Leiklistarhátíðin Lókal verður haldin dagana 5. –  9. mars nk.  Markmiðið með hátíðinni er að kynna Íslendingum samtímaleikhús frá Evrópu og Bandaríkjunum og tefla um leið fram nýjum verkum íslensks leikhúsfólks.  Í fyrstu atrennu verður boðið upp á alls sjö leiksýningar.

Opnunarsýningin á miðvikudeginum er sýning NEW YORK CITY PLAYERS, Ode To the Man Who Kneels. Þetta er nýjasta verk NYC Players, með leikskáldið og leikstjórann Richard Maxwell í fararbroddi, en það var frumsýnt í New York í nóvember 2007 og fékk frábærar viðtökur.  „Á síðustu tíu árum hefur sýnt sig að Richard Maxwell er einn fárra leikhúsmanna í New York sem reka sannanlega frumlegt tilraunaleikhús,“ skrifaði Ben Brantley í New York Times þann 6. nóvember s.l.  NEW YORK CITY PLAYERS verða í Hafnarfjarðarleikhúsinu og sýna alls fjórum sinnum.

Á fimmtudeginum frumsýnir leikhópurinn VIVARIUM STUDIO frá París verkið L´Effet de Serge í Smiðjunni, leikrými Listaháskólans við Sölvhólsgötu.  Sýningin var á fjölunum í París í desember s.l. og vakti mikla athygli. „Hér er fjallað á írónískan máta um leikhúsið sem listform og sýningin, sem er ekki eins einföld og hún virðist vera í fyrstu, er dæmi um mikilvægi hvers kyns listsköpunar,“ sagði í dómi blaðsins Le Monde.  Sýningar VIVARIUM STUDIO verða þrjár talsins. ÞJÓÐLEIKHÚSIÐ kemur einnig til leiks á fimmtudeginum með Baðstofuna eftir Hugleik Dagsson, í leikstjórn Stefáns Jónssonar.

Á föstudeginum sýnir NATURE THEATER OF OKLAHOMA No Dice.  Þar er á ferðinni afar sérstæð leiksýning sem byggir á hljóðrituðum símtölum.  Þessi leikhópur er kominn í framlínuna í bandarísku leikhúsi og svo vitnað sé í Village Voice: „Nature Theater of Oklahoma er einn efnilegasti leikhópur í New York sýningar þeirra eru klókindalega smíðaðar, fyndnar, fýsískar og koma áhorfendum sífellt á óvart. NATURE THEATER OF OKLAHOMA kemur fram í húsnæði að Sætúni 8, þar sem Heimilistæki voru áður til húsa.

Sama kvöld sýnir DRAUMASMIÐJAN Óþelló, Desdemóna og Jagó á litla sviði Borgarleikhússins.  Á sunnudeginum sýnir SOKKABANDIÐ loks revíuna Hér og nú á sama stað.  Síðar það kvöld, eða klukkan 22:00, sýna þau ERNA ÓMARSDÓTTIR og LIEVEN DOUSSELARE verkið The Talking Tree.  Erna er einn fremsti og virtasti leikhúslistamaður Íslendinga, hefur farið víða um heim með sólóverkefni sín og hlotið frábæra dóma og viðtökur áhorfenda.

Það er von aðstandenda LÓKAL 2008 að íslenskum leikhúslistamönnum gefist kostur á að hitta og blanda geði við erlendu listamennina sem sækja hátíðina heim en markmið hátíðarinnar er að tengja Reykjavík við hringiðu þess sem er að gerast í nútímaleikhúsi í Bandaríkjunum og Evrópu. Áhorfendum er sérstaklega bent á að umræður verða eftir fyrstu sýningu á öllum verkum erlendu leikhópanna, með þátttöku þeirra.  Einnig verða umræður eftir íslensku sýningarnar.

Fimmtudaginn 6. mars verða haldnir LÓKAL-tónleikar í Iðnó við Tjörnina.  Þar koma fram, meðal annarra, KK, Ólöf Arnalds  og hljómsveit NEW YORK CITY PLAYERS, sem leggur sérstaka rækt við bandaríska sveitatónlist. Selt er inn á tónleikana við innganginn en miðaverð er 1000 krónur.

Þeir sem kaupa miða á allar eftirtaldar fjórar frumsýningar: Ode To the Man Who Kneels, L´effet de Serge, No Dice og Talking Tree borga kr. 9.900 fyrir pakkann.

Nánar má kynna sér dagskrána á www.lokal.is

{mos_fb_discuss:2}