Leikfélag Hólmavíkur hefur nú æfingar á verkinu Þið munið hann Jörund, eftir Jónas Árnason. Leikstjóri er Skúli Gautason og stefnt er að frumsýningu þann 24. mars.
Þið munið hann Jörund er eitt þekktasta verk þessa mikla leik- og tónskálds. Það hefur verið sett upp víða og tónlistin úr því er flestum kunn. Efni verksins er valdatíð Jörundar hundadagakonungs á Íslandi, og er þar brugðið upp skoplegri mynd af íslenskum bændalýð og dönskum embættismönnum, að ógleymdum Jörundi sjálfum og "hirð" hans.
Leikfélag Hólmavíkur var stofnað árið 1981 og er því eitt af yngri leikfélögum landsins. Það hefur staðið fyrir öflugri starfsemi frá stofnun, og stendur nú fyrir námskeiðahaldi og skemmtikvöldum ár hvert, auk leiksýninga. Félagið hefur verið iðið við að fara í leikferðir og hefur, á þessum 25 árum, sýnt sýningar sínar á samtals 45 stöðum, eftir því sem segir á vef félagsins .
Meðfylgjandi mynd er úr sýningu Leikfélags Hólmavíkur á verkinu Fiskar á þurru landi eftir Árna Ibsen, sem frumsýnt var um páskana í fyrra.