sjö bækur um fyrstu aldir Íslandssögunnar í Alda-bókaflokknum og ævisögu Snorra Sturlusonar. Frá árinu 1994 hefur Óskar unnið sem sjálfstætt starfandi fræðimaður og rithöfundur og hefur komið að útgáfu fjölda bóka og rita sem ritstjóri og höfundur. Hann sá um uppsetningu á sýningunni Saga Snorra í Reykholti vorið 2013.

Jakob S. Jónsson leikstjóri nam leiklist hjá Þórunni Magneu Magnúsdóttur 1971-72 og er leikhúsfræðingur frá Stokkhólmsháskóla. Hann hefur einnig sótt námskeið í leikritun hjá Dramatiska Institutet. Jakob hefur starfað sem dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, lýðháskólakennari í Svíþjóð, þýðandi, leikhústæknimaður, leikstjóri, leikskáld, verkefnisstjóri og listrænn stjórnandi.

Lýsingu vann Ingþór Bergmann Þórhallsson, en svið og búninga gerði leikstjóri og leikhópurinn, en hann skipa Erla Gunnarsdóttir, Guðbjörg Árnadóttir, Lilja Rut Bjarnadóttir og Þórdís Ingibjartsdóttir.

Frumsýnt verður 22. nóvember kl. 20:00 í Safnaskálanum að Görðum á Akranesi.
Næstu sýningar:
2. sýning laugardagur 23. nóv. kl. 20.00
3. sýning þriðjudagur 26. nóv. kl. 20.00
4. sýning fimmtudagur 28. nóv. kl. 20.00
5. sýning laugardagur 30. nóv.     kl. 20.00
6. sýning mánudagur 2. des. kl. 20.00

Einnig er hægt að panta í gegnum e-mail á leikf.skagaleikfl@gmail.com