Samband ungra sviðslistamanna (Sus) lýsir eftir verkum fyrir sviðslistahátíðina artFart 3 sem haldin verður í ágúst 2008. Sviðlistahátíðin artFart 3 er tilraun sem hófst árið 2006. artFart 3 er vettvangur fyrir framúrstefnu og tilraunamennsku í íslenskri sviðslist. Við leitum að listamönnum sem hafa eitthvað að segja um samfélagið sem við lifum í og eru tilbúin að vinna hörðum höndum að framþróun og nýsköpun í sinni list. Ekki er unnt að veita umsækjendumþóknun í formi fjármagns en þeir listamenn sem valdir verða fá sýningaraðstöðu og aðstoð við kynningu á verki í formi auglýsinga, fjölmiðlaumfjöllunar o.s.frv. Valin verða nokkur meginverk til að setja upp í völdum rýmum miðsvæðis í Reykjavík og enn fleiri minni verk verða hluti af óhefðbundnari og frjálslegri dagskrá sem skipulögð verður samhliða. Þema hátíðarinnar er talan 3 í öllu sínu veldi.

Í ár er leitað að eftirfarandi:
a) Fullunnum stærri verkum eða hugmyndum sem eru langt á veg komnar. Þeim skal fylgja ýtarleg lýsing á hugmynd (konsepti), umfangi, tímaramma vinnuferlis og fjárhagsáætlun.  Ef þessar upplýsingar eru ekki til staðar verður verkið ekki tekið til greina. Hvert verk skal vera minnst 20 mínútur.
b) Styttri verkum, gjörningum, staðsértækum verkum (site specific), spunaverkum, lifandi innsetningum (performance installation), o.s.frv. Allar hugmyndir verða teknar til greina.
c) Fyrirlestrum, vinnnustofum, að vekja athygli á einhverju sem tengist list, fræðslu um starfandi og merkilega listamenn, umræðum um stöðu sviðslistar á Íslandi, og fleira í þeim dúr. Allar hugmyndir verða teknar til greina.

Áhersla verður lögð á verk sem byggja á góðri hugmynd og athyglisverðri nálgun en fyrst og fremst spennandi framsetningu viðfangsefnis. Öllum er velkomið að skila inn hugmynd, svo framarlega sem líkami listamannsins sé mikilvægur þáttur verksins. Stjórn Sus mun fylgja eftir umsóknum og hafa eftirlit með því hvort verkefnið standist ekki tímaramma eða þær upplýsingar sem koma fram í umsókn; ef stjórn Sus metur það svo að verkefni sé ekki líklegt til þess að vera fullunnið á réttum tíma þá áskilur stjórn Sus sér rétt að taka verkefnið af dagskrá artFart 3. Þetta er gert til að skýra listræna stefnu Sus og artFart en einnig til að viðhalda gæðum verka og þar með hátíðarinnar sjálfrar.

Þetta þarf að koma fram í umsókn:
1. Grunnhugmynd verksins (ýtarlegt fyrir stærri verk)
2. Að hvaða leyti telst verkið framúrstefna, tilraunamennska, framþróun eða nýsköpun? (ýtarlegt fyrir stærri verk)
3. Lengd verksins
4. Fjöldi flytjenda og aðrir aðstandendur
5. Hverskonar rými gæti hentað verkinu (innandyra eða utan)
6. Tæknilegar þarfir verksins (ýtarlegt fyrir stærri verk)
7. Kostnaðaráætlun (ýtarlegt fyrir stærri verk)

 Umsóknum skal skila eigi síðar 17. apríl 2008 til: svidslist@gmail.com

{mos_fb_discuss:3}