Næsta vinnusmiðja FLÍSS og Fræðsludeildar Þjóðleikhússins verður haldin þriðjudaginn 20. febrúar næstkomandi.
 
Leiðbeinandi verður Ágústa Skúladóttir leikstjóri. Ágústa ætti að vera flestum kunn af verkum sínum undanfarin ár sem hafa sum hver notið mikilla vinsælda.
 
Ágústa Skúladóttir lærði leiklist hjá Monicu Pagneux, Philippe Gauliere, Theatre De Complicite, John Wright og David Glass. Hún starfaði í nokkur ár í London sem leikkona og uppistandari. Hún er einn af stofnendum Icelandic Take Away Theatre, og hefur unnið þar sem leikari, höfundur og leikstjóri í fjölda sýninga. Meðal leikstjórnarverkefna hennar þar eru Háaloft, Angels of the Universe og Spekúlerað á stórum skala. Ágústa hefur leikstýrt talsvert í áhugaleikhúsi, Grimmsævintýrum (áhugaleiksýning ársins 2002) og Hljómsveitinni hjá Leikfélagi Kópavogs, Svarfdælasögu hjá Leikfélagi Dalvíkur, Undir hamrinum hjá Hugleik og Memento Mori hjá Leikfélagi Kópavogs og Hugleik. Meðal annarra leikstjórnarverkefna Ágústu eru Kvenna hvað? í Kaffileikhúsinu, Sellófon (áhorfendaverðlaun Grímunnar) hjá Himnaríki, 5 stelpur.com í Austurbæjarbíói, Landið Vifra (tilnefning til Grímunnar 2005) í Möguleikhúsinu, Emma og Ófeigur hjá Stoppleikhúsinu og Dauði og jarðarber hjá Félagi flóna. Margar leiksýningar Ágústu í atvinnuleikhúsi og áhugaleikhúsi hafa verið valdar á leiklistarhátíðir víða um heim og unnið til fjölda verðlauna. Hjá Þjóðleikhúsinu hefur Ágústa sett upp, Eldhús eftir máli, Umbreytingu, Stórfengleg og mun leikstýra Amma djöfull árið 2007

Í þessari vinnusmiðju mun Ágústa kynna aðferðir sínar við við að setja þjóðsögur á svið og koma með einfaldar hugmyndir að slíkri vinnu sem henta börnum og unglingum. Við hvetjum alla sem áhuga hafa á að kynnast frábærum aðferðum og mjög svo lifandi framsetningu að mæta á þriðjudaginn.

Vinnusmiðjan kostar eins og áður 3000 kr.
Staðsetning er sú sama: Gamla Hæstaréttarhúsið Lindargötu 3, bak við Þjóðleikhúsið.
Tími: 20.00 – 22.00.