Starfstími skólans á þessu ári er frá 6. til 14. júní að Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu. Skráning í skólann hefst 15. mars og stendur til til 15. apríl.

Í takt við traustar hefðir þá bjóðum við upp á margvísleg námskeið þar sem nemendur geta farið inn á nýjar brautir eða byggt á fyrri fræðslu. Fyrst er að nefna spennandi námskeið fyrir þá sem vilja feta sín fyrstu skref í leikstjórn, Leikstjórn I. Kennari að þessu sinni verður Rúnar Guðbrandsson. Þá er boðið upp á Leiklist II þar sem Ágústa Skúladóttir mun byggja á því stórskemmtilega byrjendanámskeiði sem hún kenndi í fyrra. Að lokum er í boði nýtt og spennandi framhaldsnámskeið fyrir reyndari leikara. Að þessu sinni fáum við Dóru Jóhannsdóttur til liðs við okkur með námskeið um langspuna með áherslu á Haraldinn.

Auk námskeiðahalds þá bjóðum við höfundum að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif.

Bæklingur skólans starfsárið 2014 er hér á PDF formi.

 


 

Kveðja frá skólanefnd

 sklanefnd

Kæru leiklistarunnendur!

Árið 2014 féll frá einn af frumkvöðlum leiklistarskólans, skólastýra hans til margra ára og nefndarkona í skólanefnd, Gunnhildur Sigurðardóttir. Við kveðjum hana með djúpum söknuði og ómældu þakklæti fyrir allt hennar starf sem verður okkur leiðarljós við mótun og framkvæmd skólastarfsins um ókomna framtíð.

Nú er komið að nítjánda starfsári leiklistarskólans. Það er okkur mikil ánægja að bjóða ykkur velkomin að Húnavöllum í sumar þar sem Leiklistarskóli Bandalags íslenskra leikfélaga verður settur þann 6. júní 2015.

Í takt við traustar hefðir þá bjóðum við upp á margvísleg námskeið þar sem nemendur geta farið inn á nýjar brautir eða byggt á fyrri fræðslu. Fyrst er að nefna spennandi námskeið fyrir þá sem vilja feta sín fyrstu skref í leikstjórn, Leikstjórn I. Kennari að þessu sinni verður Rúnar Guðbrandsson. Þá er boðið upp á Leiklist II þar sem Ágústa Skúladóttir mun byggja á því stórskemmtilega byrjendanámskeiði sem hún kenndi í fyrra. Að lokum er í boði nýtt og spennandi framhaldsnámskeið fyrir reyndari leikara. Að þessu sinni fáum við Dóru Jóhannsdóttur til liðs við okkur með námskeið um langspuna með áherslu á Haraldinn.

Auk námskeiðahalds þá bjóðum við höfundum að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif.

Við vonum að sem flestir eigi þess kost að njóta með okkur og nema.

Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju

Hrefna, Dýrleif, Herdís, Hrund og Gísli Björn.


Skráning í skólann stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl. Reglan „fyrstur kemur – fyrstur fær“ gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000 ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Starfstími skólans á þessu ári er frá 6. til 14. júní að Húnavallaskóla í Austur-Húnavatnssýslu

Skólasetning er laugardaginn 6. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Húnavöllum kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 14. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða að Húnavöllum: Svefnherbergin eru búin 2 rúmum án rúmfata, skáp, litlu borði og tveim stólum. Góðum dýnum verður bætt inn á stærstu herbergin og þau þannig gerð þriggja manna. Nemendur hafi með sér handklæði, sæng og kodda ásamt rúmfötum, eða svefnpoka. Sundlaug og heitur pottur eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjald á öll námskeiðin er kr. 89.000 og Höfundar í heimsókn borga 69.000. Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.

Staðfestingargjald er kr. 40.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða símleiðis með greiðslukorti.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.

Skólameistarar eru Hrefna Friðriksdóttir og Dýrleif Jónsdóttir.

Umsóknum skilað

Umsóknum skal skila á netfangið info@leiklist.is og um leið þarf að leggja staðfestingargjaldið, kr. 40.000.- inn á 334-26-5463, kt. 440169-0239. Eftirtaldar upplýsingar þarf að senda í tölvupósti: Hvaða námskeið er verið að sækja um, nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, póstnúmer, bæjarfélag, netfang og símanúmer. Þar sem krafist er undirbúningsnámskeiða eða reynslu skal láta ferilskrá fylgja umsókn.

 


 

agusta 

Námskeið 1

Leiklist II – Grunnnámskeið

Kennari Ágústa Skúladóttir

Þátttökugjald: kr. 89.000

Námskeiðið er grunnnámskeið fyrir leikara ætlað þeim sem hafa sótt Leiklist I. Þeir ganga fyrir sem ekki hafa áður sótt Leiklist II.

Námskeiðið byggir á þeim grundvallarþáttum sem voru uppistaðan á Leiklist I; útgeislun og léttleika leikarans, samspili við meðleikara og áhorfendur og samvinnu í hópi, en að þessu sinni verður gengið lengra í að rannsaka þá umbreytingu sem á sér stað þegar unnið er með sama leiktextann í mismunandi leikstílum.

Þátttakendur munu fá sendar fyrirfram tveggja manna senur úr klassískum leikritum (Shakespeare/Chekov, nánar tilkynnt síðar), sem þeir þurfa að kunna utanbókar en HLUTLAUST áður en skóli hefst. Síðan munum við kanna hvaða áhrif mismunandi stíll hefur á merkingu og innihald hverrar senu. Hvað gerist þegar sena er leikin dramatískt? Eða tragíkómiskt? Melódramatískt? Hvernig fara tveir búffonar með senuna? Eða tveir trúðar? Einnig verður litið á hvernig kórinn, þ.e. allir hinir, geta mynd- og hljóðskreytt leiksenuna, hvernig virkar hún best? Með einum söngvara, þremur eða stórum hópi?

Eins og fyrr byggist þetta námskeið á mikilli virkni allra þátttakanda sem þora að taka áhættu, prófa og mistakast, prófa og takast og vera stöðugt á tánum!

Ágústa Skúladóttir stundaði nám í París og London og var um tíma fastráðin leikstjóri hjá Þjóðleikhúsinu. Hún hefur einnig unnið ötullega með sjálfstæðum leikhópum, áhugaleikfélögum og starfað hjá Íslensku Óperunni. Leiksýningar undir hennar stjórn hjá áhuga-félögum hafa verið valdar til þess að fara á leiklistarhátiðir víða um heim, t.d til Mónakó, Litháen, Suður Kóreu, Lettlands og víðar.

Sýningar hennar í atvinnuleikhúsum hafa fengið fjölda tilnefninga til Grímu verðlaunanna og tvær þeirra, Klaufar og kóngsdætur (2005) og Bólu Hjálmar (2009) hlutu Grímuna sem barnasýning ársins. Síðasta stóra uppsetning Ágústu eru Lína langsokkur í Borgarleikhúsinu.

Ágústa hefur haldið fjölmörg námskeið, t.d. í Færeyjum og hjá Listaháskóla Íslands.

Þetta er í níunda sinn sem Ágústa kennir við skólann.


 

rnarNámskeið 2

Leikstjórn I – Grunnnámskeið

Kennari Rúnar Guðbrandsson

Þátttökugjald: kr. 89.000

Námskeiðið er grunnnámskeið fyrir leikstjóra. Þeir ganga fyrir sem ekki hafa áður sótt Leikstjórn I.

Á námskeiðinu verður fjallað nokkuð almennt um starf leikstjórans, – hvert er hlutverk hans og hvernig leysir hann það?

Hugað verður að undirbúningi leikstjórans, greiningarvinnu og skipulagningu áður en æfingar hefjast, en líka því verki sem fram fer á æfingatímanum með leikurum og öðrum aðstandendum.

Námskeiðið verður því hvoru tveggja fræðilegt og verklegt.

Eftir að skráningu lýkur verða öllum þátttakendum send verk til skoðunar og þau síðan lögð til grundvallar vinnunni á Húnavöllum. Kennari mun einnig senda þátttakendum verkefni til að íhuga og leysa áður en námskeiðið hefst, þannig að ákveðins undir-búnings verður krafist.

Kennsla fer fram með ýmsum hætti; fyrirlestrar, umræður, verklegar æfingar, einstaklings verkefni, hópverkefni, o.s.frv.

Rúnar Guðbrandsson nam upphaflega leiklist í Danmörku og starfaði þar sem leikari um árabil, með ýmsum leikhópum. Frekari þjálfun hlaut hann m.a. hjá Odin leikhúsinu í Holsterbro, hjá leikhópi Jerzy Grotowskis í Wroclaw í Póllandi, Dario Fo á Ítalíu, Jury Alschitz í Kaupmannahöfn og víðar, og Anatoly Vasiliev í Moskvu. Rúnar lauk MA og MPhil gráðum í leiklistarfræðum og leikstjórn frá De Montfort háskólanum í Leicester á Englandi og hefur lokið fyrri hluta doktorsnáms í fræðunum. Hann hefur leikstýrt fjölda leiksýninga hérlendis og erlendis og fengist við leiklistarkennslu og þjálfun leikara víða í Evrópu. Rúnar var fyrsti prófessor í leiktúlkun við Listaháskóla Íslands. Hann hefur rekið leiksmiðjuna Lab Loka síðan 1992, stjórnað þjálfun hópsins og stýrt flestum verkefnum hans hérlendis og erlendis. Hann hefur auk þess fengist við ýmis konar tilraunastarfsemi á vettvangi kvikmynda og gjörningalistar.

Þetta er í sjöunda sinn sem Rúnar kennir við skólann.


 

dora_johNámskeið 3

Leiklist – Sérnámskeið

Kennari Dóra Jóhannsdóttir

Þátttökugjald: kr. 89.000

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leiklist I og II eða sambærileg námskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leiklist.

Á námskeiðinu verður farið í undirstöðuatriði Long-Form Improv eða langspuna. Sérstök áhersla verður á þekktasta form aðferðarinnar sem kallast „The Harold“ eða Haraldurinn.

Nemendur læra aðferðir og strúktúra til að geta búið til hálftíma gamansýningu á staðnum út frá einu orði. Þeir læra hvernig á að búa til fyndnar senur og karaktera án þess að reyna að vera fyndin. Í leiðinni þjálfast nemendur í ýmsum tækniatriðum sem nýtast í allri skapandi vinnu og samvinnu.

Allt snýst um að hlusta, taka áhættu, vera í núinu, styðja aðra, gefa, bregðast við, byggja saman hugmyndir og vera jákvæður.

Sannleikurinn er fyndnastur …

Dóra Jóhannsdóttir útskrifaðist með BFA gráðu úr leikaradeild LHÍ 2006. Hún var fastráðin við Þjóðleikhúsið og seinna Borgarleikhúsið. Hún er einn af stofnendum leikfélaganna Vér Morðingjar og Ég og Vinir Mínir. Dóra er með diplómu frá skóla UCB leikhússins í New York þar sem hún æfir og sýnir „Long-Form-Improv“. Hún hefur kennt aðferðina í LHÍ auk þess sem hún hefur haldið yfir 20 námskeið síðastliðin tvö ár undir merkjum spunaleikfélagsins Improv-Haraldurinn, sem hún stofnaði.

Þetta er í fyrsta sinn sem Dóra kennir við skólann.


 

Höfundar í heimsókn

Þátttökugjald: kr. 69.000

Blundar í þér skáld – ertu að burðast með hugmynd – áttu hálfskrifað handrit – vantar þig lausa stund til að ljúka leikritinu?

Eftir nokkurt hlé býður skólinn aftur höfundum að dvelja að Húnavöllum við skapandi skrif. Við teljum að mjög vel hafi tekist til og höfundar notið þess að skapa, skrifa og skemmta sér. Það er okkur því sönn ánægja að endurtaka þetta boð.

Höfundum stendur til boða gisting og fæði með sama hætti og nemendum skólans, þeim ber að fara eftir reglum skólans um umgengni o.fl. og er að sjálfsögðu velkomið að taka þátt í öllu skólastarfi utan hefðbundinna kennslustunda.

Við hvetjum höfunda til að nýta sér þetta tækifæri og lofum því að hinn eini sanni skólaandi verði einstök uppspretta sköpunargleði!


Húnavallaskóli, eða Hótel Húni eins og hann mun heita framvegis á sumrin, er staðsettur í Húnavatnshreppi í Austur-Húnavatnssýslu. Þangað eru 239 km. frá Reykjavík, 118 eða 156 km. frá Akureyri (eftir því hvaða leið er farin) og fjarlægðin frá Blönduósi er um 15 km.

kort