Laugardaginn 25. janúar frumsýnir Leikfélag Húsavíkur Litlu Hryllingsbúðina eftir Howard Ashman og Alan Menken í leikstjórn Völu Fannell í Samkomuhúsinu á Húsavík.

Litla Hryllingsbúðin er sígildur rokksöngleikur, fyrir alla fjölskylduna, fullur af húmor, kraftmikilli tónlist, heillandi persónum og krassandi söguþræði.

Verkið fjallar um erkilúðann Baldur sem lifir frekar óspennandi lífi. Hann eyðir fábrotnum dögum sínum við vinnu í blómabúðinni hans Markúsar. Hann lætur sig dreyma um ástir Auðar sem vinnur með honum í búðinni. Dag einn uppgötvar Baldur undarlega plöntu sem hann nefnir Auði II í höfuðið á sinni heittelskuðu. Plantan vekur óskipta athygli og viðskiptin blómstra sem aldrei fyrr og Baldur verður stöðugt vinsælli.  Kvöld eitt kemur í ljós að plantan getur talað og hún lofar Baldri frægð og frama, gulli og grænum skógum. En sá galli er á gjöf Njarðar að plantan nærist á mannablóði og vill helst fá ferskt mannakjöt að borða. Inn í söguna blandast svo kærasti Auðar, tannlæknir með kvalalosta og atburðarásin tekur óvænta stefnu.

Leikfélag Húsavíkur fagnar í ár 120 ára afmæli. Besta afmælisgjöfin væri sú að allir þeir sem vettlingi geta valdið heimsæki félagið í Gamla Samkomuhúsinu, skemmti sér yfir Litlu Hryllingsbúðinni og fagni um leið 120 ára afmælinu.

Nánar á vef félagsins eða FacebookMiðapantanir hér.