Halaleikhópurinn vinnur nú hörðum höndum að uppfærslu sinni á verkinu Góðverkin kalla! eftir þá Ármann Guðmundsson, Sævar Sigurgeirsson og Þorgeir Tryggvason, en allir eru þeir meðlimir Ljótu hálfvitanna og ekki er þetta í fyrsta skipti þar sem þeir félagar koma að uppsetningu leikverka fyrir Halaleikhópinn með einhverjum hætti. Þess má til gamans geta að leikstjórar þetta leikárið eru að þessu sinni tveir, þau Oddur Bjarni Þorkelsson (sem er einmitt í Ljótu hálfvitunum) og Margrét Sverrisdóttir. Stefnt er á frumsýningu 4. febrúar.

Góðverkin kalla! er gamanleikrit sem gerist á Gjaldeyri við Ystunöf þar sem lífið snýst um góðverk. Allir sem ekki hafa tapað glórunni, lifa fyrir starfsemi góðgerðafélaga sem eru mörg á Gjaldeyri við Ystunöf. Segja má frá því að ný hjúkrunarkona kemur til bæjarins og er tekið opnum örmum af ýmsum íbúum sveitarfélagsins. Sjúkrahúsið á afmæli og það þarf að finna veglega gjöf handa því, a.m.k. veglegri en það sem hin félögin gefa.

Leikstýrin, þau Oddur og Margrét eru bæði vel menntuð á sviði leiklistarinnar en þau lærðu í Bretlandi. Hún sem leikkona og hann sem leikstjóri. Þau hafa meðal annars starfað með leikhópnum Kláusi og leikstýrt saman viða um landið sem og leikið. Upp á síðkastið hefur Margrét til dæmis  leikið í Heilsugæslunni með Kómedíuleikhúsinu. Einnig hefur hún farið um víðan völl með  Bólu–Hjálmar en sú sýning hlaut Grímu-verðlaunin. Oddur Bjarni hefur hinsvegar bæði leikstýrt og aðstoðarleikstýrt í Borgarleikhúsinu og Þjóðleikhúsinu. Hann hefur einnig verið ötull í starfi áhugaleikhópa og sett upp á þriðja tug sýninga.

Halaleikhópurinn var stofnaður árið 1992 og hefur frá upphafi haft það að markmiði sínu að „iðka leiklist fyrir alla“. Á hverju ári hefur hópurinn sett upp eina stóra sýningu stundum fleiri og er handbragð hópsins metnaðarfullt. Meðal sýninga sem hópurinn hefur staðið að eru: Kirsuberjagarðurinn eftir Anton P. Tsjekhov, (2005) Gaukshreiðrið eftir Dale Wassermann í leikstjórn Guðjóns Sigvaldarsonar þar sem hópurinn hlaut mikið lof enda var sýningin kosin athyglisverðasta áhugaleiksýningin leikárið 2007-2008 á vegum Þjóðleikhússins og fékk hópurinn að stíga á Stóra svið leikhússins að launum með verk sitt fyrir fullu húsi. Auk þess hefur leikhópurinn látið semja fyrir sig ný íslensk verk nokkrum sinnum eins og t.d. Batnandi mann eftir Ármann Guðmundsson 2007. Á síðasta leikári varð síðan Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson í leikstjórn Ágústu Skúladóttur fyrir valinu og hlaut hún vægast sagt mjög góðar viðtökur.

Allar nánari upplýsingar er að finna á vef félagsins www.halaleikhopurinn.is. Sýnt verður í Halanum, Hátúni 12. Hægt verður að nálgast miða á Góðverkin kalla! frá og með 1. febrúar í síma 897- 5007 og á midi@halaleikhopurinn.is

{mos_fb_discuss:2}