Í fylgd með fullorðnum er nýtt leikrit eftir Pétur Guðjónsson sem Leikfélag Hörgdæla mun frumsýna í mars á næsta ári. Áheyrnarprufur verða haldnar á Melum í Hörgárdal sunnudaginn 5.desember milli 10 og 14.

Leitað er eftir leikurum á öllum aldri, um barna og unglingahlutverk er líka að ræða. Æfingar munu fara fram á Melum í febrúar og mars. Frumsýnt í mars. Áhugasamir sendi póst á leikfelaghorgdaela@gmail.com og við sendum til baka hvernig prufur fara fram og nánari tímasetningu.

Í fylgd með fullorðnum fjallar um Birnu sem stendur á tímamótum í lífinu. Það má segja að seinni hálfleikur blasi við. Hún lítur um öxl og ýmislegt kemur í ljós og margt er þar óuppgert. Birna segir okkur söguna af sjálfri sér, foreldrunum Krissý og Sumarliða og fyrstu ástinni honum Engisprettu-Haraldi. Sagan er í senn drepfyndin, grátbrosleg, dramatísk og sorgleg en líka bráðfjörug.

Eins og nafnið gefur til kynna er leikritið byggt á tónlist Bjartmars Guðlaugssonar, en Pétur, höfundur og leikstjóri hefur borið þá hugmynd með sér um alllangt skeið að skrifa leikrit með tónlist hans. Frumsýning 2022 er engin tilviljun því það ár verður Bjartmar sjötugur og sýningin sett upp honum til heiðurs.
Pétur Guðjónsson er eigandi Draumaleikhússins og hefur í gegnum tíðina skrifað leikrit, ýmist einn eða með öðrum. Auk þess sinnir hann leikstjórn, kennslu, stuttmyndagerð og viðburðastjórnun.
Áheyrnarprufur fyrir „Í fylgd með fullorðnum“ verða fyrstu vikuna í desember og verður óskað eftir leikurum á öllum aldri.
Meðal laga sem eru í sýningunni eru:
Týnda kynslóðin, Bissí Krissí, Ljóð um þig, Þegar þú sefur, Með vottorð í leikfimi, Þannig týnist tíminn og fleiri og fleiri.