Æfingar eru hafnar á Öskubusku eftir Rossini, sem frumsýnd verður í Íslensku óperunni 5. febrúar nk. Með aðalhlutverkin fara þau Sesselja Kristjánsdóttir, Garðar Thór Cortes, Bergþór Pálsson, Davíð Ólafsson, Hlín Pétursdóttir, Anna Margrét Óskarsdóttir og Einar Th. Guðmundsson. Hljómsveitarstjóri er Kurt Kopecky, leikstjóri er Paul Suter, sviðs- og búningahönnuður er Season Chiu og lýsingu hannar Jóhann Bjarni Pálmason. Öskubuska er reglulega á fjölum helstu óperuhúsa víðsvegar um heiminn, en þetta er í fyrsta skipti sem hún er sett upp hér á landi.
Öskubuska og Rossini eru meginviðfangsefni næsta námskeiðs sem Vinafélag Íslensku óperunnar og Endurmenntun Háskóla Íslands standa fyrir í sameiningu og hefst 7. febrúar nk. Skráning á námskeiðið er hafin og er skráningarfrestur til og með 20. janúar. Þrjú fyrstu kvöld námskeiðsins verður fjallað um Rossini og Öskubusku og einstakir hlutar óperunnar teknir til nánari skoðunar, með hjálp tón- og mynddæma. Síðasta kvöldið verður farið á sýningu í Óperunni þar sem færi gefst á stuttu spjalli við nokkra af aðstandendum uppsetningarinnar. Kennari á námskeiðinu er Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður.