Kexleikhúsið frumsýnir 22. ágúst sérstæða og nýstárlega sýningu í Gym & Tonic salnum á Kex Hostel. Verkið heitir 52 (52 Pick-up á frummálinu) og er kanadískt að uppruna, eftir TJ Dawe og Ritu Bozi. Það var frumsýnt á Fringe-hátíðinni í Montreal árið 2000, þar sem verkið hlaut Chapter’s Best Text verðlaunin. Verkið hefur síðan verið sýnt víða um heim við góðar undirtektir, m.a. í Bandaríkjunum, Ástralíu, Bretlandi, Singapore og nú er komið að Íslandi. Leikarar eru Hannes Óli Ágústsson og Melkorka Óskarsdóttir sem einnig þýddi verkið. Leikstjóri Vignir Rafn Valþórsson.
Verkið segir frá ástarsambandi karls og konu, frá upphafi til enda í 52 stuttum atriðum. Það sem gerir þessa sýningu sérstæða er bygging verksins. Í upphafi sýningar kasta leikararnir spilastokki upp í loft. Hvert spil ber nafn atriðis úr verkinu og uppbygging hverrar sýningar ákvarðast af tilviljun,-eftir þeirri röð sem spilin eru dregin upp úr gólfinu. Verkið er því aldrei eins frá einni sýningu til annarar, enda , eins og önnur persóna verksins segir:“svo mikill antí-klímax að horfa á þetta frá upphafi til enda.
Líkurnar á því að sama sýningin sé leikin oftar en einu sinni: Engin (eða tæknilega séð einn á móti 80 658 175 170 943 878 571 660 636 856 403 766 975 289 505 440 883 277 824 000 00 000 000)
Leikhópurinn samanstendur af gömlum vinum en Hannes og Melkorka eru gamlir vinir sem fóru í leiklistarnám sitt í hvoru landinu árið 2005 og hafa eftir útskrift verið að leita að hentugu verkefni til að vinna saman að nýju. 52 rak síðan á fjörur Melkorku, þegar hún var að vinna út í London, og þótti þeim verkið henta einkar vel fyrir þau. Melkorka snaraði verkinu yfir á íslensku og fengu þau Vignir Rafn til liðs við sig en hann og Hannes höfðu m.a. unnið saman með góðum árangri í Munaðarlaus, en sú sýning var sett upp við góðan orðstír veturinn 2010.
Sýningafjöldi er takmarkaður, aðeins verða 3 sýningar á verkinu í Reykjavík. Þær verða 22., 23., og 24. ágúst. Sýningin hefst kl. 18.00 og er miðaverði stillt í hóf, aðeins 2000 krónur. Miðapantanir eru í síma 6620367 eða hægt er að senda tölvupóst á fimmtiuogtveir@gmail.com
Aðstandendur:
Hannes Óli Ágústsson útskrifaðist úr Leiklistardeild LHÍ vorið 2009. Hannes hefur undanfarin ár starfað hjá Þjóðleikhúsinu en einnig unnið mikið með sjálfstæðum leikhópum á borð við Áhugaleikhús Atvinnumanna, Hreyfiþróunarsamsteypunni og Sóma Þjóðar. Einnig hefur Hannes leikið talsvert í sjónvarpi og kvikmyndum, m.a. Bjarnfreðarson og sjónvarpsþáttunum Hæ Gosi. Hannes mun starfa hjá Leikfélagi Akureyrar veturinn 2012-2013.
Melkorka Óskarsdóttir útskrifaðist úr leiklistarnámi við LAMDA í Bretlandi árið 2008 og hefur síðan starfað sem leikkona, fyrst og fremst í London. Meðal nýlegra hlutverka má nefna Agna í kvikmyndinni Love Bite (leikstjóri Andy de Emmony) og Valie í leikverkinu Beast (leikstjóri Natasha Pryce) sem hlaut mikið lof gagnrýnenda. Á Íslandi hefur Melkorka m.a. leikið í stuttmynd Marteins Þórssonar Prómill sem sýnd var á RIFF árið 2010.
Vignir Rafn Valþórsson útskrifaðist úr Leiklistardeild LHÍ vorið 2007. Eftir útskrift hefur Vignir starfað m.a. hjá Þjóðleikhúsinu, leikfélaginu Vér Morðingjar og Vesturporti. Einnig fór Vignir með lykilhlutverk í kvikmyndinni Svartur á leik og sjónvarpsþáttunum Hlemmavídeó. Vignir leikstýrði rómaðri uppfærslu á leikriti Dennis Kelly, Munaðarlaus, veturinn 2010.