Tónlistarstjóri er Agnar Már Magnússon en hann leiðir 10 manna hljómsveit sem spilar í sýningunni. Leikmyndahönnuður er Petr Hloušek, en hann hefur hannað fjölmargar stórsýningar víðsvegar um Evrópu og María Ólafsdóttir hannar búninga. Danshöfundur sýningarinnar er einn heitasti danshöfundur Evrópu, Lee Proud og hefur Íslenski Dansflokkurinn gengið til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari sýningu. Jóhanna Vigdís Arnardóttir og Guðjón Davíð Karlsson eru í hlutverkum Mary Poppins og sótarans Bert. Því er ljóst að margir bíða spenntir eftir því að kynnast konunni sem kann að gera lífið ögn skemmtilegra. Sakir umfangs uppfærslunnar er sýningafjöldi takmarkaður en sýnt verður eins þétt og unnt er fram á vor. Þegar er uppselt á 35 sýningar verksins (nánast allar sýningar fram í miðjan maí) og yfir 20.000 miðar seldur.
Allt getur gerst í söngleiknum um Mary Poppins – ef þú leyfir því að gerast! Hér er ekkert venjulegt leikverk á ferðinni; sagan er leiftrandi og sjónarspilinu eru engin takmörk sett. Áhorfendur fylgjast með Mary Poppins lífga upp á heimilislífið í Kirsutrjárunni, breyta grárri Lundúnaborg í litríkt ævintýri þar sem sótarar dansa upp um veggi og loft. Tónlistina þekkja allir og hún birtist hér í nýjum heillandi útsetningum. Dansatriðin í Mary Poppins eru stórglæsileg enda gengur Íslenski dansflokkurinn til liðs við listamenn Borgarleikhússins í þessari stórsýningu. Kvikmyndin um Mary Poppins sló rækilega í gegn um allan heim þegar hún var frumsýnd árið 1964 með Julie Andrews í aðalhlutverkinu. Myndin fékk fimm Óskarsverðlaun og er löngu orðin sígild. Það var svo árið 2004 að loks var gerður söngleikur. Hann fékk hreint ótrúlegar viðtökur þegar hann var frumsýndur á West End; hlaut sjö Tony verðlaun, m.a. sem besti söngleikurinn. Síðan hefur Mary Poppins farið sigurför um heiminn og notið mikilla vinsælda.
Leikarar eru Jóhanna Vigdís Arnardóttir, Guðjón Davíð Karlsson, Áslaug Lárusdóttir, Rán Ragnarsdóttir, Grettir Valsson, Patrekur Thor Herbertsson, Halldór Gylfason, Esther Thalía Casey, Sigrún Edda Björnsdóttir, Sigurður Þór Óskarsson, Theodór Júlíusson, Hanna María Karlsdóttir, Hallgrímur Ólafsson, Sigríður Eyrún Friðriksdóttir, Margrét Eir Hjartardóttir, Þórir Sæmundsson, Álfrún Helga Örnólfsdóttir, Jóhann Sigurðarson, Orri Huginn Ágústsson, kór, dansarar Íslenska dansflokksins, hljómsveit og fleiri
Byggt á sögum P.L. Travers og kvikmynd frá Walt Disney
Tónlist og texti: Richard M. Sherman og Robert B. Sherman
Handrit: Julian Fellowes
Ný lög og textar: George Stiles og Anthony Drewe
Meðframleiðandi: Cameron Mackintosh
Upphaflega sett upp af Cameron Mackintosh og Thomas Schumacher fyrir Disney
Sett upp með leyfi Josef Weinberger Limited fyrir Music Theatre International í New York.