Hin sívinsæla brúðusýning Bernds Ogrodnik um Pétur og úlfinn er á leiðinni aftur á fjalirnar í Þjóðleikhúsinu. Verkið byggir á tónlist og söguþræði rússneska tónskáldsins Sergei Prokofief en Bernd gerir brúður og stýrir þeim í þessari ægifögru og stórskemmtilegu sýningu sem sló í gegn hjá áhorfendum á öllum aldri í vor. Sýnt verður í Kúlunni, barnasviði Þjóðleikhússins á Lindargötu 7 en þar er sýningum á barnaleikritinu Góðu kvöldi eftir Áslaugu Jónsdóttur einmitt að ljúka nk. sunnudag. Fyrsta sýningin á Pétri og úlfinum verður 2. mars en verkið verður aðeins sýnt þá helgi og þá næstu. Að því loknu munu vinkonurnar Skoppa og Skrítla hreiðra um sig í Kúlunni með nýja sýningu.
Prokofief samdi Pétur og úlfinn árið 1936 fyrir Barnaleikhús Moskvuborgar. Tónverkið er samið með það fyrir augum að kynna ungu fólki heim sígildrar tónlistar og þau hljóðfæri sem leikið er á í sinfóníuhljómsveit. Sögunni er miðlað af sögumanni og hljóðfærum sem túlka hinar ólíku persónur í verkinu. Prokofief samdi bæði tónlistina og textann, og byggir verkið meðal annars á minningum sínum úr bernsku. Allt frá því að tónverkið Pétur og úlfurinn var frumflutt hefur það notið gífurlegra vinsælda og það hefur unnið sér fastan sess á verkefnaskrá hljómsveita um allan heim.
Bernd Ogrodnik hefur unnið við brúðugerð og brúðustjórnun fyrir
leikhús, sjónvarp og kvikmyndir víða um heim. Fyrsta brúðugerðarverkefni hans á Íslandi var kvikmyndin um Pappírs-Pésa. Hann hefur gert brúður fyrir tvær leiksýningar í Þjóðleikhúsinu, Klaufa og kóngsdætur og Koddamanninn. Hann setti einnig upp brúðusýningu fyrir fullorðna, Umbreytingu-Ljóð á hreyfingu, hér í Þjóðleikhúsinu árið 2006. Hann gerði brúður fyrir Ronju ræningjadóttur í Borgarleikhúsinu og Litlu hryllingsbúðina hjá Leikfélagi Akureyrar. Árið 2006 veitti
Íslandsdeild IBBY veitti Bernd viðurkenningu fyrir framlag til barnamenningar á Íslandi. Bernd hefur ennfremur unnið barnabók um Pétur og úlfinn með myndum úr brúðusýningu sinni.
Um búninga í sýningunni sér Helga Björt Möller en hljóðvinnslu annast Ari Baldursson. Tónlistin í sýningunni er upptaka Sinfóníuhljómsveitar tékkneska ríkisútvarpsins á Pétri og úlfinum sem gerð var árið 1989. Hljómsveitarstjóri er Ondrej Lenard.
{mos_fb_discuss:2}