Starfstími skólans er að þessu sinni 18. – 26. júní 2022 að Reykjaskóla í Hrútafirði.  


Kveðja frá skólanefnd

Kæru leiklistarvinir!
Við hlökkum mikið til þess að bjóða ykkur velkomin í Reykjaskóla í sumar þar sem leiklistarskólinn okkar verður settur í tuttugasta og fimmta sinn! Fjórfalt húrra fyrir þessum áfanga! Skólinn blómstar sem aldrei fyrr og við sjáum fram á mikla sköpun, metnað og gleði í sumar.

Að þessu sinni verða þrjú fjölbreytt námskeið í boði. Við bjóðum velkominn aftur Ólaf Ásgeirsson sem kennir Leiklist I að þessu sinni. Einnig bjóðum við velkomna í fyrsta sinn í kennarahópinn, Jennýju Láru Arnþórsdóttur. Hún mun kenna Leikstjórn II sem er framhald af námskeiði Völu Fannell frá 2021. Þess má geta að Jenný Lára og Vala hafa sömu menntun og mun Vala styðja við undirbúning námskeiðsins til að tryggja samfellu. Sérnámskeið fyrir reynda leikara verður svo í höndum hins þrautreynda kennara Ágústu Skúladóttur. Að þessu sinni verður það námskeiðið Hvernig segjum við sögu sem Ágústa hefur boðið upp á áður við góðar undirtektir. Þá bjóðum við höfundum í heimsókn til að skerpa stílvopnið!
Við vonum að sem flestir eigi þess kost að koma, nema og njóta.

Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
Hrefna, Dýrleif, Herdís, Hrund og Gisli Björn


Leiklist I

Kennari er Ólafur Ásgeirsson
Þátttökugjald: 107.000 kr.

Forkröfur: 
Engar forkröfur eru gerðar. Þeir ganga fyrir sem ekki hafa sótt leikaranámskeið í skólanum áður. 

Námskeiðslýsing:
Á þessu námskeiði verður áhersla lögð á senuvinnu og karaktersköpun. Unnið verður með handrit að verki, senur úr verkinu greindar út frá Kerfi líkamlegra gerða og unnið með sviðsetningu á þeim. Einnig verða skoðaðar mismunandi leiðir til að nálgast karakter, t.d. aðferðir Michael Chekhov við að byggja upp og líkamna persónur. Unnið verður með karakteropnanir og spuna. Raddvinna, ímyndunarafls- og fókusæfingar verða einnig settar á oddinn, og leitast við að tengja slíka vinnu beint inn í senuvinnuna.

Ólafur Ásgeirsson (f. 1990) útskrifaðist af leikarabraut Sviðslistadeildar Listaháskóla Íslands árið 2015. Ólafur fór í kjölfarið til New York þar sem hann lærði Michael Chekhov leiklistartækni í The Michael Chekhov Acting Studio og spunatækni við UCB spunaskólann. Ólafur hefur leikið í kvikmyndunum Órói (2010) og Taka 5 (2019), auk þess sem hann hefur leikið í fjölda þáttasería, stuttmynda og auglýsinga. Ólafur hefur þar að auki starfað sem leiklistarkennari á öllum skólastigum og hefur síðastliðin 5 ár kennt spuna á vegum Improv Ísland auk þess sem hann sýnir vikulega spunasýningar í Þjóðleikhúskjallaranum.


Leikstjórn II – framhald af Leikstjórn I

Kennari Jenný Lára Arnórsdóttir
Þátttökugjald: 107.000 kr.

Námskeiðið er framhald af námskeiði fyrir leikstjóra sem Vala Fannell kenndi 2021. Þeir ganga fyrir sem hafa áður sótt það námskeið eða önnur Leikstjórn I námskeið.

Námskeiðið samanstendur af verklegum æfingum þar sem nemendum gefst kostur á að nýta verkfærin og aðferðirnar sem Vala Fannell kenndi á námskeiðinu Leikstjórn I á síðasta ári. Vinna leikstjórans með leikara verður í forgrunni og er markmiðið að dýpka skilning á þeirri vinnu með aðstoð verkfæranna. Einnig verður farið í hvernig aðferðin nýtist við að byggja upp sýn leikstjórans og gerð verkefni til að vinna með að ná fram þeirri sýn og hvernig hægt er að nýta þau til að túlka fyrirfram ákveðna mynd. Nemendur fá verkefni til greiningar og undirbúningsvinnu auk þess sem þeir vinna svo í hópum við að sviðsetja verkefnið og æfa sig þar með í vinnu með leikurum.
Þeir sem hafa ekki setið námskeiðið Leikstjórn I hjá Völu geta tekið þátt í námskeiðinu þar sem farið verður í smá upprifjun á efninu í byrjun námskeiðs. Það er þó mikill kostur að hafa setið námskeiðið í fyrra.

Jenný Lára Arnórsdóttir útskrifaðist sem leikari og leikstjóri frá KADA í London árið 2012. Eftir útskrift vann hún sem aðstoðarleikstjóri við sýninguna Newsrevue hjá Canal Cafe Theatre áður en hún flutti aftur til Íslands í lok árs 2012. Eftir heimkomu stofnaði hún leikhópinn Artik og hefur undir honum leikstýrt sýningunum Hinn fullkomni jafningi, Elska – ástarsögur Þingeyinga og Skjaldmeyjar hafsins, en þær tvær síðarnefndu vann hún upp úr viðtölum sem hún tók og notaðist svo við svo kallaða Verbatim-aðferð til að setja þau saman í handrit. Bæði verkin voru sett upp í samstarfi við Leikfélag Akureyrar.
Árið 2013 setti hún á fót Uppsprettuna sem var röð viðburða þar sem handritshöfundar, leikarar og leikstjórar leiddu saman hesta sína og settu upp stuttverk á einum sólarhring. Sama ár starfaði hún sem aðstoðarmaður leikstjóra við uppsetninguna Jeppa á Fjalli hjá Borgarleikhúsinu. Árið 2014 fékk leikhópurinn InTime Theatre í Færeyjum hana til að leikstýra verkinu Einki orð sem sett var upp í samstarfi við Tjóðpallinn en einnig ferðaðist verkið um eyjarnar.
Árið 2015 fluttist Jenný til Akureyrar þar sem hún, ásamt fleirum, stofnaði leikhópinn Umskiptinga sem hefur hlotið mikið lof fyrir sýningar sínar, en hópurinn hefur fengið tvær tilnefningar til Grímunnar – árið 2017 Sem Sproti ársins og aftur árið 2019 sem Barnasýning ársins fyrir verkið Galdragáttin og þjóðasagan sem gleymdist, en Jenný var hluti af höfundateymi verksins og fór með fjögur hlutverk. Nú síðast setti hópurinn upp tvo einleiki undir nafninu Í myrkri eru allir kettir gráir og leikstýrði Jenný báðum verkunum.
Jenný hefur þar að auki leikstýrt verkum hjá ýmsum áhugaleikfélögum, skrifað og séð um framleiðslu á ýmsum sviðsverkum og kennt hjá Leynileikhúsinu og Leiklistarskóla Leikfélags Akureyrar. Þetta er í fyrsta sinn sem Jenný Lára kennir við skólann.


Hvernig segjum við sögu? – sérnámskeið fyrir leikara

Kennari er Ágústa Skúladóttir
Þátttökugjald: 107.000 kr.

Forkröfur: Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leiklist I og II eða sambærileg grunnnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leiklist.

Hvernig segjum við sögu?
Á námskeiðinu verður unnið markvisst að sviðsetningu á smásögu, ljóði eða stuttum kafla úr lengra verki. Byggt er á aðferð sem nefnd er „devised theatre“ á erlendum málum, og felst í því að hópurinn vinni saman á æfingaferlinu að leiklausnum, þar sem jafnræði ríkir og allir verða leikstjórar, danshöfundar, leikmyndahönnuðir og tónlistarstjórar. Þetta er krefjandi námskeið þar sem hópurinn er aðalatriðið, aðalpersónan, enda þurfa allir þátttakendur að vera virkir allan tímann. Lögð er áhersla á samtengingu leikara og hlustun þeirra á milli og farið í undirstöðuaðferðir til að þjálfa og efla þau atriði. Jafnframt verður litið á ólíkar leikaðferðir við að segja sömu söguna, t.d. bouffon, trúðleik og melódrama.

Ágústa Skúladóttir er einn reyndasti leikstjóri landsins. Leikstjórnarverkefni hennar með atvinnu- og áhugafólki eru orðin um það bil 70 talsins á undanförnum 20 árum og spanna allt frá litlum brúðusýningum upp í stórar óperur, frá einleikjum til grímusýninga án orða og mannmargra söngleikja. Sem leikstjóri hefur hún einnig unnið fjölda leiksmiðjuverka, þar sem sýning verður til úr grunnhugmynd í samvinnu leikhóps og listrænna stjórnenda. Í því sambandi má nefna Grimms með Leikfélagi Kópavogs, Klaufa og kóngsdætur í Þjóðleikhúsinu, Ævintýri Munchásens í Gaflaraleikhúsinu og Gosa – ævintýri spýtustráks í Borgarleikhúsinu. Um þessar mundir eru fjórar sýningar í leikstjórn Ágústu á fjölum íslenskra atvinnuleikhúsa, Kardemommubærinn í Þjóðleikhúsi, Njála á hundavaði í Borgarleikhúsi, Bíddu bara í Gaflaraleikhúsinu og heilgrímusýningin Hetja! í Tjarnarbíói. Hún er einnig leikstjóri uppistandssýningarinnar Madame Tourette – Dagur í lífi öryrkja, sem sýnd er á Listahátíð Reykjavíkur og sýningarinnar Fíflið, sem frumsýnd verður í Tjarnarbíói í byrjun september.


Höfundur í heimsókn

Þátttökugjald: 85.000 kr.

Blundar í þér skáld? Ertu að burðast með hugmynd? Áttu hálfskrifað handrit?  Vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?

Skólinn býður höfundum að dvelja að Reykjaskóla við skapandi skrif eins og svo oft áður. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.

Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.

Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!


Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga 2021 – Almennar upplýsingar

Skráning í skólann stendur yfir frá kl. 16.00 þann 10. mars til og með 15. apríl. Umsóknir skal fylla út á Leiklistarvefnum, www.leiklist.is. Opnað verður fyrir umsóknir 10. mars.
Reglan Fyrstur kemur – fyrstur fær gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000, ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á tiltekið námskeið fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 18. til 26. júní. Skólasetning er laugardaginn 18. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00 en ekki er boðið upp á kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 26. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.
Aðstaða í Reykjaskóla: Svefnherbergin eru búin 2 uppbúnum rúmum, þ.e. koddi, sæng, lak og sængurföt fylgja með, litlu borði og tveim stólum. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug, gufubað og heitir pottar eru á staðnum.
Innfalið í skólagjaldi er fullt fæði, þ.e. morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur auk kaffiveitinga tvisvar á dag.
Haldið er lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig upp á, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á námskeið er 107.000 kr. og gjald fyrir Höfunda í heimsókn er 85.000 kr. 

Staðfestingargjald er kr. 40.000 og greiðist það við skráningu. Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.
Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.
Kennarar skólans og starfsfólk:
Skólastýra — Dýrleif Jónsdóttir, dillajons@gmail.com
Skólastýra — Hrefna Friðriksdóttir, hrefnafr@hi.is
Leiklist I — Ólafur Ásgeirsson, oliskoli@gmail.com
Leikstjórn II — Jenný Lára Arnórsdóttir, jennylaraarnors@gmail.com
Sérnámskeið fyrir leikara — Ágústa Skúladóttir, agustaskula@gmail.com


Umsókn telst gild þegar staðfestingargjald hefur verið greitt. Greiða skal í síðasta lagi 
 15. apríl til Bandalags ísl. leikfélaga og senda tilkynningu á netfangið info@leiklist.is. Greiða skal inn á reikning:
Kt. 440169-0239 / Banki 334-26-5463

Bandalag íslenskra leikfélaga, Kleppsmýrarvegi 8, 104 Reykjavík
sími 551 6974, netfang info@leiklist.is, veffang www.leiklist.is