Leikarinn Jóhann Sigurðarson hlýtur viðurkenningu Minningarsjóðs frú Stefaníu Guðmundsdóttur þetta árið. Stefanía Borg, formaður stjórnar minningarsjóðsins, og Þorsteinn Gunnarsson leikari og stjórarmeðlimur, sáu um að kynna og afhenda Jóhanni styrkinn og Stefaníustjakann við hátíðlega athöfn á Litla sviði Borgarleikhússins strax að lokinni síðustu sýningu verksins Rautt. Jóhann fer með aðalhlutverkið í Rautt og hlaut fyrir frammistöðu sína tilnefningu til Grímuverðlauna 2013 sem leikari ársins. Stjórn Minningarsjóðs frú Stefaníu Guðmundsdóttur samþykkti samhljóma að heiðra Jóhann í ár fyrir störf hans sem leikari.

Minningarsjóður frú Stefaníu Guðmundsdóttur var stofnaður árið 1938 af hjónunum Önnu Borg og Poul Reumert og hefur því verið starfræktur í 75 ár. Fyrsta styrkveitingin fór fram árið 1970 og styrkþegar eða „Stefaníubörn“ eru nú alls 41 talsins (að meðtöldum Jóhanni Sigurðarsyni). Markmið sjóðsins er að efla íslenska leiklist og heiðra um leið minningu frú Stefaníu Guðmundsdóttur, móður Önnu Borg, einn af merkustu brautryðjendum leiklistar á Íslandi. Styrkveiting úr sjóðnum er í senn viðurkenning á góðum árangri styrkþega og ferðastyrkur.

Árið 2006 voru liðin 130 ár frá fæðingu Stefaníu. Ákvað sjóðsstjórnin þá að láta gera sérstakan viðurkenningargrip, Stefaníustjakann, og var öllum fyrri styrkþegum afhentur stjakinn, sem er hannaður af Þorsteini Gunnarssyni leikara og arkitekt. Nánar um Minningarsjóð frú Stefaníu Guðmundsdóttur er að finna á: http://stefaniusjodur.is

Jóhann Sigurðarson lauk prófi frá Leiklistarskóla Íslands árið 1981 og var fyrst um sinn fastráðinn hjá LR þar sem hann lék mörg burðarhlutverk, til að mynda titilhlutverkið í Jóa, Arnald í Sölku Völku, Leslie í Gísl og Kjartan í Guðrúnu og söngleiknum Gretti og í Gosa. Jóhann lék svo í Þjóðleikhúsinu í fjölda ára, m.a. í Aurasálinni, Hafinu, Trígorín í Mávinum, titilhlutverkið í Don Juan, í Þreki og tárum, Grandavegi 7, Abel Snorko býr einn, Krítarhringnum, Veginum brennur, Ivanov og Öllum sonum mínum. Jóhann er nú fastráðinn leikari hjá Borgarleikhúsinu hefur m.a. leikið í Milljarðamærin snýr aftur, Fólkinu í blokkinni, Gauragangi, Ofviðrinu, Fólkinu í kjallaranum, Rautt og Bastarðar. Einnig má nefna aðalhlutverk í nokkrum söngleikjum; Vesalingunum, Söngvaseiði, My Fair Lady og Fiðlaranum á þakinu auk hlutverka í Íslensku óperunni; Valdi örlaganna og Rakaranum í Sevilla. Meðal kvikmynda sem Jóhann hefur leikið í eru Óðal feðranna, Eins og skepnan deyr, Húsið, Tár úr steini, 101 Reykjavík, Brúðkaup og Heiðin. Jóhann var tilnefndur til Grímuverðlauna fyrir leik sinn í Svartri mjólk, söngleiknum Gretti, Öllum sonum mínum, Fólkinu í kjallaranum og Rautt.