Lýðveldisleikhúsið sýnir leikritið Út í kött! eftir Benóný Ægisson í Tjarnarbíói sunnudaginn 30. janúar kl 14. Þetta er ævintýraleikur með dansi og söng fyrir börn en fullorðin börn ættu líka að hafa gaman að þessu fjöruga verki. Leikin atriði mynda skemmtilega umgjörð utan um söng- og dansatriði þar sem ævintýrapersónur í litríkum búningum bregða á leik.

Því miður var ein af afleiðingum kreppunnar sú að aðgengi barna að leikhúsi takmarkaðist því heimsóknir leikhópa í skóla og leikskóla voru skornar niður og heyrast nánast til undantekninga núna. Lýðveldisleikhúsið vill bæta þetta ástand og býður skólum og leikskólum hópafslátt að sýningunni í Tjarnarbíó eða miðann á 1200 kr fyrir 10 manna hópa eða fleiri en almennt miðaverð er 1800 kr. Þeir sem vilja notfæra sér þetta tilboð hafi samband við miðasölu Tjarnarbíós í síma 527 2100 á milli kl. 13 og 15 alla virka daga eða sendi vefpóst á midasala@tjarnarbio.is

Út í kött! fjallar um Erp sem neyðist til að taka á móti dóttur vinafólks foreldra sinna inn í herbergið sitt. Helga Soffía er hress og hraðlýgin og kann frá mörgu undarlegu að segja. Erpur á erfitt með að sætta sig við þennan gest sinn, enda snýr hún heimi hans, þar sem hetjur teiknimynda og tölvuleikja eru karlmenn, á hvolf. Með fjörugu ímyndunarafli sínu nær hún að sýna honum að tilveran þarf ekki að vera niðurnjörvuð í fyrirfram ákveðin hólf og kassa. Sögur Helgu Soffíu eru þrjú Grimms-ævintýri byggð á útgáfum Roalds Dahl og fléttast þau inn í leikverkið með tónlist, dansi og söng. Þar birtast Rauðhetta, Öskubuska, prins, úlfar og grísir en Rauðhetta er enginn ráðvilltur sakleysingi sem lætur éta sig mótþróalaust og Öskubuska áttar sig á að hamingjan felst ekki í því einu að vera fótnett og fríð. Meira um leikritið á http://this.is/great/utikott.html

Börnin tvö leika þau Fannar Guðni Guðmundsson og Sóley Anna Benónýsdóttir en aðrir flytjendur eru Heiða Árnadóttir, Finnbogi Þorkell Jónsson og Kolbrún Anna Björnsdóttir og bregða þau sér í hin ýmsu hlutverk ævintýra og ytri geims. Búninga gerði Sigríður Ásta Árnadóttir, leikmynd Kristrún Eyjólfsdóttir, tónlistin er eftir Benóný Ægisson og Kolbrún Anna Björnsdóttir er leikstjóri.

{mos_fb_discuss:2}