Uppistandssýningin I Wouldn’t Date Me Either með Jono Duffy, sýndarveruleikhússýningin A Box In The Desert eftir Huldufugl og kabarett sýningin Ladies And A Gentleman eftir Dömur og herra halda til Bretlands nú í vikunni, þar sem þær munu taka þátt í listahátíðinni Brighton Fringe.

Sýningarnar tóku allar þátt í Reykjavík Fringe Festival síðastliðið sumar.

RVK Fringe á í nánu og miklu samstarfi við aðrar hátíðir erlendis. Ber þar helst að nefna Nordic Fringe Network (NFN), sem ásamt RVK Fringe inniheldur hátíðir í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og Litháen. Hægt er að sækja um 8 hátíðir í öllum 6 löndunum með sömu umsókninni og ýtir það undir að umsækjendur fari erlendis með sínar sýningar.

Nú um helgina fór t.d. Fin Fringe fram í Turku í Finnlandi, þar sem íslenska uppistandssýningin My Voices Have Tourettes vann til tveggja verðlauna, áhorfendaverðlauna og Nordic Fringe Network verðlauna sem gerir þeim kleift að fara með sýninguna sína á aðra norræna hátíð.

RVK Fringe og NFN stuðla að því að vera valdeflandi og hjálpa listafólki að koma sér á framfæri, bæði hér á landi sem og erlendis og hjálpa þeim að standa á eigin fótum.

Sýningarnar þrjár voru sérvaldar af Nordic Fringe Network til að taka þátt í „Nordic Season“ á Brighton Fringe hátíðinni, sem er stærsta listahátíð Englands og tekur yfir allan maí mánuð. Nordic Season fer fram í fyrsta sinn í ár að frumkvæði Nordic Fringe Network, og eru íslensku sýningarnar þrjár hluti af 12 sýningum sem koma frá Norðurlöndunum, og fara þær allar fram í The Old Market milli 13. og 18. maí.

Sýningarnar eru mjög ólíkar en eiga það sameiginlegt að hafa allar fengið góða aðsókn á síðustu RVK Fringe, en valið gefur gestum góða innsýn inn í hversu skapandi og frjó listasenan er á Íslandi.

Fringe hátíðir eru þekkt fyrirbæri víða um heim og draga að fjölda ferðamanna, listamanna, bókara, framleiðenda, leikstjóra, blaðamanna og gesta alls staðar að, svo þetta er mjög gott tækifæri fyrir hópana þrjá til að koma sér og list sinni á framfæri.

RVK Fringe hátíðin fer fram í annað sinn nú í sumar, frá 29. júní til 6. júlí.

Á síðastliðnu ári komu 50 verk fram á 10 staðsetningum, en í ár eru þau orðin 100 talsins og fara fram á 15 staðsetningum miðsvæðis í Reykjavík. Verkin koma frá 40 löndum, og fara flest verk fram á ensku eða án orða. Verkin eru mjög fjölbreytt og má m.a. finna dansverk, leiklist, uppistand, málverkasýningar, kabarett, tónlist, námskeið o.fl.

Nýjung hátíðarinnar í ár er Youth Fringe æskulýðsprógramm fyrir 13-18 ára krakka.

Endanleg dagskrá hátíðarinnar kemur upp á heimasíðu í byrjun júní, en miðasala er hafin á viðburði RVK Fringe á tix.is

Fyrir frekari upplýsingar um hátíðina er hægt að fylgja RVKfringe á samfélagsmiðlum eða heimsækja heimasíðu hátíðarinnar rvkfringe.is