Laugardaginn 22. mars sl. frumsýndi Leikdeild Umf. Eflingar í samkomuhúsinu á Breiðumýri glænýtt íslenskt verk, Í beinni, eftir Hörð Þór Benónýsson með tónlist eftir Jaan Alavere í leikstjórn Jennýjar Láru Arnórsdóttur og tónlistarstjórn Jaan Alavere og Péturs Ingólfssonar.
Má segja að verkið sé gamandrama þar sem m.a. er fjallað á grátbroslegan hátt um fréttamat nútímans, auk þess sem skyggnst er nánar í fjölskyldulíf nokkurra persóna.

Verkið er samtímaverk sem gerist á einum sólarhring um verslunarmannahelgina á hinum ýmsu stöðum á landinu, auk þess sem beinar útsendingar frá útvarpsstöðinni FM 101 eru í gangi.

Í sýningunni taka þátt 25 leikarar, fjögurra manna hljómsveit og að tjaldarbaki er fjölmennur hópur fólks sem vinnur að sýningunni með einum eða öðrum hætti.

Kvenfélag Reykdæla sér um veitingasölu á sýningunni og fátt sem jafnast á við gómsæta vöfflu með kaffibollanum.

Leikdeildin er í samstarfi við veitingastaðinn Dalakofann sem býður upp á leikhúsmatseðil á sýningardögum.
Sýningar á, Í beinni, verða næstkomandi helgar á Breiðumýri í Reykjadal og er sýningarplan fram að páskum inn á leikdeild.is.

Hægt er að nálgast miða eða fá upplýsingar í síma 618 3945 og á leikdeild@leikdeild.is