Árni Kristjánsson stýrir Höfundasmiðju hjá leikfélaginu Hugleik í febrúar og mars. Kennt verður yfir þrjár helgar í alls 18 tíma.
Höfundar fá þjálfun í undirstöðuatriðum leikritunar með heilum haug af stuttum verklegum verkefnum. Verkefnin eru til þess ætluð að hjálpa höfundum við lokaverkefni smiðjunnar sem er heildstæður einþáttungur fyrir tvær persónur. Leikritunarsmiðjan kynnir einfaldar og aðgengilegar aðferðir sem styðja höfunda í hugmyndaleit, persónugerð, hraðskrifum, skrif útfrá takmörkunum, endurskrift og greiningu.
Kennt er í húsnæði Hugleiks við Langholtsveg 111. Höfundar þurfa að geta komið með tölvu með sér en einnig stílabók og penna. Leikritunarsmiðjan hentar bæði reyndum og óreyndum höfundum og kostar 10.000 kr. fyrir þá sem greitt hafa félagsgjald í leikfélaginu. Skráning fer fram með því að senda póst á hugleikur@hugleikur.is fyrir miðnætti sunnudaginn 21. febrúar. Tímarnir verða sem hér segir:
27. febrúar 10-16
6. mars 10-16
28. mars 10-16
Árni Kristjánsson lauk BA í Fræði og framkvæmd árið 2008 og MA í leikstjórn frá Bristol Old Vic 2016. Árni vann til Grímuverðlauna 2004 fyrir útvarpsleikverk sitt Söng hrafnanna og fékk í fyrra listamannalaun fyrir að skrifa nýtt leikverk sem heitir Annar maður.
Hann er annar listrænna stjórnenda Lakehouse og hefur skrifað, ritstýrt, þýtt og leikstýrt nýjum leikverkum m.a. Í samhengi við stjörnurnar eftir Nick Payne 2017 og Rejúníon eftir Sóleyju Ómarsdóttur 2018 en það verk hlaut Grímuverðlaun 2019.
Árni hefur kennt leikritun í næstum öllum landshlutum, nú síðasta framhaldsnámskeið fyrir höfunda í Leiklistarskóla BÍL 2019.