Starfstími skólans á þessu ári er frá 9. til 17. júní að Reykjaskóla í Hrútafirði

Að þessu sinni verða fjögur fjölbreytt námskeið í boði, sum fyrir byrjendur en önnur sem gera ráð fyrir þekkingu og reynslu nemenda. Karl Ágúst Úlfsson mun leiða áhugasama inn í töfrandi heim leikritunar og er námskeiðið ætlað jafnt byrjendum sem lengra komnum. Ágústa Skúladóttir skipuleggur og stýrir skemmtilegu og krefjandi trúðanámskeiði fyrir þá sem hafa lokið grunnnámskeiðum í leiklist. Kennslan verður í samvinnu við Gunnar Björn Guðmundsson. Rúnar Guðbrandsson stýrir masterclass námskeiði í leikstjórn og byggir þar ofan á góðan grunn. Að lokum er okkur sérstök ánægja að bjóða í fyrsta sinn í sumarskóla Bandalagsins upp á námskeið í hönnun og aðferðum við leikmynda- og búningagerð. Þar bjóðum við velkomna Evu Björgu Harðardóttur sem kennir hjá okkur í fyrsta sinn en námskeiðið hentar öllum þeim sem hafa áhuga á því sem gerist bak við tjöldin í leikhúsinu.

Bæklingur skólans starfsárið 2018 er hér á PDF formi:

LeiklistarskoliBIL2018


Kveðja frá skólanefnd:

Kæra leiklistaráhugafólk!

Í sumar er komið að tuttugasta og öðru starfsári leiklistarskólans okkar. Það er alltaf jafn gaman að skipuleggja þetta metnaðarfulla starf og fá svo að fylgjast með nemendum meðtaka, þora, skapa, vaxa, eflast og njóta!

Að þessu sinni verða fjögur fjölbreytt námskeið í boði, sum fyrir byrjendur en önnur sem gera ráð fyrir þekkingu og reynslu nemenda. Karl Ágúst Úlfsson mun leiða áhugasama inn í töfrandi heim leikritunar og er námskeiðið ætlað jafnt byrjendum sem lengra komnum. Ágústa Skúladóttir skipuleggur og stýrir skemmtilegu og krefjandi trúðanám- skeiði fyrir þá sem hafa lokið grunnnámskeiðum í leiklist. Kennslan verður í samvinnu við Gunnar Björn Guðmundsson. Rúnar Guðbrandsson stýrir masterclass námskeiði í leikstjórn og byggir þar ofan á góðan grunn. Að lokum er okkur sérstök ánægja að bjóða í fyrsta sinn í sumarskóla Bandalagsins upp á námskeið í hönnun og aðferðum við leikmynda- og búningagerð. Þar bjóðum við velkomna Evu Björgu Harðardóttur sem kennir hjá okkur í fyrsta sinn en námskeiðið hentar öllum þeim sem hafa áhuga á því sem gerist bak við tjöldin í leikhúsinu.

Hlökkum til að sjá ykkur – með bestu kveðju Hrefna, Dýrleif, Herdís, Hrund og Gísli


Skráning í skólann stendur yfir frá 15. mars til 15. apríl

Reglan „fyrstur kemur – fyrstur fær“ gildir við skráningar gegn greiðslu staðfestingargjalds, kr. 40.000 ef inntökuskilyrðum er fullnægt að öðru leyti. Náist ekki ásættanlegur fjöldi á eitthvert námskeiðanna fellur það niður. Aldurstakmark í skólann er 18 ár. Skólinn hefur sett sér reglur, m.a. um umgengni, reykingar og áfengisneyslu, sem nemendur samþykkja að fara eftir á starfstíma skólans.

Staðfestingargjaldið er greitt inn á reikning 334-26-5463, kt. 440169-0239.


Starfstími skólans á þessu ári er frá 9. til 17. júní að Reykjaskóla í Hrútafirði

Umsóknum ásamt staðfestingargjaldi skal skila fyrir 15. apríl til Bandalags ísl. leikfélaga á netfangið info@leiklist.is

Skólasetning er laugardaginn 9. júní kl. 9.00 og hefjast námskeiðin strax þar á eftir. Nemendur eru velkomnir að Reykjaskóla kvöldið fyrir skólasetningu, frá kl. 20.00, ekki er boðið uppá kvöldverð. Skólaslit eru kl. 12.00 sunnudaginn 17. júní. Viðurkenningarskjöl og merki skólans verða afhent við skólaslit.

Aðstaða í Reykjaskóla: Svefnherbergin eru búin 2 uppbúnum rúmum, þ.e. koddi, sæng, lak og sængurföt fylgja með, litlu borði og tveim stólum. Nemendur hafi með sér handklæði og sundföt. Sundlaug, gufubað og heitir pottar eru á staðnum. Haldið verður lokahóf síðasta kvöldið þar sem fólk klæðir sig uppá, kveður kennarana sína og skemmtir hvert öðru með dansi og söng.

Þátttökugjöld eru; 100.000 fyrir námskeiðið Á bak við tjöldin en 96.000 á hin þrjú.

Gjaldið skal vera að fullu greitt 10 dögum fyrir skólasetningu. Innifalið í þátttökugjaldi er gisting, matur, kennsla og gögn.

Staðfestingargjald er kr. 40.000. Það greiðist við skráningu og er óendurkræft nema gegn framvísun læknisvottorðs. Hægt er að greiða símleiðis með greiðslukorti.

Meðlimum aðildarfélaga Bandalags íslenskra leikfélaga er bent á að félögin geta sótt um smá styrk til Bandalagsins ef þau senda nemendur í skólann.

Umsóknum skilað

Umsóknum skal skila á netfangið info@leiklist.is og um leið þarf að leggja staðfestingargjaldið, kr. 40.000.- inn á 334-26-5463, kt. 440169-0239. Eftirtaldar upplýsingar þarf að senda í tölvupósti: Hvaða námskeið er verið að sækja um, nafn umsækjanda, kennitala, heimilisfang, póstnúmer, bæjarfélag, netfang og símanúmer. Þar sem krafist er undirbúningsnámskeiða eða reynslu skal láta ferilskrá fylgja umsókn.


Námskeið 1

Trúðanámskeið – Sérnámskeið fyrir leikara
Kennarar Ágústa Skúladóttir og Gunnar Björn Guðmundsson
Þátttökugjald: kr. 96.000
Tími: 9. til 17. júní 2018
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Námskeiðið er ætlað þeim sem hafa sótt Leiklist I og II eða sambærileg grunnnámskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leiklist.

Á námskeiðinu verður trúðleikurinn aðalundirstaðan. Hvers vegna erum við fyndin? Hvernig erum við fyndin? Byrjað verður á rauða nefinu, „einfalda trúðnum“ sem elskar að vera á sviðinu og gleðja áhorfendur. Hvernig gerist það hjá hverjum og einum? Með brosi og blikki eða því að fara með hávamál og herma eftir þvottavél í leiðinni? Talar þinn trúður mikið eða er hann hinn fámáli hjálpfúsi aðstoðarmaður? (Ath. ekki verða látin í té fyndin hjálpartæki s.s. blóm sem sprauta vatni og þess háttar og ekki verður farið í að detta á rassinn né að keppa í því hver er bestur í kollhnís!)

Hér reynir á kjark og einlægni leikarans, það að hann þori að standa fyrir framan áhorfendur og hlusta eftir því hvað þeim þykir skemmtilegt. En það reynir ekki síst á að fagna því þegar maður er ekki fyndinn og henda höfnunartilfinningunni sem því fylgir út í hafsauga og halda ótrauð áfram.

Á síðari hluta námskeiðsins verður farið í tragíska trúðinn. Rauða nefið tekið af og dekkri hliðar lífsins taka við. Þessi trúður á sér vonir og þrár, getur orðið ástfanginn og svo misst ástvin sinn en sama á hverju gengur missir hann aldrei vonina og eins og rauðnefjinn, sambandið við áhorfandann.


Námskeið 2

Leikstjórn – Sérnámskeið, Master Class fyrir leikstjóra
Kennari Rúnar Guðbrandsson
Þátttökugjald: kr. 96.000
Tími: 9. til 17. júní 2018
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Sérnámskeið í leikstjórn, ætlað þeim sem sótt hafa Leikstjórn I og II og sérnám- skeið fyrir leikstjóra eða sótt sambærileg námskeið eða hafa umtalsverða reynslu af leikstjórn.

Námskeið þetta verður jöfnum höndum fræðilegt og verklegt. Útgangspunkturinn er aðferð sem kennarinn hefur kynnt á undangengnum leikstjóranámskeiðum í BÍL skólanum og sækir fyrst og fremst innblástur í ævistarf Konstantins Stanislavskys, bæði hina „vitsmunalegu greiningu“ sem Stanislavsky þróaði framan af ferli sínum og „aðferð líkamlegra gjörða“ sem hann vann að er hann féll frá. Fleiri áhrifavaldar svífa þó yfir vötnunum og verður vísað til ólíkra hugmynda um hlutverk leikstjórans og verður fjallað um ýmsa strauma og stefnur í leikstjórn síðustu aldar. Þríeykið Stanislavsky, Brecht og Grotowski verða þar í brennidepli og meðul þeirra skoðuð í sambandi við tilganginn. Aðferðafræði, hugmyndafræði og fagurfræði ólíkra leikstjóra verða vegnar og metnar og bornar saman við „aðferð“ námskeiðsins. Unnið verður með túlkun og grunnhugmynd (Concept) í framsetningu efnis og hugað að umgjörð og áhrifameðulum; sjónrænum og hljóð- rænum þáttum og endanlegu útliti leiksýninga.

Á undangengnum námskeiðum hefur mikil áhersla verið lögð á vinnu leikstjórans með leikurum, en nú verður að auki skoðað samstarf hans við aðra listræna stjórnendur.

Eftir að skráningu lýkur verða öllum þátttakendum send verk til skoðunar og verða þau lögð til grundvallar vinnunni. Kennari mun einnig senda þátttakendum verkefni til að íhuga og leysa áður en námskeiðið hefst, þannig að ákveðins undirbúnings verður krafist.

Kennsla fer fram með ýmsum hætti; fyrirlestrar, umræður, verklegar æfingar, einstaklings verkefni, hópverkefni, o.s.frv.

Brettið upp ermar og spýtið í lófa.


Námskeið 3

Leikritun I – Grunnnámskeið
Kennari Karl Ágúst Úlfsson
Þátttökugjald: kr. 96.000
Tími: 9. til 17. júní 2018
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Námskeiðið er ætlað öllum sem áhuga hafa á að spreyta sig við leiktextasmíð, jafnt algerum byrjendum og þeim sem einhverja reynslu hafa.

Kynntir verða helstu þættir klassískrar leikbyggingar og dæmi skoðuð. Sköpunarferlið verður í brennidepli og hugað að því hvað hvetur sköpunina og hvað letur hana.

Í gegnum nokkrar æfngar skoðum við grunneiningar leikritsins – upphaf, miðju og endi, kynnum okkur persónusköpun, söguþráð og samtöl.

Unnið verður með stutt verk, sem þó uppfylla öll skilyrði leiksögunnar, og stefnt er að því að lokaverkefni hvers nemanda verði tilbúið til meðhöndlunar leikara og leikstjóra.


Námskeið 4

Á bak við tjöldin – Hönnun og aðferðir við leikmynda- og búningagerð
Kennari Eva Björg Harðardóttir
Þátttökugjald: kr. 100.000
Tími: 9. til 17. júní 2018
Staður: Reykjaskóli
Skráning hefst 15. mars og lýkur 15. apríl

Námskeiðið er grunnnámskeið í hönnun leiksýninga og hentar öllum þeim sem áhuga hafa á baksviðsvinnu í leikhúsinu.

Markmið námskeiðsins er að efla nemendur í að að vera skapandi og skipulagðir. Kynnt verða verkfæri og tækni til að hugsa út fyrir rammann og koma hugmyndum sínum í verk. Í lok námskeiðs eiga nemendur að geta sett fram tillögu að heildarútliti leiksýningar til kynningar fyrir leikstjóra.

Á námskeiðinu verður fjallað um hönnunarferlið – frá fyrstu hugmynd að fullbúinni sýningu. Kynntar verða aðferðir við hönnunarvinnu, gerva-, búninga-. leikmuna- og leikmyndagerð. M.a. verður farið yfir greiningu á handriti, módelgerð, gerð söguborða (storyboard) og hugmyndaborða (moodboard), búningateikningar, samskipti við leikstjóra og aðra listræna stjórnendur, gerð verkáætlunar, fjárhagsáætlunar o.fl.

Námskeiðið byggir á mikilli virkni allra þátttakenda en bæði verður unnið í einstaklingsvinnu og hópum. Námskeiðið skiptist í fyrirlestra, umræður og verklegar æfngar.

Námskeiðið hentar öllum sem áhuga hafa á baksviðsvinnu í leikhúsi, hvort sem er við sviðsmynd eða búninga og mega nemendur velja sér verkleg verkefni út frá sínu áhugasviði. Eftir að skráningu lýkur verða þátttakendum send leikverk til að velja úr og lesa áður en námskeiðið hefst. Einnig listi yfir verkfæri og efnivið sem gott er að hafa með sér.


Reykjaskóli er við Hrútafjörð í Húnaþingi vestra. Hann er í 15 km fjarlægð frá Staðarskála, 17 km frá Hvammstanga, 178 km frá Reykjavík, 210 km frá Akureyri, 620 km frá Höfn, 348 km frá Ísafrði og 504 km frá Egilsstöðum. Á vetrum eru þar reknar skólabúðir fyrir grunnskólabörn. Mikið er af skemmtilegum myndum og öðrum upplýsingum á heimasíðu skólans www.skolabudir.is.