STARFSTÍMI SKÓLANS ER 21. – 29. JÚNÍ 2025 AÐ REYKJASKÓLA Í HRÚTAFIRÐI.
— Smella hér til að sækja um!* —
(*Opnað fyrir skráningu 1. mars kl. 17.30)
3. apríl fá umsækjendur svar við umsókn. ATH! Staðfestingargjald að upphæð 40.000 kr. þarf að vera greitt til að umsókn sé samþykkt!
KVEÐJA FRÁ SKÓLANEFND
Kæru leiklistarvinir!
Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju,
Elli, Jónheiður, Hrefna, Gísli Björn og Guðfinna
LEIKLIST II
Kennari: Ágústa Skúladóttir
Námskeiðsgjald: 116.000 kr.
Námskeiðið er framhaldsnámskeið fyrir leikara og ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I eða sambærileg námskeið. Þeir sem sótt hafa Leiklist I og ekki hafa áður sótt Leiklist II ganga fyrir.
Námskeiðið byggir á þeim grundvallarþáttum sem voru uppistaðan á Leiklist I; útgeislun og léttleika leikarans, samspili við meðleikara og áhorfendur og samvinnu í hóp, en að þessu sinni verður gengið lengra í að rannsaka þá umbreytingu sem á sér stað þegar unnið er með sama leiktextann í mismunandi leikstílum.
Þátttakendur fá sendar senur úr klassískum sem og nútímaverkum áður en skólinn hefst – nánar tilkynnt síðar – sem þeir þurfa að kunna utanbókar en hlutlaust áður en skóli hefst. Síðan munum við kanna hvaða áhrif mismunandi stíll hefur á merkingu og innihald hverrar senu.
Hvað gerist þegar sena er leikin dramatískt? Eða tragíkómískt? Raunsæislega eða með kómedíuna að leiðarljósi? Einnig verður litið á hvernig kórinn, þ.e. allir hinir, geta mynd- og hljóðskreytt leiksenuna, hvernig virkar hún best? Með einum söngvara, þremur eða stórum hópi?
Eins og fyrr byggist þetta námskeið á mikilli virkni allra þátttakanda sem þora að taka áhættu, prófa og mistakast, prófa og takast og vera stöðugt á tánum!
Ágústa Skúladóttir er einn reyndasti leikstjóri landsins. Leikstjórnarverkefni hennar með atvinnu- og áhugafólki eru orðin um það bil 70 talsins á undanförnum 20 árum og spanna allt frá litlum brúðusýningum upp í stórar óperur, frá einleikjum til grímusýninga án orða og mannmargra söngleikja. Sem leikstjóri hefur hún einnig unnið fjölda leiksmiðjuverka, þar sem sýning verður til úr grunnhugmynd í samvinnu leikhóps og listrænna stjórnenda. Í því sambandi má nefna Grimms með Leikfélagi Kópavogs, Klaufa og kóngsdætur í Þjóðleikhúsinu, Ævintýri Munchásens í Gaflaraleikhúsinu og Gosa – ævintýri spýtustráks í Borgarleikhúsinu. Á síðustu árum hefur Ágústa sett upp sýningar eins og Kardemommubæinn í Þjóðleikhúsinu, Njálu á hundavaði í Borgarleikhúsi, Bíddu bara í Gaflaraleikhúsinu, heilgrímusýninguna Hetju! og kveðjusýningu Karls Ágústs Fíflið Tjarnarbíói. Hún er einnig leikstjóri uppistandssýningarinnar Madame Tourette og Hvað sem þið viljið eftir Shakespeare í Þjóðleikhúsinu, Gilitrutt með leikhópnum Lottu, Hollvættir á heiðinni sem sýnt var í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og óperuna Hliðarspor í Gamla bíói.
LEIKRITUN II
Kennari: Karl Ágúst Úlfsson
Námskeiðsgjald: 116.000 kr.
Námskeiðið er ætlað þeim sem lokið hafa byrjendanámi í leikritun, eða hafa umtalsverða reynslu af ritun og vinnslu leikverka sem höfundar. Þeir sem sótt hafa Leikritun I og ekki hafa áður sótt Leikritun II ganga fyrir.
Unnið verður með uppbyggingu og útfærslu verka sem ætluð eru til uppsetningar á leiksviði, hvort sem um stór eða smá verk er að ræða. Nemendum er heimilt að gera hálf- eða heilunnin verk eftir sig að meginviðfangsefnum á námskeiðinu og munu þá njóta leiðsagnar og stuðnings jafnt kennarans og samnemenda sinna við næstu skref og framhald.
Sérstaklega verður vöngum velt yfir persónusköpun, framvindu sögunnar og samböndum og samskiptum karaktera, en einnig verða skoðuð þau spennandi, algengu og óalgengu vandamál sem upp kunna að koma við sköpun leikverka.
Hvort sem nemendur fást við stór verk eða smá mun lokaáfanginn miðast við að hluti handritsins geti staðið á eigin fótum og orðið að sjálfstæðri sýningu í meðförum leikara og leikstjóra.
Karl Ágúst Úlfsson hefur starfað sem leikari, leikstjóri, þýðandi og höfundur í ríflega fjörutíu ár. Hann hefur starfað við Þjóðleikhúsið, Leikfélag Reykjavíkur, Leikfélag Akureyrar og fjölda frjálsra leikhópa í gegnum tíðina. Sem leikari er hann etv. þekktastur fyrir leik sinn í Lífmyndunum og í þeim óteljandi þáttum sem Spaugstofan sendi út á RÚV og Stöð 2, en hann var einnig handritshöfundur þeirra þátta. Sem þýðandi hefur hann þýtt vel yfir sextíu leikrit eftir höfunda eins og Shakespeare, Ibsen, John Ford, Tennesee Williams, Mrozek, Fassbinder og fleiri. Einnig söngleiki eins og Galdrakarlinn í Oz, Sögu úr vesturbænum, Rent, Kabarett og Billy Elliot. Uppsett leikverk eftir Karl eru á milli tuttugu og þrjátíu, skrifuð fyrir svið, útvarp og sjónvarp en hann hefur einnig ritað kvikmyndahandrit. Af verkum hans má nefna til dæmis Í hvítu myrkri, Fögru veröld, Örfá sæti laus, Gosa, Sól og Mána, Gulleyjuna, Ó þessi þjóð, Harrý og Heimi, Í skugga Sveins. Gallsteina afa Gissa og Fíflið.
TRÚÐANÁMSKEIÐ FYRIR BYRJENDUR
Kennari: Gríma Kristjánsdóttir
Námskeiðsgjald: 116.000 kr.
Sérnámskeið í leiklist, ætlað þeim sem sótt hafa Leiklist I og II og eða sambærileg grunnnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af sviðsleik. Þeir sem hafa tekið leiklist I og II hafa forgang á sérnámskeið.
Á námskeiðinu verður kennd trúðatækni sem gerir leikurum kleift að finna sannleikann í augnablikinu, að þora að vera með því sem er og þurfa ekki að framleiða eða búa til neitt sniðugt, bara að bíða eftir að eitthvað fæðist og leika sér svo með það. Trúðatækni er auðvitað til í ýmsum myndum og hún er notuð á ótal marga vegu, en þessi ákveðna tækni var þróuð af Mario Gonzales og hefur síðan fest sig í sessi í íslensku leikhúsi. Þessi trúðatækni hefur verið kennd í Listaháskóla Íslands sem og á námskeiðum vítt og breitt um landið og verið notuð í ýmsum sýningum, meðal annars Jesús litli, Dauðasyndirnar og Hið stórfenglega ævintýri um missi.
Á námskeiðinu verður farið í grunntækni trúðsins, kórinn þar sem notast er við hlutlausar grímur verður tekinn fyrir og farið vel í hugmyndina á bakvið hann og grímurnar. Hver og einn þátttakandi fæðir sinn trúð og verður farið í fjölbreyttar æfingar og spuna í trúðatækninni. Nemendur eru hvattir til að koma með hljóðfæri, hluti, ljóð, sögur eða álíka sem hafa einhverja merkingu fyrir viðkomandi.
Gríma Kristjánsdóttir er leikkona og leiklistarkennari. Hún útskrifaðist sem leikkona 2016 og hefur síðan þá og fyrir það verið með annan eða báða fætur í leikhúsi og öðru leiklistartengdu. Hún hefur rekið leikhús, framleitt sýningar, skrifað, kennt og leikstýrt. Trúðatæknina sem hún kennir nú lærði hún fyrst hjá Hörpu Arnardóttur árið 2012 í Bandalagsskólanum, en lærði síðar hjá Rafael Bianciotto 2016 og áfram á hverju ári síðan þá þangað til þau leiddu saman hesta sína árið 2022 og settu upp trúðasýninguna ‘Hið stórfenglega ævintýri um missi’ í Tjarnarbíói, sem Gríma skrifaði og lék og Rafael leikstýrði.
Þetta er í fyrsta sinn sem Gríma kennir við skólann.
HÖFUNDUR Í HEIMSÓKN
Námskeiðsgjald: 95.000 kr.
ALMENNAR UPPLÝSINGAR
Skráning í skólann stendur yfir frá 1. mars til og með 31. mars. Umsóknir skal fylla út á Leiklistarvefnum, www.leiklist.is. Opnað verður fyrir umsóknir 1. mars. kl. 17.30.
- Reglan Fyrstur kemur – fyrstur fær gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000, ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Sjá forkröfur námskeiða!
- Staðfestingargjald dregst frá endanlegu skólagjaldi. Ef velja þarf á milli umsækjenda gerir skólanefnd það á grundvelli fyrri menntunar og reynslu viðkomandi.
- Náist ekki ásættanlegur fjöldi á tiltekið námskeið fellur það niður.
- Aldurstakmark í skólann er 18 ár.
- Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.
Starfstími skólans á þessu ári er frá 21. til 29. júní. Skólasetning er laugardaginn 21. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00 en þá er ekki boðið upp á kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 29. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.
Aðstaða í Reykjaskóla:
Svefnherbergin eru búin 2-4 rúmum og koddi og sæng fylgja en nemendur þurfa að hafa með sér lak og sængurföt. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug og heitir pottar eru á staðnum, einnig er náttúrulaug opin öllum. Minnum sérstaklega á að taka með sér hlý föt, bendum einnig á að ekki er þvottavél til afnota fyrir nemendur, auk þess er gott að hafa með fjöltengi. Innfalið í skólagjaldi er fullt fæði, þ.e. morgunmatur, hádegismatur og kvöldmatur auk kaffiveitinga tvisvar á dag.
Haldið er lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig upp á, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.
Skólagjald:
Þátttökugjald á námskeið er 116.000 kr. og gjald fyrir Höfunda í heimsókn er 95.000 kr. Skólagjaldið skal vera að fullu greitt í síðasta lagi 1. júní 2025.
Staðfestingargjald er kr. 40.000. Umsókn er þá fyrst gild að búið sé að greiða staðfestingargjald! Staðfestingargjald er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs.
Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.
Staðfestingargjald skal greiða fyrir
31. mars, að öðrum kosti fellur umsókn niður. Greiða skal til Bandalags íslenskra leikfélaga og skal senda tilkynningu á netfangið info@leiklist.is:
Millifærslureikningur er 334-26-5463 – Kt. 440169-0239. Takið skýrt fram ef annar en umsækjandi greiðir!
Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann. Þá styrkja mörg stéttarfélög tómstundastarf félagsmanna og fellur Leiklistarskólinn þar undir.
Kennarar skólans og starfsfólk:
Skólastýra — F. Elli Hafliðason , donellione@gmail.com
Skólastýra — Jónheiður Ísleifsdóttir, jonheidur@gmail.com
Leiklist II — Ágústa Skúldóttir, agustaskula@gmail.com
Leikritun II — Karl Ágúst Úlfsson, undur@stormerki.is
Trúðanámskeið fyrir byrjendur — Gríma Kristjánsdóttir, grimakrist@gmail.com
Hafið samband við Þjónustumiðstöð BÍL ef spurningar eru varðandi skólann eða annað honum tengt:
Bandalag íslenskra leikfélaga, Kleppsmýrarvegi 8, 104 Reykjavík
sími 551 6974, netfang info@leiklist.is, veffang www.leiklist.is