Hafnar eru æfingar á leikritinu Svartur köttur eftir Martin McDonagh. Leikritið er margverðlaunað og hefur víða vakið verðskuldaða athygli. Sömu sögu er að segja um fyrri verka McDonaghs, s.s. Koddamaðurinn, Halti Billi og Fegurðardrottningin frá Línakri sem öll hafa verið sýnd hérlendis. Frumsýning verður 20. janúar hjá LA í Samkomuhúsinu en þá eru liðin 100 ár frá fyrstu frumsýningu í húsinu.
Leikarar, listamenn og starfsfólk hússins kom saman til samlestrar í vikunni og sem venja er á fyrsta samlestri voru þar kynntar hugmyndir að útliti sýningar og leið sem farinn verður við uppsetninguna. Mikill hugur var í hópnum og tilhlökkun að takast á við þetta einstaka leikrit. Frumsýning verður 20. janúar og því ljóst að spennandi ferðalag er framundan næstu tvo mánuðina. Þetta hófst allt með því að dauður köttur fannst á veginum – besti vinur Patreks í öllum heiminum. Hann leitar hefnda, Mairead leitar að ástinni, allir leita að Patreki nema Davey sem leitar að leið út úr klandrinu. Sagan  er reyfarakennd og fyndin, persónurnar vitgrannar en brjóstumkennanlegar, umfjöllunarefnið áleitið og húmorinn flugbeittur. Svartur köttur var frumsýnt í Bretlandi fyrir fjórum árum og var valið gamanleikrit ársins af þarlendum gagnrýnendum. Nú í vor var það svo frumsýnt á Broadway þar sem leikhúsunnendur halda ekki vatni.

Úr ummælum gagnrýnenda:
„Ímyndið ykkur Monty Python í einni sæng með Quentin Tarantino“ – Time Out
„Þetta er fyndnasta leiksýning á Broadway í dag – og klárlega mesti spennugjafinn“ – New York Times
„Stórkostlegt“ – Daily News
„Blóðugasta verkið á fjölunum í dag“ – The New York Observer
„Leikhús verður ekki betra“ – The Wall Street Journal

Martin McDonagh er í fremsta flokki ungra leikskálda heims um þessar mundir. Verk hans hafa verið sett upp um allan heim en íslenskir áhorfendur hafa barið þrjú verka hans augum, Fegurðardrottninguna frá Línakri (Borgarleikhúsið), Halta Billa (Þjóðleikhúsið) og Koddamanninn (Þjóðleikhúsið).  Svartur köttur (The Lieutenant of Inishmore) ber sterk höfundareinkenni McDonagh þó húmorinn sé fyrirferðarmeir en áður. Verk sem enginn leikhúsunnandi ætti að láta framhjá sér fara.
Leikstjóri er Magnús Geir Þórðarson. Filippía Elísdóttir hannar leikmynd og búninga en hún er með reyndustu og eftirsóttustu búningahönnuðum landsins en hefur ekki áður hannað leikmynd fyrir leikhús. Þórður Orri Pétursson hannar lýsingu. Hljómsveitin SKE semur, útsetur og flytur tónlist og þýðingu annaðist Hávar Sigurjónsson. Ragna Fossberg hannar gervi. Leikarar eru: Guðjón Davíð, Þráinn Karlsson, Ívar Örn, Ísgerður Gunnarsdóttir, Gísli Pétur, Ólafur Steinn og Páll S. Pálsson.

Leikritið er margverðlaunað og vann meðal annars Olivier verðlaunin í Bretlandi sem gamanleikrit ársins. Höfundurinn er landsmönnum að góðu kunnur, því þrjú verka hans hafa verið sett upp hér á síðustu árum; Koddamaðurinn, Halti Billi og Fegurðardrottningin frá Línakri.