Úrslit hinnar árlegu örleikritasamkeppni Þjóðleikhússins og Listaháskóla Íslands fyrir framhaldsskólanema fara fram á stóra sviði Þjóðleikhússins næstkomandi laugardagskvöld, 1. mars kl. 20.00. Aðgangur er ókeypis og opinn öllum.
Nokkrir tugir verka bárust í samkeppnina, sem var opin öllum framhaldsskólanemum á landinu, en fimm verk munu keppa til úrslita. Örleikritasamkeppnin er nú haldin í fimmta sinn, en að þessu sinni er sérstaklega skemmtilegt að geta þess að framlög bárust frá öllum landshlutum. Verkin sem komust í úrslit heita Gáfnafar í hættu eftir Árna Arason, Afsakið er þessi stóll upptekinn? eftir Guðrúnu Sóleyju Sigurðardóttur, Svartur hattur eða Síðasta tækifærið eftir Adam Hoffritz, Á milli manns og konu liggur leynihattur (tvíleikur í bundnu máli) eftir Inga Vífil Guðmundsson og Svartur hattur eftir Guðmundu Ólafsdóttur.
Örleikritin verða leiklesin af nemendum í leiklistardeild Listaháskóla Íslands á úrslitakvöldinu. Dómefnd skipuð fagfólki í leiklist mun leggja mat á verkin á úrslitakvöldinu og veita þrenn peningaverðlaun auk þess sem áhorfendur fá tækifæri til að greiða því verki sem þeim líst best á atkvæði. Dómnefnd mun velja þrjú verk sem hljóta peningaverðlaun, 50 þúsund, 30 þúsund og 20 þúsund krónur. Allir sem komast í úrslit fá viðurkenningarskjal og gjafakort í Þjóðleikhúsið.Sem fyrr segir er aðgangur ókeypis og öllum opinn. Dagskráin tekur um klukkustund.