Svarti kassinn, nýtt frumsamið leikverk, verður frumsýnt af Leikfélagi Kópavogs föstudaginn 28. apríl kl. 20.00 í Leikhúsinu við Funalind. Verkefnið er samsköpunarverkefni í leikstjórn Ágústu Skúladóttur og hefur verið í vinnslu með hléum síðan i nóvember.

Hvað er svarti kassinn? Er svarti kassinn Pandórubox? Er hann leikhús? Er hann lífið sjálft?
Réttu barni kassa og það reynir að opna hann. Réttu því fleiri kassa og barnið byggir turn. Forvitnin, þekkingarþráin og sköpunarþörfin er inngróin og við viljum rannsaka, uppgötva, eiga og nota það sem við finnum. Manneskjunni virðist skapað að skapa til góðs eða ills.
Við stöndumst ekki freistinguna að opna. Gægjumst saman ofan í svarta kassann og sjáum hvað kemur upp úr honum; eitthvað mannlegt, skrýtið, skemmtilegt, hræðilegt, sorglegt, eitthvað fyndið. Þessi svarti kassi er bara of spennandi til að láta hann í friði.

Tíu leikarar taka þátt í sýningunni en fjöldi annarra hefur lagt hönd á plóginn. Hrefna Friðriksdóttir er höfundur texta, Skúli Rúnar Hilmarsson hannar lýsingu, Halldór Sveinsson frumsamdi tónlist og hljóðmynd er í höndum Harðar Sigurðarsonar og Hrefnu Friðriksdóttur. Listahópurinn Norðanbál sá um hönnun leikmyndar, María Björt Ármannsdóttir, Sólveig Dóra Hafsteinsdóttir og Una Guðjónsdóttir sjá um búninga ásamt fleirum og þær Sigrún Tryggvadóttir og Hrefna Friðriksdóttir um leikmuni í samstarfi vð leikhópinn.

Miðasala hér.