Er meistaraverk að daga uppi í skúffunni heima hjá þér? Ertu laumupenni?

Lakehouse auglýsir eftir örsögum, myndrænum lýsingum eða öðrum leikrænum þáttum sem endurspegla hugtakið einangrun. Þemað getur fléttast óljóst inn í sögurnar eða verið beintengt viðfangsefninu, verið dramatískt og kómískt, og allt þar á milli. Umsóknarfrestur er til 1. júlí.

Stjórn Lakehouse, í samstarfi við reyndan handritshöfund, velur síðan bestu sögurnar og brotin og vefur þær saman í leikverk. Höfundar örsagnanna verða einnig fengnir með í vinnuferlið og fá einstakt tækifæri til að vinna að þessari sérstöku handritasmíð.

Höfundar mega vera af öllum aldri og öllum kynjum en eina skilyrðið er að viðkomandi sé ekki með lögheimili í Reykjavík.

Þær örsögur sem verða notaðar í verkið fá þóknun fyrir framlag sitt. Miðað er við að samtals peningaþóknun nemi 1.000.0000 kr. og skiptist niður á valda höfunda. Skilyrði fyrir greiðslu verðlaunanna er að verkið fari á svið innan þriggja ára.

Vinsamlegast sendið örsögurnar á tölvupóstfangið lakehousetheatre@gmail.com fyrir 1, júlí 2018. Nánari upplýsingar veitir Árni Kristjánsson í sama póstfang. Örsögurnar mega bæði vera í leikritunarformi sem og almennum sögustíl.

____________________
Leikhópurinn Lakehouse, sem er stjórnað af þeim Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur tónlistarkonu og Árna Kristjánssyni leikstjóra, leita að höfundum fyrir nýstárlegt samstarfsverkefni. Verkefnið gengur undir vinnutitlinum Einangrun og höfundar sem eru búsettir utan höfuðborgarsvæðisins geta sent inn örsögur, leikþætti og textabúta til að taka þátt í verkefninu.
„Þetta er einstök hugmynd að því leytinu til að við vitum ekki hverjir munu skrifa verkið eða hvernig það verður. Höfundar og laumupennar sem eru búsettir annarstaðar en á höfuðborgarsvæðinu geta sent inn örsögur, aðstæðulýsingar og stutta leikþætti sem tengjast einangrun. Reyndur höfundur sem er líka utan af landi tekur við textabrotunum og í samstarfi við okkur Hörpu fléttar saman leikverk með þemanu einangrun.“ segir Árni Kristjánson.
„Þessi hugmynd spratt hjá okkur vegna þess að við erum bæði hrifin af verkum sem tengja saman margar sögur og oft með óvæntum hætti.“ segir Harpa Fönn og bætir við: „En líka vegna þess að sjálf er ég frá Húsavík þar sem ég held árlega listahátíðina Skjálfanda. Það skiptir mig miklu máli að koma list af landsbyggðinni meira á framfæri. Það er hafsjór af hæfileikaríkum listamönnum utan höfuðborgarsvæðisins sem sýna hæfileika sína í heimahéraði en gætu auðveldlega snert við fólki um allt landið ef þau fengju fleiri tækifæri til þess.“
Þó að einangrun sé útgangspunktur fyrir höfunda kemur það fram í auglýsingu Lakehouse að innsend verk geti verið af öllum toga. Hnyttin, sár, einlæg eða kómísk. Það ræðst svo ekki fyrr en í sumar hvaða höfundar verða valdir.
„Eins og við sjáum þetta fyrir okkur þá hefst samstarf okkar við höfundana með því sem þau senda inn.“ segir Árni. „Svo ef við veljum verk þeirra viljum við bjóða þeim að taka þátt í að þróa bútana sína og verkið í heild. Reyndur höfundur verður með ritstjórn fyir verkunum, en þetta er spennandi leið til að hleypa fleirum að sköpunarferlinu.“
Hvort verkið fái styrk frá leiklistarráði og í hvaða mynd það mun birtast er að sjálfsögðu enn óráðið. Ef þetta verk fer á svið yrði þetta þriðja atvinnuleiksýning Lakehouse sem hefur áður sýnt Í samhengi við stjörnurnar eftir Nick Payne í Tjarnarbíó, Frystiklefanum í Rifi og Sláturhúsinu á Egilsstöðum og sýnir nýtt íslenskt verk Rejúníon eftir Sóleyju Ómarsdóttur í Tjarnarbíó í haust.