Það verður sannkölluð leikhúsveisla um páskana hjá LA. Eftir skemmtilegan dag í brekkum Hlíðarfjalls eða rólegan dag í fögrum miðbæ Akureyrar, er tilvalið að bregða sér í leikhús! Leikhúsunnendur geta valið um þrjár sýningar, 39 þrep, Horn á höfði og Fúlar á móti auk þess sem boðið verður upp á þriðja leiklesturinn í Leiklestraröð LA sem í þetta sinn er Blóðbrúðkaup eftir Garcia Lorca.

Á fjölum Samkomuhússins verður hinn geysivinsæli gamanleikur 39 þrep sem hefur nú verið sýndur fyrir fullu húsi frá því í janúar sl. Þar takast fjórir hugrakkir leikarar á við 139 hlutverk í einhverjum hröðustu, mest spennandi og fyndnustu 100 mínútum sem sést hafa á leiksviði. Höfundurinn Patrick Barlow byggir verkið á samnefndri kvikmynd Alfred Hitchcock. Sýningin hentar allri fjölskyldunni.
Sýningar: 26. mars kl. 19.00, 27. mars kl. 19.00, 1. apríl kl. 19.00 og 22.00, 3. apríl kl. 19.00

Horn á höfði er sýnd í Rýminu og er gestasýning frá GRAL Grindvíska atvinnuleikhúsinu. Björn litli vaknar einn morgunn með horn á höfðinu. Hann fær Jórunni vinkonu sína til að hjálpa sér að komast að ástæðunni því hann langar ekki að líta út eins og geit. Í leit sinni að sannleikanum renna þau inn í atburðarás á mörkum ævintýris og veruleika. Spennandi og fyndin barna- og fjölskyldusýning sem hlotið hefur frábærar viðtökur. Tónlistin er eftir Villa Naglbít og eiga lögin úr sýningunni vonandi eftir að hljóma hátt í skíðabrekkunum í Hlíðarfjalli um páskana.
Sýningar: 31. mars kl. 16.00, 1. apríl kl. 14.00 og 16.00, 3. apríl kl. 14.00 og 16.00

Fúlar á móti koma aftur til Akureyrar og skemmta gestum eins og þeim einum er lagið. Þær Edda Björgvins, Helga Braga og Björk Jakobs fara á kostum í einhverju vinsælasta uppistandi síðari tíma. Sýnt á Marínu (áður Oddvitinn) þar sem setið er við borð og hægt að njóta ljúfra drykkja.
Sýningar: 2. apríl kl. 21.00 og 3. apríl kl. 21.00

Þann 7. apríl munu hiti og ástríða fylla gamla Samkomuhúsið, því þá verður þriðji leiklesturinn í Leiklestraröð LA.  Leikarar LA  leiklesa verkið Blóðbrúðkaup eftir  Garcia Lorca,  sýnd verður stuttmynd eftir Lorca og Salvador Dali og Alberto Carmona mun sjá um tónlistarflutning og leiða tangóband.  Miðaverð aðeins 500 kr.

Hægt er að finna allar nánari upplýsingar um viðburðina á heimasíðu LA, www.leikfelag.is Miðasala er í síma: 4 600 200 og á www.leikfelag.is

{mos_fb_discuss:3}