Þann 1. maí n.k. frumsýnir Leikfélag Norðfjarðar gamanleikinn Skvaldur eftir Michael Frayn í þýðingu Árna Ibsen í Egilsbúð, Neskaupstað. Leikhópurinn, sem samanstendur af fólki á öllum aldri frá 14 ára til tæplega fimmtugs, hefur unnið hörðum höndum undanfarnar vikur að uppsetningunni. Meðal annars hefur verið byggð glæsileg tveggja hæða leikmynd á sviðinu í Egilsbúð.

Leikritið Skvaldur var sýnt við góðar undirtektir í Þjóðleikhúsinu fyrir allmörgum árum og hefur síðan reglulega verið sett upp víðs vegar um landið.

Skvaldur er sprellfjögur gleðileikur sem gerist í leikhúsi, þar sem áhorfendur verða vitni að átökum innan leikhópsins sem er að setja upp breska svefnherbergisfarsann „Allslaus“. Áhorfendur fá því bæði að gægjast inn í líf leikarana en einnig að fylgjast með farsanum.

Leikstjóri sýningarinnar er Bryndís Ósk Ingvarsdóttir. En leikarar eru Arnar Lárus Barldursson, Erna Bjarklind Jónsdóttir, Tristan Theodórsson, Jóhanna Fanney Hjálmarsdóttir Weldingh, Brynjar Örn Rúnarsson, Guðrún Ásgeirsdóttir, Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, Eyrún Sól Einarsdóttir og Pjetur St. Arason.

Leikfélag Norfjarðar var endurreist fyrir réttu ári síðan en þá var sýnt barnaleikritið Allt í Plati. Það má segja að leikhúslífið í Neskaupstað hafi verið mjög fjörugt undanfarinn vetur; 9. bekkur Nesskóla reið á vaðið með sýningu á „Með allt á hreinu“ þá sýndi Djúpið, leikfélag Verkmenntaskólans „Litlu hryllingsbúðina“ og nú er komið að Leikfélagi Norðfjarðar með gamanleikinn „Skvaldur”

Skvaldur verður frumsýnt þann 1. maí en aðrar sýningar á verkinu verða, föstudaginn 2. maí, föstudaginn 9. maí, sunnudaginn 11. maí og mánudaginn 12. maí.

Nánari upplýsingar:
Þórfríður Soffía Þórarinsdóttir, formaður Leikfélags Norðfjarðar s.  868 6966
Bryndís Ósk Ingvarsdóttir, leikstjóri s. 692 0350