Stundarbrot, nýtt íslenskt verk eftir Leif Þór Þorvaldsson verður frumsýnt á Nýja sviðinu 8. janúar næstkomandi. Þetta er verk á mörkum vísinda, leikhúss og dans. Framsækið sviðslistaverk sem notar viðgangsefnið til þess að skapa ógleymanlega sjóræna upplifum fyrir áhorfendur. Í Stundarbroti er fjallað um tímann – hann teygður, beygður og afmyndaður með aðferðum leikhússins þar til skynjunin er sprengd í loft upp og skilin eftir í tætlum. Leifur Þór Þorvaldsson semur og leikstýrir verkinu, en hann hlaut mikið lof og Grímutilnefningu fyrir verk sitt Endurómun árið 2009.

Lydia Grétarsdóttir semur tónlist og dansarar í verkinu eru þær Ásrún Magnúsdóttir, Kara Hergils Valdimarsdóttir, Védís Kjartansdóttir og Þyrí Huld Árnadóttir. Verkið er Samvinnuverkefni Borgarleikhússins og Sublimi.

Viðfangsefni Stundarbrots er tíminn og er sýningin sprottin upp frá þverfaglegri rannsóknarvinnu aðstandenda sýningarinnar á þessu heillandi viðfangsefni. Í verkinu er tekist á við lúmska spurningu: Hvað er tíminn? Vangaveltur um tímann geta reynst okkur flestum yfirþyrmandi umhugsunarefni því tíminn setur tilveru okkar í samhengi við eitthvað miklu stærra en við náum utan um. Það þarf eitthvað annað en stofudrama til að fást við þetta heillandi hugtak.

Leifur Þór Þorvaldsson er höfundur og leikstjóri verksins. Hann útskrifaðist úr Fræði og framkvæmd við Listaháskóla Íslands árið 2009, hann fékk leiftrandi umsögn fyrir lokaverkefni sitt Endurómun og var verkið síðar sett upp í Borgarleikhúsinu og Leifur tilnefndur sem danshöfundur ársins það ár. Í Stundarbroti heldur Leifur áfram að vinna og þróa þær hugmyndir sem hann vann með í Endurómun.

Um Sublimi Sublimi er hópur sviðslistamanna sem vinna verk með róttæka nýsköpun í huga. Viðfangsefni hópsins eru í senn frumspekileg og sammannleg, þar sem þau blanda saman aðferðum vísinda, lista og heimspeki. Nafnið er fengið frá perúsku ís-vörumerki sem er einungis að finna í Andesfjöllunum og seldur í kringum fornar rústir Inkana. Sjá nánar um hópinn á www.sublimi.is