Hugleikur frumsýndi í gær fimmtudag dagskrá númer tvö í dagskrárröðinni „Þetta mánaðarlega“. Útsendari Leiklistarvefsins fór á stúfana og hér má sjá hvað honum fannst. Hugleikur í feiknarformi
Önnur sýningin í einþátttungaröð Hugleiks „Þessu mánaðarlega“ var frumflutt í Kaffileikhúsinu fimmtudaginn 14. nóvember. Eftir þá fyrstu sem sýnd var í október var undirritaður þeirrar skoðunar að Hugleikur ætti meira inni en þar kom fram, svo ekki sé meira sagt. Hugleikur stenst illa frýjunarorð og setti að þessu sinni á svið sjö þætti af krafti og glæsibrag. Í stuttum þáttum á borð við þá sem hér voru á borð bornir er ekkert áhlaupaverk að ná tökum á áhorfendum, skapa sannfærandi persónur og búa til trúverðuga og áhrifaríka umgjörð. Þetta tókst þó í flestu því sem boðið var upp á og vel það.
Dagskráin hófst á einleik eftir Hrefnu Friðriksdóttur sem nefnist Dans. Vel skrifaður texti og skínandi leikur Fríðu B. Andersen í öruggri og hugmyndaríkri leikstjórn Þorgeirs Tryggvasonar skiluðu mjög vel heppnari sýningu. Þátturinn fjallar um aðstæður sem flestir eflaust kannast við og áhorfendur kunnu greinilega að meta það sem þeir sáu, margir eflaust meðvitaðir um að þeir væru að hlægja að sjálfum sér. Stórgóð byrjun á dagskránni sem eflaust kom salnum í rétta skapið fyrir það sem á eftir fylgdi.
Næst á svið var Petra eftir Fríðu B. Andersen. Hafdís Hansdóttir var hreint dásamleg í bráðfyndnum þætti í leikstjórn Höllu Rúnar Tryggvadóttur. Það sem virtist rútínuheimsókn hjá geðlækninum veitti áhorfendum smám saman innsýn í unaðslega bilaðan heim Petru. Ekki má eyðileggja „plottið“ fyrir þeim sem ætla að sjá aðra sýningu á dagskránni á föstudag en skemmst er frá því að segja að hlátur sumra áhorfenda nálgaðist móðursýki í lokin. Hreint ótrúlega kvikindislegt og fyndið.
Hér var komið að fjölmennasta þættinum í dagskránni, Hærra minn guð til þín eftir Ylfu Mist Helgadóttur í leikstjórn Unnar Guttormsdóttur. Sigrún Óskarsdóttir fór á kostum í hlutverki konu með vægast sagt óvenjulegt áhugamál. Sigrún Valbergsdóttir var skemmtileg í hlutverki prestsins en lögnin á persónu hans var einfaldlega ekki rétt og dró úr áhrifamætti þeirra fáranlegu aðstæðna sem voru í þessum skemmtilega skrifaða þætti. Einnig má setja spurningamerki við þá ákvörðun að hafa svo marga aukaleikara sem engu bættu við. Góð skemmtun engu að síður.
Síðasti þáttur fyrir hlé leið nokkuð fyrir að vera af allt annarri gerð en það sem á undan fór. Áhorfendur virtust ekki alveg undirbúnir fyrir þann alvarlega undirtón sem var þætti Hrefnu Friðriksdóttur Sveitaminni í leikstjórn Fríðu B. Andersen. Inngangurinn að þættinum kom undirrituðum einnig örlítið spánskt fyrir sjónir en þar getur verið því um að kenna að ég hef hvortveggja lesið þáttinn áður og einnig séð hann fluttan í annarri útgáfu. María Rúnarsdottir og Gísli Már Heimisson skiluðu hlutverkum sínum ágætlega en ekki náðist að skapa þau áhrif sem ég tel að búi í þessum stutta þætti.
Björn Thorarensen var fyrstur á svið eftir hlé í þætti eftir Nínu Björk Jónsdóttur í leikstjórn Huldu B. Hákonardóttur. Í Hefndin er sæt var Björn í hutverki Páls Pálssonar, biturs manns sem finnst heimurinn ekki meta hann að verðleikum. Þátturinn er snarpur, vel skrifaður og sprenghlægilegur á köflum. Björn skapaði stórskemmtilega týpu úr Páli og áhorfendur skemmtu sér konunglega yfir öfugsnúnum frægðardraumum hans. Þátturinn datt eilítið niður um miðbikið en náði sér fljótt á strik aftur og endirinn var glæsilegur.
Hér var aftur komið að þætti sem líkt og Sveitaminni fyrir hlé var aðeins annarrar gerðar en flestir hinna. Þessi nefndist Love me tender og er einnig eftir Hrefnu Friðriksdóttur sem virðist hafa af því sérstaka ánægju að kippa fólki aðeins niður á jörðina ef það hlær of mikið. Feykilega vel skrifaður og áhrifamikill þáttur í leikstjórn Rúnars Lund. Ármann Guðmundsson og Júlía Hannam gerðu hlutverkunum góð skil þó örlítils óöryggis gætti á köflum.
Lokaþátturinn í dagskránni var Afturelding eftir Þórunni Guðmundsdóttur. Þátturinn sem var í leikstjórn Rúnars Lund var hreint út sagt glæsilegur lokahnykkur á skemmtilegri dagskrá. Textinn var í bundnu máli, listilega saminn og skínandi vel fluttur af Sævari Sigurgeirssyni og Hrefnu Friðriksdóttur. Áhorfendur beinlínis hjöluðu af fögnuði yfir ástum og örlögum persónanna. Það er ekki öllum gefið að semja slíkan texta né heldur að flytja hann svo vel fari en hér var allt eins og best var á kosið.
Heilt yfir var þetta afskaplega vel heppnuð dagskrá í Kaffileikhúsinu og óhætt að hvetja fólk til að sjá síðari sýninguna í kvöld, föstudaginn 15. nóvember. Takk fyrir skemmtunina, Hugleikur. Nú þekki ég þig aftur.
HS.