Leikhópur Þjóðleikhússins frumsýndi í gær Sædýrasafnið eftir Marie Darriuessecq í Orléans. Verk þetta, sem sérstaklega var skrifað fyrir Þjóðleikhúsið og sýnt í Kassanum í mars, verður sýnt sex sinnum þar ytra og er uppselt á allar sýningarnar. Sædýrasafnið er fyrsta leikrit frönsku skáldkonunnar Marie Darrieussecq en er unnin í samstarfi við fyrrgreint ríkisleikhús í Orléans (Centre Dramatique National Orléans), með stuðningi franska sendiráðsins á Íslandi og Culturesfrance.

Leikhópnum var ákaft fagnað af áhorfendum eftir frumsýninguna, og uppselt er á allar sýningarnar í Orléans. Blaðaumfjöllun um sýninguna í Frakklandi, svo sem í Le Monde og Les Inrockuptibles, hefur einnig verið afar jákvæð. Á meðfylgjandi mynd eru leikarar á leið til kvöldverðar í miðbæ Orléans, en leikararnir hafa verið undanfarna daga við æfingar þar í borg.

Leikstjóri Sædýrasafnsins, Arthur Nauzyciel, er leikhússtjóri Ríkisleikhússins í Orléans. Hann hefur hlotið mikið lof fyrir sýningar sínar í Frakklandi og Bandaríkjunum, en hann hefur meðal annars starfað fyrir leiklistarhátíðina í Avignon, Comédie Française, Odéon-leikhúsið og American Repertory Theatre í Boston. Samstarfsfólk hans að þessu sinni er frá fimm löndum – Ítalíu, Belgíu, Bandaríkjunum og Íslandi, auk Frakklands. Uppselt er á sýningarnar á verkinu í Orléans en í borginni verða einnig á döfinni ýmsir menningarviðburðir tengdir Íslandi, m.a. með þátttöku rithöfundarins Sjón – sem þýðir Sædýrasafnið á íslensku, Barða Jóhannssonar sem semur tónlist við sýninguna og Ernu Ómarsdóttur sem sér um sviðshreyfingar ásamt samstarfsmanni sínum Damien Jalet.

Leikhópinn skipa Elva Ósk Ólafsdóttir, Margrét Vilhjálmsdóttir, Björn Hlynur Haraldsson, Stefán Hallur Stefánsson, Vigdís Hrefna Pálsdóttir, Ívar Örn Sverrisson og Valur Freyr Einarsson.

{mos_fb_discuss:2}