Áhugaleikfélögin á Íslandi hafa um margra ára skeið verið öflugur vettvangur fyrir þá sem vilja skrifa leikrit og koma þeim á framfæri. Leikfélag Kópavogs hefur verið eitt af þeim félögum sem hefur gefið félögum sínum vettvang til að skrifa og setja upp leikverk og er það lofsvert.
Nú er á fjölunum í Leikhúsinu í Funalind nýtt íslenskt verk eftir Örn Alexandersson. Án þess að vera gefa upp of mikið um innihald verksins þá fjallar það um stjórnmálamann sem við þekkjum of vel hér á Íslandi. Stjórnmálamanninn sem beitir öllum brögðum til að halda völdum og tryggja sér endurkjör. Einar,sem er ráðherra, ákveður eftir frekar slæmar niðurstöður í skoðanakönnun að tryggja sér endurkjör og ræðst í risaframkvæmd í kjördæminu sem á að heilla kjósendur. Ráðist er framkvæmdina með hjálp og samþykki heimamann, enda fær hver sína dúsu. Hljómar kunnuglega.. ekki satt.
Framvinda verksins er nokkur örugg hjá Erni, samtöl oft stórskemmtileg og persónur skýrt teiknaðar, þótt sumar þeirra séu nokkuð klisjukenndar. Ég hefði þó viljað sjá Örn kafa að aðeins dýpra í söguna og gefa henni meira vægi með skýrari tilvísunum til galinna virkjana- og vegaframkvæmda á Íslandi og hliðarsaga um misheppnað hjónaband ráðherrans hefði mátt fá betri umgjörð. Svo tel ég að það hefði mátt byggja betur upp lok verksins.
Leikfélag Kópavogs hefur mikið mannval til að standa á sviðinu og utan þess. Leikstjórn þeirra Arnar og Sigrúnar var nokkuð öguð og gaf leikendum ágætis svigrúm til tilþrifa. Lýsing, hljóð og hönnun á útliti verksins var vönduð og skiptingar gengu vel með einfalda leikmynd og leikmuni.
Það er nokkuð ljóst að Arnfinnur Daníelsson getur alveg örugglega fengið sæti á listum sumra stjórnmálaflokkana í næstu kosningum. Hann smellur algerlega inn í hlutverk ráðherrans spillta og heldur vel utan um erfitt hlutverk. Eins á Stefán Bjarnason endilega að reyna fyrir sér sem aðstoðarmaður hvaða ráðherra sem er í hlutverki sem hann rúllar upp eins og ekkert sé. Sigurður sveitarstjóri í höndum Sigurðar Kristins Sigurðssonar er tragikómískur og minnti æði oft á nafna sinn í Sveitarstjórnarráðuneytinu . Þórarinn Heiðar Harðarson var röggsamur sem Örlygur umhverfisverndasinni og hann og Sigga Björk sem Ásta áttu falleg augnablik. Guðný Hrönn Sigmundsdóttur sem leikur Erlu konu ráðherrans túlkaði vel konu í mislukkuðu hjónabandi og á eitt eftirminnilegasta og fyndnasta söngatriði sem ég hef orðið vitni að í langan tíma. Valgerður Rannveig Valgarðsdóttir túlkaði einnig vel fjölmiðlakonuna þótt að ég skilji ekki ennþá hvað hún sá við ráðherrann. Senuþjófurinn í sýningunni er samt án efa Halldóra Harðardóttir sem leikur af fítónskrafti og miklum húmor verktakann Báru. Hennar innkomur voru kostulegar og uppskáru oft og iðulega mikil hlátrasköll hjá áhorfendum.
Þótt að Fjallið sé ekki gallalaust verk og á margan hátt með byrjendabrag þá er sýning Leikfélags Kópavogs skemmtileg og vel leikin og ég vil hvetja leikhúsáhugafólk að drífa sig í Leikhúsið í Funalind.

Lárus Vilhjálmsson