Breska leikskáldið Edward Bond er gestur Félags leikskálda og handritshöfunda, Hafnarfjarðarleikhússins og Breska sendiráðsins á fyrirlestri og sýnikennslu (Masterclass) í Hafnarfjarðarleikhúsinu laugardaginn 29. apríl kl. 10-16. Allir áhugamenn um leikhús og leikritun eru velkomnir á þennan einstaka viðburð. Þar mun Edward Bond fjalla um leikritun sína og vinna með leikurum í atriðum úr tveimur leikrita sinna til að skýra hugmyndirnar sem að baki liggja.
Fyrirlesturinn og sýnikennslan fer fram á ensku.
Edward Bond telst hiklaust í hópi merkustu leikskálda síðari hluta 20. aldarinnar, hann á að baki glæsilegan feril sem hófst með frumsýningu á einu umdeildasta leikriti síðari tíma í bresku leikhúsi, þegar Royal Court leikhúsið frumsýndi Saved (Hjálp) árið 1965. Verkið var bannað en sýningum var engu að síður haldið áfram og í kjölfarið var hin konunglega breska ritskoðun lögð niður. Af verkum hans síðar má nefna The Sea, Bingo, The Fool, The Woman, The Human Cannon, Derek, Restoration, The War Plays, Jackets, Crime of The 21st Century, Ollie´s Prison, Coffee o. fl.
Öll helstu leikhús beggja vegna Atlantshafsins hafa sviðsett leikrit hans, þ.á m. The National Theatre London, The Royal Shakespeare Company, The Royal Court Theatre, Off Broadway leikhús í New York, Berliner Ensamble, Theatre National Paris o.fl. o. fl. Hann hefur sjálfur verið mikilvirkur leikstjóri eigin verka og ferðast víða um heim með fyrirlestra og sýnikennslu. Eftir Bond liggja nær 30 leikrit, auk kvikmyndahandrita og sjónvarpsleikrita, leikrita fyrir útvarp og einþáttungar fyrir leikhópa, safn ljóða og ritgerða ásamt fleiru.Öll helstu verk Edwards Bond hafa verið gefin út í sjö bindum undir titlinum Collected Plays af Eyre Methuen útgáfunni en auk leikritanna hefur verið gefið út safn ljóða Bonds (Collected Poems 1987) og ritgerðir hans um leikritun og leikhús (The Hidden Plot 1999) en fáir núlifandi leikhúsmenn hafa verið jafn ötulir að skrifa um og halda fram hugmyndum sínum um hlutverk og tilgang leiklistar í nútímasamfélagi. Hann hefur fylgt eftir útgáfum af leikritum sínum með löngum og ítarlegum formálum um tilurð og tilgang þeirra.
Edward Bond er hvernig sem á það er litið einn áhrifamesti rithöfundur í bresku leikhúsi sem nú er uppi. Leikrit hans valda ennþá miklum umræðum og jafnvel deilum, margir halda því fram að hann sé eitt merkasta leikritaskáld 20. aldarinnar og eru áhrif hans á yngri kynslóðir leikhúsfólks í Bretlandi og víðar mjög greinileg. Margir af höfundum 10. áratugarins hafa nefnt hann sem áhrifavald og má greinilega sjá bein tengsl milli verka Bonds og þekktustu verka höfunda eins og Söruh Kane og Mark Ravenhill svo einhverjir séu nefndir.
Edward Bond hefur ávallt verið eindreginn talsmaður þess að leikhúsið væri einn mikilvægasti samræðuvettvangur samfélagsins, þar mætti ræða og kryfja grundvallarspurningar um mannlega tilveru og tilgang hennar. Honum hefur verið lýst sem einstaklega friðsömum einstaklingi en leikrit hans fjalla þó oftar en ekki um ofbeldi þar sem hann heldur því fram að ef okkur á að takast að uppræta ofbeldi og lifa í friði verðum við að skilja hvers vegna menn beita hver annan ofbeldi. "Ef við getum ekki horfst í augu við Hiroshima á leiksviði þá munum við horfast í augu við Hiroshima í raunveruleikanum." Óhætt er að segja að hugmyndir Bonds um ofbeldi hafi fengið aukið vægi með árunum.
Menntamálaráðuneytið styrkir komu Edward Bonds til Íslands.