Á þriðja dag jóla, sunnudaginn 27. desember kl. 14, verður harmleikurinn Antígóna eftir Sófókles fluttur í nýrri uppfærslu Útvarpsleikhússins á Rás 1, í samvinnu við Listaháskóla Íslands. Leikstjóri er Sigurður Skúlason og um hljóðstjórn sá Georg Magnússon. Með hlutverk Antígónu fer Sólveig Arnarsdóttir og Kreon, konung Þebu, leikur Jóhann Sigurðarsson. Leikritið er talið vera skrifað 422 f.k. og er nú flutt til að heiðra minningu þýðandans, Helga Hálfdanarsonar, sem lést fyrr á árinu.

Bræður Antígónu, þeir Eteókles og Pólíneikes, hafa borist á banaspjótum sem hermenn andstæðra fylkinga í stríði um borgina Þebu. Móðurbróðir þeirra, Kreon, hefur tekið við völdum í Þebu þegar leikurinn hefst. Hann lætur þau boð út ganga að Eteókles skuli hljóta sæmdarútför en lík Pólíneikesar, sem var í óvinahernum, skuli skilið eftir úti á víðavangi hundum og hrægömmum til ætis. Antígóna lætur hins vegar ekki segjast og býr bróður sínum hinstu hvílu. Þegar upp kemst um verknaðinn er Antígóna tekin höndum og Kreon fyrirskipar að hún skuli grafin lifandi. Dramb Kreons og stolt hafa skelfilegar afleiðingar í för með sér…

Í öðrum hlutverkum eru:
Ísmena: María Heba Þorkelsdóttir; Teiresías: Árni Tryggvason; Hemon: Þórir Sæmundsson; Sendiboði: Valur Freyr Einarsson; Vörður: Halldór Gylfason; Evridíka: Sigrún Edda Björnsdóttir
Kór öldunga Þebu: Erlingur Gíslason, Þorsteinn Gunnarsson, Pétur Einarsson og Kristján Franklín Magnús
Borgarar Þebu: Hjörtur Jóhann Jónsson, Olga Sonja Thorarensen Ólöf Haraldsdóttir, Sigurður Þórir Óskarsson og Snorri Engilbertsson. nemendur á leikarabraut Leiklistardeildar Listaháskóla Íslands
Höfundar tónlistar eru Kristín Bergsdóttir og Erla Axelsdóttir, nemendur í tónsmíðum í Tónlistardeild Listaháskóla Íslands

Kvöldið áður, laugardag 26. desember, annan dag jóla, kl. 21 verður fluttur þátturinn Margt er undrið, eftir Svein Einarsson, um harmleikinn Antígónu eftir Sófókles í þýðingu Helga Hálfdanarsonar og frumflutning hans á Íslandi. Flytjendur ásamt Sveini eru leikararnir Arnar Jónsson, Halldóra Björnsdóttir og Ragnheiður Steindórsdóttir. Þátturinn var áður á dagskrá um páskana sl. en er nú fluttur vegna þess að Antígóna er jólaleikrit útvarpsins í ár.

{mos_fb_discuss:2}