Leikfélag Keflavíkur frumsýndi fjölskyldusöngleikinn Ronju ræningjadóttur síðastliðið föstudagskvöld fyrir fullu húsi. Frumsýningin gekk vonum framar og áhorfendur virkilega ánægðir með þessa skemmtilegu uppsetningu.

Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem börn taka þátt í leiksýningum hjá leikfélaginu en af 22 einstaklingum í leikhópnum eru 10 börn á grunnskólaaldri. Hreindís Ylva Garðarsdóttir Hólm sér um leikstjórn og danshöfundur er Guðríður Jóhannsdóttur. Tónlistarstjóri er Sigurður Smári Hansson en lifandi hljómsveit sér um alla tónlist í sýningunni. 

Það er mikil gleði hjá Leikfélagi Keflavíkur að geta boðið börnum aftur í leikhús, bæði á svið og sem áhorfendur, en mikið hefur verið lagt upp úr fullorðinssýningum síðastliðin misseri. 

Leikfélagið hvetur alla til að mæta og sjá framtíðarleikara blómstra á sviðinu í þessari yndislegu uppsetningu á Ronju ræningjadóttur. Miðasala fer fram á tix.is.