Leikfélag Hafnarfjarðar frumsýnir laugardaginn 12. apríl leikverkið Barnið eftir Edward Albee. Verkið er skrifað í anda absúrd verka fimmta áratugarins, verka Ionesco og Beckett en þó með sterkri tilvísun til stöðu mannsins í nútímanum. Verkið fjallar um stúlkuna og strákinn sem eignast barn og njóta lífsins í fullkomnu sakleysi og án truflana frá hinum ytri heimi. Þegar maðurinn og konan koma inn í líf þeirra breytist allt og spurningarnar um kvölina og völina verða áleitnar. Í verkinu takast á launfyndnar uppákomur og grátleg atvik. Og hvað varð um barnið?

Verkið er þýtt af Guðrúnu Sóleyju Sigurðardóttur og er í leikstjórn Lárusar Vilhjálmssonar. Lýsing er í höndum Ingvars Bjarnasonar. Leikarar í verkinu eru fjórir: Guðrún Sóley Sigurðardóttir, Kristín Svanhildur Helgadóttir, Tryggvi Rafnsson og Víðir Örn Jóakimsson.

Sýnt er í Gamla Lækjarskóla í Hafnarfirði. Allar sýningar hefjast klukkan 20.00. Miðaverð er krónur 1500 og hægt er að panta miða í síma 848-0475 og á netfanginu leikfelagid@simnet.is.

{mos_fb_discuss:2}