Ávörp á Alþjóðlega leiklistardeginum 27. mars

Leiklistarsamband Íslands hefur ávallt fengið íslenskan leikhúslistamann til að semja sérstakt ávarp í tilefni Alþjóðlega leiklistardagsins. Hefur sú hefð skapast að það hafi verið flutt af höfundi í útvarpi þann dag, sem og af stóra sviði Þjóðleikhússins fyrir sýningu. Þá hafa leikhúslistamenn um allt land stigið fram fyrir tjöld leikhúsa sinna og flutt ávarpið íslenska þetta kvöld. Ávarpið semur að þessu sinni Ragnheiður Skúladóttir, deildarforseti leiklistar- og dansdeildar Listaháskóla Íslands.

Frá árinu 1962 hefur Alþjóðlegi leiklistardagurinn verið haldinn hátíðlegur um allan heim. Þá hefur heimskunnur leikhúslistamaður verið fenginn til að semja ávarp í tilefni dagsins af Alþjóða leiklistarstofnuninni, ITI, sem hefur aðsetur í Unesco-byggingunni í París. Að þessu sinni er það Dame Judy Dench leikkona.

Íslenska ávarpið:

Er það ekki merkilegt að í samfélagi okkar, þar sem hinn svokallaði hvunndagur glottir við manni að morgni og æpir: „IceSave“! eða: „Eldgos“! … já, er það ekki merkilegt að í okkar daglega amstri; þéttriðnu neti upplýsinga, álitamála, greinargerða, fésbókarfærslna, tölvuskeyta og smáskilaboða … skuli leynast leiksvið?

Er það ekki undarlegt að við, sem reynum eftir fremsta megni að halda okkur í sömu vídd og okkur var úthlutað við fæðingu, skulum sammælast um að kóróna raunveruleikann með leikhúsum, sem eru til þess eins gerð að hýsa skáldlega úttekt á þeim flóknu og oft tröllvöxnu sendingum sem tíminn þeytir í átt til okkar hvort heldur sem er í vöku eða í draumi?  Eða hvað?

Við tölum um leiklist og eigum með því við athafnirnar sem áhorfendur verða vitni að í leikhúsi.  Þó á leiklistin sér ekki aðrar forsendur en skynjun og túlkun áhorfandans á hreyfingum og orðum þeirra sem standa á sviðinu í hvert sinn. Vegna þess að leiklistin er í raun átak áhorfenda og leikenda. Kjarni hennar felst í samkomulagi beggja aðila um að gera tilraun til þess að skapa sameiginlega reynslu, án þess að hafa nokkra tryggingu fyrir því að tilraunin takist, enda upplifun áhorfenda af atvikum á leiksviði – sjónarhorn og afstaða – bundin persónu þeirra og lífsreynslu. En þegar tilraunin ber árangur – og það gerist vissulega stundum – þá gerast lítil kraftaverk. Það sem virtist svo órætt og óljóst breytist í allt að því áþreifanlega staðreynd.

Þá skilur maður loks að ástæða þess að við höfum sammælst um að hafa sérstök leiksvið, leikhús og skapa leiklist er sú að það er í eðli okkar að vilja túlka veruleikann í kringum okkur og upplifun okkar af honum.  Við höfum þörf fyrir að líta um öxl, endurmeta stöðu okkar, gagnrýna gjörðir okkar og hegðun og við þráum að setja flókna og – að því er virðist – fullkomlega óskylda hluti í samhengi.  Til þess að skilja það sem sýnist óskiljanlegt.

Ragnheiður Skúladóttir
Deildarforseti leiklistar- og dansdeildar Listaháskóla Íslands

 

Alheimsávarpið:

Alþjóða leiklistardagurinn gefur okkur tækifæri til að fagna leiklist eins og hún birtist okkur í ógrynni mynda.
 Leiklist er uppsprettulind skemmtunar og andagiftar og gefur færi á að sameina ólíkar menningararfleifðir og þjóðir sem fyrirfinnast vítt og breitt um heiminn. En leiklist er líka meira en það, því með leiklistinni gefst tækifæri til að fræða og upplýsa.

Leiklist er flutt víðsvegar um heiminn og ekki alltaf í hefðbundnum leikhúsbyggingum. Leiksýning getur birst okkur í litlu þorpi í Afríku, í skjóli fjalls í Armeníu, á agnarsmárri eyju í Kyrrahafinu. Allt sem þarf er rými og áhorfendur. 
Leiklist kallar fram bros á andlitum okkar, fær okkur til að tárast, en ekki síst fær hún okkur til að hugsa og bregðast við.

Leiklist verður til í samvinnu. Leikararnir eru þeir sem sjást, en þeir eru undra margir sem ekki sjást og eru allir jafn mikilvægir og leikararnir. Það munar um þá og fyrir hæfileika þeirra verður leiksýning að veruleika. Þeir eiga líka allan heiður skilinn þegar við fögnum og gleðjumst yfir þeim sigrum sem leiklistin vonandi skilar í höfn í dagslok.

27. mars er hinn opinberi alþjóðadagur leiklistarinnar. Hver dagur ársins ætti skilið að vera sá dagur;  dagur leiklistarinnar. Því það er á okkar ábyrgð að viðhalda stöðugt hefðinni að skemmta, að fræða og upplýsa áhorfendur okkar, þá sem öll okkar tilvist byggir á.

Íslensk þýðing: Viðar Eggertsson.

Höfundur ávarps Alþjóða leiklistardagsins í ár er ein af virtustu og dáðustu leikkonum Bretlands, Dame Judith Olivia Dench, betur þekkt sem Judi Dench. Hún hefur borið hróður bresks leikhús um álfur heims og  hlotið margvíslegar viðurkenningar og verðlaun fyrir list sína á leiksviði, í sjónvarpi og kvikmyndum. Árið 1988 var hún öðluð af Englandsdrottningu og hlaut þá nafnbótina Lafði breska konungríkisins. Hún hefur hlotið tíu BAFTA verðlaun, Laurence Olivier verðlaunin sjö sinnum, tvisvar sinnum Screen Actors Guild verðlaunin, tvenn Golden Glope verðlaun, Tony verðlaun og Óskarsverðlaun fyrir list sína.