Menningarfélag Akureyrar mun senn fara með verkið Þetta er grín, án djóks í leikferð í höfuðborgina, en leikritið verður flutt í Eldborgarsal Hörpu þann 28. nóvember. Þetta er grín án djóks, er sviðsetning Leikfélags Akureyrar í samstarfi við Menningarhúsið Hof og er samið af þeim Dóra DNA og Sögu Garðarsdóttur sem jafnframt leika aðalhlutverkin. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson.

Verkið fjallar um tvo uppistandara sem búa saman og eiga erfitt með að fóta sig í brothættu og rétthugsandi samfélagi nútímans. Hefur verkið hlotið einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda og verið sýnt fyrir fullu húsi Í Hofi í allt haust. Nú gefst höfuðborgarbúum loks tækifæri til að sjá verkið, en aðeins þessi eina sýning er fyrirhuguð í Reykjavík.

Hommi, múslimi og feministi koma gangandi inn á bar…
Saga og Dóri eru uppistandarar og þau eru líka kærustupar. Þau elskast, rífast, semja brandara og eru ósammála um hvort betra sé að fara til New York eða á Hornstrandir til að rækta sambandið. Dóri og Saga eru kaldhæðin, upptekin af sjálfum sér og of mikið á netinu. Það er ekkert grín að vera einstaklingur í sjálfhverfu sambandi og í samkeppni við einu manneskjuna sem skilur mann. Það eina sem þau óttast er að segja óviðeigandi brandara og verða fyrir vikið jörðuð á öllum miðlum. En hvað er óviðeigandi brandari? Er grín ekki alltaf leikur á línunni? Og hversu óviðeigandi þarf mjög fyndinn brandari að vera til að maður sleppi honum? Er grín einhvern tímann ókeypis? Meira að segja fimm aura brandarar hafa verðmiða og hvað kostaði þá Grínverjinn?

Sýningin hefur verið sýnd fyrir fullu húsi í Hofi á Akureyri í haust og hefur hún hlotið einróma lof gagnrýnenda og áhorfenda. Nú gefst höfuðborgarbúum tækifæri til þess að njóta hennar.

Þetta er grín, án djóks er 316. sviðsetning Leikfélags Akureyrar og er sett upp í samstarfi við Menningarhúsið Hof.

Höfundar: Halldór Laxness Halldórsson og Saga Garðarsdóttir
Leikstjóri: Jón Páll Eyjólfsson
Tónlist: Snorri Helgason
Leikmynd og búningar: Magnea Guðmundsdóttir
Lýsing: Ólafur Ágúst Stefánsson
Dramatúrgía: Halldór Laxness Halldórsson, Jón Páll Eyjólfsson og Saga Garðarsdóttir
Starfsnemi á Leiklistarsviði: Hekla Aðalsteinsdóttir
Listræn ráðgjöf: Dóra Jóhannsdóttir, Mið Ísland
Leikarar: Halldór Laxness Halldórsson, Saga Garðarsdóttir og Benedikt Karl Gröndal
Hljóðmynd: Einar Karl Valmundsson
Sýningarstjórn: Þórunn Geirsdóttir og Jón Birkir Lúðvíksson
Tæknimaður: Þóroddur Ingvarsson
Ljósmyndir: Auðunn Níelsson
Hönnun: Arnar Tyggvasson
Aðstoð við búninga: Kristín Sigvaldadóttir
Leikmyndasmíði og málun: Magnús Viðar Arnarson, Bjarki Árnasson, Lárus Heiðar Sveinsson, B.Hreiðarsson ehf

Miðasala er hafin og hægt er að nálgast miða á vef Hörpu og á tix.is.