Í tilefni af 200 ára afmæli hinnar stuttu en litríku valdatíðar Jörundar hundadagakonungs á Íslandi hefur lítill leikhópur sett saman dagskrá um þennan skrautlega ævintýramann. Stiklað verður á stóru í ótrúlega viðburðaríku lífshlaupi þessa danska úrsmiðssonar og sægarps, en þó valdatíð hans á Íslandi sé sennilega hápunkturinn í ferli hans þá var hún svo sannarlega ekki það eina frásagnarverða. Á saga hans svo sannarlega erindi við okkur, ekki síst á þeim viðburðaríku tímum sem við lifum nú. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir og handrit gerðu Ármann Guðmundsson og Þorgeir Tryggvason.

Frumleg nálgun Ágústu Skúladóttur á leikhúsið hefur skilað sér í mörgum eftirminnilegum sýningum á síðustu árum, og má þar nefna Sellófón, Eldhús eftir máli, Klaufar og Kóngsdætur og Bólu Hjálmar, en tvær síðarnefndu sýningarnar fengu Grímuverðlaun sem besta barnasýningin. Þar komu einnig við sögu sem handritshöfundar þeir Ármann og Þorgeir. Tónlistarflutningur í sýningunni er í höndum þeirra að viðbættum Eggert Hilmarssyni, en þremenningar þessir eru meðlimir í gleðisveitinni Ljótu hálfvitunum. Með aðalhlutverk fara þó Magnús Guðmundsson, sem leikur Jörund, og Huld Óskarsdóttir sem bregður sér í ýmis hlutverk.

Dagskráin er um 40 mínútur að lengd og verður eins og fyrr segir í Hressógarðinum við Austurstræti, fimmtudagskvöldið 30. júlí og hefst kl. 20.30, en á undan mun Sigurlaugur Ingólfsson sagnfræðingur leiða sögugöngu um miðbæinn þar sem valdatíð Jörundar verður gerð skil áður en galgopahátturinn tekur yfir í Hressógarðinum. Gangan hefst kl. 19.30 á Lækjartorgi. Aðgangur á hvort tveggja er ókeypis.

{mos_fb_discuss:2}