ImageÁ annan tug frumsýninga verða í Þjóðleikhúsinu í vetur, nýtt leikrými –  Kassinn – verður tekið í notkun, Leikhúskjallarinn rís úr öskustónni, gamla hæstaréttarhúsið að Lindargötu 3 fær nýtt hlutverk… það leika ferskir vindar um Þjóðleikhúsið í vetur.


Stóra sviðið

Það verða fimm ólík og metnaðarfull verk á Stóra sviðinu í vetur. Fyrsta frumsýning vetrarins er nýtt verk eftir Ólaf Hauk Símonarson, Halldór í Hollywood sem byggir á Ameríkuárum Halldórs Laxness 1927-1929. Með hlutverk Nóbelskáldsins fer Atli Rafn Sigurðarson en leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.
Jólafrumsýningin er hinn forboðni ávöxtur leikhúsjöfranna Bertolts Brecht og Kurts Weill, Túskildingsóperan, sem fyrst var frumsýnd í Berlín 1928. Leikstjóri er Stefán Jónsson sem kemur nú til starfa í Þjóðleikhúsinu sem leikstjóri. Meðal leikenda eru Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Egill Ólafsson, Brynhildur Guðjónsdóttir og Ólafur Egill Egilsson. Hljómsveitarstjóri er Jóhann G. Jóhannsson.

9. febrúar verður Virkjunin eftir Nóbelsverðlaunahafann Elfriede Jelinek frumsýnd en þar segir frá mestu virkjunarframkvæmdum í sögu Austurríkis. Leikstjóri er Þórhildur Þorleifsdóttir en leikgerð er í höndum Maríu Kristjánsdóttur. Þýðandi er Hafliði Arngrímsson.

Átta konur og einn karlmaður munu hertaka sviðið 30. mars í glæpsamlegum gamanleik með söngvum. Átta glæsilegar leik- og söngkonur og hinn frábæri látbragðsleikari Kristján Ingimarsson fara á kostum í leikstjórn Eddu Heiðrúnar Backman og aðlögun Sævars Sigurgeirssonar með fönkuðum rythma Samúels J. Samúelssonar í Jagúar.

Christoph Schlingensief, "enfant terrible" í þýsku leiklistar- og menningarlífi, snýr aftur til Íslands og frumsýnir 14. maí nk. Ragnarök 2010 – Ódysseifsferð um Edduna. Þetta er samstarfsverkefni Listahátíðar í Reykjavík og Þjóðleikhússins.

Smíðaverkstæðið
Fyrsta frumsýningin á Smíðaverkstæðinu er Frelsi eftir Hrund Ólafsdóttur. Þetta er nýtt íslenskt verk um ungt fólk í Reykjavík nútímans sem tekur til sinna ráða með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Leikstjóri er Jón Páll Eyjólfsson sem þreyir frumraun sína sem leikstjóri í Þjóðleikhúsinu. Meðal leikenda eru Ólafur Steinn Ingunnarson, Arnbjörg Hlíf Valsdóttir, Sólveig Arnarsdóttir og Gísli Pétur Hinriksson. Um tónlistina sér Hallur Ingólfsson.

Í tilefni af 75 ára fæðingarafmæli Svövu Jakobsdóttir verður Eldhús eftir máli, nýtt verk Völu Þórsdóttur sem byggt er á nokkrum þekktustu smásögum skáldkonunnar, frumsýnt á milli jóla og nýárs. Leikverk Völu er samansett úr nokkrum sögum og myndum sem lýsa fáránlegum raunveruleika og raunverulegum fáránleika. Leikstjóri er Ágústa Skúladóttir.

Í febrúar og mars verður sannkölluð Jon Fosse-hátíð á Smíðaverkstæðinu. Fosse er stærsta nafnið í norsku leikhúsi í seinni tíð, höfundarverkið orðið mikið að vöxtum og uppsetningar hafa farið eins og eldur í sinu um Evrópu og víðar um heim. Leikrit Fosse eru margslungin og hræra upp í áhorfandanum. Hann nær að blanda saman látleysi, húmor og harmi svo úr verður kyngimagnaður seiður, hversdagslegur óhugnaður. Verkin Sumardagur í leikstjórn Egils Heiðars Antons Pálssonar og Dauðir hundar í leikstjórn Stefáns Jónssonar eru fyrst verk Fosse sem rata á íslenskar fjalir.

Kassinn
Kassinn er splunkunýtt leiksvið í Íþróttahúsi Jóns Þorsteinssonar sem vígt verður 5. febrúar en Þjóðleikhúsið gerði í vor samstarfssamning til sex ára við Landsbankann um uppbyggingu á þessu nýja sviði.

Pétur Gautur eftir Henrik Ibsen í nýrri þýðingu Karls Ágústs Úlfssonar verður fyrsta frumsýningin á hinu nýja sviði. Leikstjóri er Baltasar Kormákur og höfundur leikmyndar er Grétar Reynisson en þeir unnu síðast saman að Þetta er allt að koma sem hlaut Grímuna sem leiksýning ársins 2004. Leikritið um Pétur Gaut er allt í senn, andríkt ævintýri, ljóðleikur, heimspekilegt drama, ólíkindaleikur og gamanleikur svo fátt eitt sé nefnt. Og ef til vill fjallar það fyrst og síðast um það að vera maður í veröldinni. Leikendur eru Björn Hlynur Haraldsson, Ingvar Sigurðsson, Ólafía Hrönn Jónsdóttir, Nína Dögg Filippusdóttir, Ólafur Egill Egilsson o.fl.

Metamorphosis – ljóð á hreyfingu
er safn af smásögum og hugleiðingum sem aðeins brúður geta tjáð á sinn einfalda og áleitna hátt. Metamorphosis er töfrandi óður til lífsins, eins konar ljóð á hreyfingu. Töframaðurinn á bak við þetta allt saman er Bernd Ogrodnik.

Leikhópurinn Vesturport hefur vakið verðskuldaða athygli fyrir leiksýningar sínar á undanförnum árum og er skemmst að minnast sigra hans á leiksviðum Lundúnaborgar með Rómeó og Júlíu. Þjóðleikhúsið hefur efnt til samstarfs við hópinn og leikarar hans taka þátt í ýmsum sýningum vetrarins. Samstarfinu að þessu sinni mun síðan ljúka með sérstöku Vorblóti hópsins í Kassanum. Áhorfendur mega búast við óvenjulegri sýningu þar sem allir helstu kostir og hæfileikar hópsins munu njóta sín. Loftfimleikar, söngur, dans og gleði!

Gestasýningar
Frá RAMT-leikhúsinu (Rossisky Akademicesky Molodezhny Teater) í Moskvu kemur Kirsuberjagarðurinn eftir Anton Tsjekov, í leikstjórn listræns stjórnanda hússins, Alexej Borodins,  og leikritið Að eilífu eftir Árna Ibsen í leikstjórn Raivo Trass frá Eistlandi. Sýningar verða dagana 8.-11. september nk. á Stóra sviðinu.

Frá Det Kongelige Teater í Kaupmannahöfn barnaballet með sýningu byggða á ævintýrum H.C. Andersen sem nefnist Klippimyndir.  Einstök upplifun fyrir börn á öllum aldri. Dagana 29.-30. október á Stóra sviðinu.

Sýning Vesturports, Brim eftir Jón Atla Jónasson verður sýnd á Litla sviðinu í byrjun nóvember. Brim er nýtt íslenskt leikrit úr samtímanum. Það fékk fimm tilnefningar til Grímunnar, íslensku leiklistarverðlaunanna, á síðasta leikári, þar á meðal var Jón Atli tilnefndur sem leikskáld ársins og sýningin sem besta leiksýning ársins. Sýningunni var boðið á leiklistarhátíð Schauspiel Frankfurt sem haldin er annað hvert ár í Þýskalandi og þykir ein fremsta hátíð nýrra leikverka og leikskálda í Evrópu.

Frá Sumaróperunni kemur Galdraskyttan eftir Carl Maria von Weber í samvinnu við Listahátíð í Reykjavík. Hljómsveitarstjórn er í höndum Gunnsteins Ólafssonar. Sýningar verða í byrjun júní.

Image

Frá fyrra leikári
Klaufar og Kóngsdætur – fyrsta sýning á Stóra sviðinu 31. ágúst.
Edith Piaf – fyrsta sýning á Stóra sviðinu 2. september
Rambó 7 – fyrsta sýning á Smíðaverkstæðinu 2. september
Koddamaðurinn – fyrsta sýning  í Litla sviðinu 8. september

Leikhúskjallarinn
Á haustdögum gengur Leikhúskjallarinn í endurnýjun lífdaga með kraftmikilli og spennandi listadagskrá flest kvöld vikunnar. Þar verður einnig boðið upp á spennandi leikhúsmatseðil fyrir sýningar um helgar og margt fleira svo heimsóknina í Þjóðleikhúsið geti orðið sem fjölbreyttust og eftirminnilegust. Dagskrárstjóri verður Örn Árnason.

Dómsalurinn
Þjóðleikhúsið hefur fengið afnot af gamla Hæstaréttarhúsinu við Lindagötu á meðan það hús bíður örlaga sinna, en það hefur nú staðið autt í 10 ár.  Þar fær gamli Dómssalurinn nýtt hlutverk og verður vettvangur viðburða og jafnvel leiksýninga.  Ef að líkum lætur verður tekist á í  Dómssalnum í vetur og mál leidd þar til lykta fyrir opnum tjöldum.