Stærsta leiklistarhátíð sem haldin hefur verið hérlendis fer fram á Egilsstöðum helgina 24.-26. apríl. Þar verða í boði 28 leiksýningar á vegum þrettán leikhópa ungs fólks sem allir hafa starfað undir merkjum Þjóðleiks, tilraunverkefnis á vegum fræðsludeildar Þjóðleikhússins og fleiri aðila, í vetur. Um 200 þátttakendur, víðsvegar að af Austurlandi koma saman á Egilstöðum og halda lokahátíð sína. Hóparnir hafa að undanförnu sett upp verk sín í heimabæjum sínum þar eystra, allt frá Vopnafirði til Hafnar í Hornafirði. Leikarar í sýningunum er á aldrinum 13-20 ára en stjórnendur þeirra hafa í vetur notið handleiðslu fagmanna frá Þjóðleikhúsinu.
Eitt megin hlutverk Þjóðleiksverkefnisins er að efla leiklistarstarf ungs fólks og hvetja til nýsköpunar í íslenskri leikritun. Ævintýrið hófst síðasta sumar þegar þrjú ung leikskáld, þau Bjarni Jónsson, Sigtryggur Magnason og Þórdís Elva Bachmann, voru valin af Þjóðleikhúsinu til þess að semja glæný leikrit fyrir þetta grasrótarstarf. Um haustið var síðan auglýst eftir hópum til þátttöku en fjöldi þeirra sem skráðu sig fór fram úr björtustu vonum. Hóparnir eystra völdu sér síðan eitt þessara nýsömdu verka hver til uppsetningar í sinni heimabyggð. Nú er loks komið að því að en á hátíðinni verða þau öll flutt á þremur dögum – alls fjórtán uppfærslur á þremur mismunandi verkum.
Þjóðleikhúsið er aðili að Vaxtarsamningi Austurlands og gengst fyrir verkefninu í góðu samstarfi við menningarmiðstöð Fljótsdalshéraðs um skipulag og framkvæmd verkefnisins. Engin fordæmi eru fyrir viðlíka hátíð hér á landi. Þess er vænst að Þjóðleikur verði kærkomin vítamínsprauta fyrir leiklistina hérlendis enda eru margfeldisáhrif verkefnisins gífurleg.
Hátíðin verður sett nk. föstudag að viðstöddum þjóðleikhússtjóra, Tinnu Gunnlaugsdóttir, fulltrúum frá Þjóðleikhúsráði og menntamálaráðherra Katrínu Jakobsdóttur.