ImageÁ sunnudagskvöldið, lokakvöldi Vetrarhátíðar í Reykjavík, verður boðið upp á dagskrá í Leikhúskjallaranum þar sem tónlist Kurt Weill verður í fyrirrúmi.

Þjóðleikhúsið sýnir um þessar mundir Túskildingsóperuna eftir þá Bertolt Brecht og Kurt Weill. Tónlistin í verkinu er leikshúsgestum og tónlistarunnendum að góðu kunn. Í Túskildingsóperunni birtast öll helstu höfundareinkenni Kurts Weills. Þótt sterkra áhrifa gæti frá barokktónlist, tónlist klassíska tímans, vaudeville- eða revíutónlist, alþýðusöngvum og jazzmúsík er tónlistin öll snilldarlega meitluð í mjög svo persónulegan stíl hans sjálfs.

Tónlist Weills er hrjúf og gróf, en líka einlæg og falleg; hún er melódísk þótt hljómurinn sé ómstríður og djarfur; hún er framsækin og margslungin, en þó oftast alþýðleg og aðgengileg. Útsetningar hans eru einstakar. Grípandi laglínur taka flugið yfir sérkennilegum hljómasamböndum og vísvitandi “fölskum” nótum, og bassalínan hljómar stundum eins og hún sé tveimur töktum á undan eða eftir áætlun.

Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarstjóri Þjóðleikhússins og hljómsveitarstjóri Túskildingsóperunnar, mun fjalla um tónlist Kurt Weill ásamt Agli Ólafssyni. Þá munu Atli Rafn Sigurðarson, Egill Ólafsson, Halla Vilhjálmsdóttir og Selma Björnsdóttir flytja lög eftir Weill við undirleik Jóhanns G. Jóhannssonar.

Dagskráin verður flutt tvisvar sinnum, kl. 21:00 og kl. 22:30. Aðgangur er ókeypis.